Fara í efni

Þeir eiga þakkir skildar sem sýna málefnalegan áhuga


Eins og fram hefur komið í fréttum fer nú fram kröftug umræða innan Evrópusambandsins um hina nýju Þjónustutilskipun sem er í smíðum á vegum sambandsins. Tekist er á um skilgreiningu á þjónustu sem á að heyra undir Innri markaðinn, og þá einkum hvort velferðarþjónustan eigi að vera háð markaðslögmálum. Önnur umdeild ákvæði er einnig að finna í þessari tilskipun, svo sem Upprunalandsreglan sem opnar fyrir að slakir kjarasamningar verði fluttir frá löndum þar sem kjörin eru bágborin til landa þar sem samningar eru bærilegri. Hér á landi hafa forsvarsmenn evrópskrar verkalýðshreyfingar verið að undanförnu og talað mjög eindregið gegn tilskipuninni og vilja þeir hana út úr heiminum. John Monks, forseti ETUC, Evrópusambands verkalýðsfélaga, fjallaði um þetta efni á nýafstaðinni ráðstefnu sem hér var haldin á vegum EFTA og utanríkisráðuneytisins í tilefni þess að EES samningurinn var 10 ára. Hér voru síðan á vegum BSRB framkvæmdastjóri og varaformaður EPSU, Evrópusambands starfsfólks í almannaþjónustu, Carola Fischbach-Pyttel og Anne-Marie Perret. Þeir, sem boðið var að heyra röksemdir þeirra, sýndu málinu almennt mikinn áhuga. Utanríkisráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, aðilar á vinnumarkaði, þ.m.t. Verslunarráðið sendu fulltrúa á fundinn enda stórmál sem snertir okkur. Þá voru fulltrúar Evrópusamtakanna og Heimssýnar á svæðinu svo og stjórnmálamenn úr tveimur flokkum, Samfylkingunni og VG. Þingmennirnir tóku virkan þátt í umræðunni og sýndu henni verðugan áhuga. Miklivægt er að íslensk stjórnvöld sýni ekki andvaraleysi í þessu máli og reyndar öllum skuldbindingum okkar á alþjóðavettvangi. Allt of oft hefur það gerst að við fljótum sofandi að feigðarósi, vöknum þá fyrst upp með andfælum þegar allar ákvarðanir hafa verið teknar og allt um garð gengið. Eða skyldu menn hafa gleymt andvaraleysi stjórnarflokkanna varðandi raforkugeirann?
Sjá nánar á eftirfarandi slóð BSRB: hér