Fara í efni

„ÞEIR SEM BERA MIKIÐ ÚR BÝTUM EIGA AÐ LEGGJA MEIRA AF MÖRKUM"


Viðtal í Viðskiptablaðinu 17.09.09.
Erfiður niðurskurður blasir við heilbrigðisyfirvöldum en skera þarf niður um sex til sjö prósent á næsta ári. Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra segir í samtali við Viðskiptablaðið að hann vilji ekkert gera sem komi niður á sjálfum grundvelli heilbrigðisþjónustunnar. Þá segir hann að ríkisstjórnin sé áhugasöm um hátæknisjúkrahús við Hringbraut og að ákvörðunar megi vænta á næstunni.

Heilbrigðisráðuneytinu, það er að segja heilbrigðisstofnunum, sjúkrahúsum, heilsugæslustöðvum og öðrum stofnununum heilbrigðiskerfisins, verður gert að skera niður útgjöld um sex til sjö prósent á næsta ári. Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra segir að niðurskurðurinn muni óhjákvæmilega koma niður á þjónustu og bitna á kjörum heilbrigðisstarfsfólks. Útgjöld til heilbrigðismála eru rúmir hundrað milljarðar og því er um stórar upphæðir að ræða.

„Samdrátturinn í útgjöldunum verður mjög mikill og erfiður. Ekki síst í ljósi þess að á þessu ári var heilbrigðiskerfinu gert að draga saman seglin um 6,7 milljarða króna. Við erum því að tala um verulegan samdrátt á næsta ári sem reyna mun mjög á heilbrigðisstofnanir og alla sem þar starfa," segir hann og bætir við. „Verkefnið er að láta þetta bitna sem minnst á sjúklingum og störfunum. Það er hins vegar óhjákvæmilegt að það muni gera það að einhverju leyti."

Þegar Ögmundur er spurður hvar og hvernig skera eigi niður í heilbrigðiskerfinu nefnir hann þrjá þætti.

„Í fyrsta lagi erum við að tala um almennar aðhaldsaðgerðir í hverri stofnun fyrir sig. Við skulum ekki gleyma því að um 70 til 80 prósent af útgjöldum heilbrigðiskerfisins er launakostnaður. Það verður ekki sparað í heilbrigðisþjónustunni án þess að það komi við heildarlaunakjör einhverra. Menn hafa mismunandi kjör í heilbrigðisþjónustunni. Þeir sem bera mikið úr býtum, þeir sem hafa meira, eiga að mínum dómi að leggja meira af mörkum á meðan við göngum í gegnum erfiðleikana. Þetta þýðir kjarajöfnun."

Í öðru lagi nefnir hann endurskipulagningu, þ.e.a.s. að fara þurfi yfir - og sú vinna sé reyndar löngu hafin í ráðuneytinu og í stofnununum - hvernig nýta megi skurðstofur og sérfræðiþjónustu betur, svo dæmi séu nefnd, og efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustaðinn.

Í þriðja lagi nefnir hann að spara þurfi í lyfjakostnaði. Til dæmis með því að niðurgreiða fyrst og fremst bara ódýrustu lyfin að því gefnu að þau gefi jafn góðan árangur og dýrari lyfin.

Læknar yfirgefa ekki þjóð sína
Þegar hann er nánar spurður út í hvað hann eigi við með kjarajöfnun, og hvort það þýði lækkun launa starfsfólks svarar hann.

„Nei, það er ekki undir nokkrum kringumstæðum verið að lækka kjarasamningsbundin laun. Alls ekki. Kjörin skerðast hins vegar hjá ýmsum þegar dregið verður úr yfirvinnu, akstursgreiðslum og ýmsum aukagreiðslum sem ekki eru kjarasamningsbundnar."

Þá segir hann fyrirsjáanlegt að verulega þurfi að draga úr vaktavinnu og bakvöktum þar sem það sé hægt. Vaktavinnufyrirkomulag muni því breytast. „Við viljum halda störfum eftir því sem við getum og að verðmætin jafnist út á fleiri aðila. Það er markmiðið," segir hann.

Ertu ekkert hræddur um að heilbrigðisstarfsfólk og þar með læknar flýi land ef launakjör verða skert?

„Almennt held ég að læknar hugsi eins og aðrir Íslendingar, að við séum saman í þessum vanda, að við séum á sama báti og að við ætlum saman að leggjast á árarnar. Læknastéttin hefur alltaf þegar á hólminn er komið reynst mjög félagslega ábyrg. Hún yfirgefur ekki þjóð sína fyrir nokkrar krónur."

Ögmundur vill ekki fara nákvæmlega ofan í þær niðurskurðartillögur sem eru í vinnslu eða liggja fyrir. Þær muni allar koma fram í fjárlagafrumvarpinu sem verði kynnt í upphafi þings í byrjun október.

„Við eigum engra kosta völ en að skera niður og draga úr útgjöldum, en minn draumur er að þessar þrengingar skili okkur ekki lakara kerfi inn í framtíðina. Til þess að svo megi verða þurfum við að fara fetið og íhuga hvað við erum að gera við hvert fótmál. Ég vil ekkert gera sem vegur að sjálfum grundvelli heilbrigðisþjónustunnar. Ég hef áður sagt frá því að þegar ég kom á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og sá að búið var að slökkva á sundlaug sem notuð var í endurhæfingu varð ég mjög hugsi. Reksturinn kostaði eina milljón á ári. Mér fannst það dapurlegt en það er huggun harmi gegn að það má kveikja á henni aftur!"

Vill ekki þenja út nýja sjóði
Þegar Ögmundur ræðir niðurskurðinn framundan víkur hann að stöðugleikasáttmálanum sem stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins gerðu með sér í júní. Hann gagnrýnir áhersluna á nýjan Starfsendurhæfingarsjóð atvinnulífsins en samkvæmt sáttmálanum á ríkissjóður að leggja honum til verulegar upphæðir á næsta ári. Þegar upp er staðið eiga að koma í hann framlög frá atvinnurekendum, lífeyrissjóðum og ríkissjóði.

„Á sama tíma og við erum að skera niður í heilbrigðisþjónustunni - skera niður við Reykjalund, Grensás og til sjúkraþjálfara - erum við að þenja út úrræði af þessu tagi," segir hann.

„Ég er ekki viss um að menn átti sig á að hér stendur til að byggja upp sjóð sem fær 0,39% af launasummu landsmanna og fljótlega verður stærri en öll heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu."

Hann segir að hugmyndafræðin á bak við starfsendurhæfingarsjóðinn sé góð en segist þó þeirrar skoðunar að sjóðir sem þessir eigi í takmörkuðum mæli að vera vinnumarkaðstengt úrræði, eins og hann orðar það, heldur eigi að setja þá inn í almannaþjónustuna.

„Ég vil að minnsta kosti ekki þenja út nýja sjóði á sama tíma og við erum að draga saman endurhæfingu hjá aðilum á borð við Reykjalund og Grensás. Ég hefði því kosið að verkalýðshreyfingin beindi sjónum sínum ekki bara að sjóðum sem tengjast henni heldur heilbrigðiskerfinu almennt. Flestir þeir sem njóta almannaþjónustu heilbrigðiskerfisins bera uppi verkalýðshreyfinguna og henni ber að verja hagsmuni almennings í þessu sambandi. Eða til dæmis að berjast gegn markaðslausnum sem oftast reynast miklu dýrari, að minnsta kosti fyrir verkafólk sem veikist."

Talið berst að einkarekstri og einkavæðingu í heilbrigðisgeiranum og þarf ekki að koma á óvart að Ögmundur horfir ekki til markaðslausna.

„Nei, markaðslausnir eru ekki eitthvað sem við horfum á núna enda eru þær miklu dýrari, ranglátari og ávísun á félagslega mismunun," segir hann.

„Það er brýnast að endurskipuleggja alla þjónustu þannig að við veitum þjónustuna á réttum stað, á réttum tíma og gerum það með sem hagkvæmustum hætti."

Nýlega bárust fregnir af áhuga erlendra aðila á því að reisa einkaspítala hér á landi og segir Ögmundur að menn megi reisa alla þá einkaspítala sem þeir vilji svo framarlega sem reikningurinn verði ekki sendur til skattgreiðenda.

„Vandinn er nefnilega sá að þessar lausnir byggja yfirleitt á því að nýta sér almennu heilbrigðisþjónustuna sem bakhjarl, annað hvort beint eða óbeint," segir hann.

Ekki eins og landakaup á SpánI
En það eru ekki bara útlendingar sem sjá tækifæri í heilbrigðisþjónustunni. Ögmundur segir að tveir Íslendingar hafi sett sig í samband við sig nýverið til að ræða einkarekstur. Annar þeirra sé Gunnar Ármannsson, framkvæmdastjóri Læknafélagsins, sem hafi áhuga á að reisa hér einkaspítala og hinn sé Róbert Wessmann, sem hafi áhuga á að leigja skurðstofur á Suðurnesjum.

Ögmundur segir að hann og Gunnar hafi ekki enn náð saman á fund en hann hafi hins vegar rætt við Róbert.

„Hann hefur óskað eftir því að taka á leigu skurðstofur suður með sjó og við höfum sagt að við séum að skoða hvernig þær nýtist okkur. Síðan viljum við fá nánari útlistun á því hvað hann og viðskiptafélagar hans hyggjast fyrir. Þeir hafa margir komið víða við í viðskipta- og stjórnmálalífinu hin síðari ár og gert margt gott, en heilbrigðisþjónusta hér er ekki eins og landakaup á Spáni, eða þróun innistæðureikninga í banka, heima og heiman."

Ögmundur ítrekar að hann hafi aldrei verið hugfanginn af hugmyndinni um einkaspítala og einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni.

„Við skoðum hins vegar viðskiptahugmyndir þeirra og sjáum hvernig þær ríma við hugmyndirnar um almannaheilbrigðisþjónustu."

Nýlega var greint frá því að 27 starfsmönnum mötuneyta Landspítalans hefði verið sagt upp störfum þar sem rekstur mötuneytanna hefði verið boðinn út. Ögmundur segir að útboðið sé ekki runnið undan sínum rifjum.

„Þetta var búið að vera í farvatninu löngu áður en ég kom inn í ráðuneytið," segir hann og bendir jafnframt á að einvörðungu sé um að ræða matseld fyrir starfsfólk en ekki sjúklinga.

„Það er út af fyrir sig illa samræmanlegt að bjóða starfsfólki upp á sama kost og sjúklingum. Sjúklingar þurfa sérvalið fæði sem sett er saman af sérfræðingum spítalans, en allt öðru máli gegnir um starfsfólkið. Ég átti fund með stjórnendum LSH um leið og ég frétti af þessu. Á þeim fundi lagði ég mikla áherslu á að þeir stilltu sér upp með starfsmönnunum og gerðu allt sem í þeirra valdi stæði til að tryggja þeim störf á spítalanum."

Ögmundur segir aðspurður að honum lítist ekki á að slík verk, eins og rekstur mötuneyta eða ræstingar, séu boðin út.

„Oft hefur það sýnt sig að útboðin skila engu þegar grannt er skoðað. Það var til dæmis mikill ákafi á sínum tíma að bjóða út alla þvotta fyrir LSH en frá því var horfið eftir að kannanir höfðu leitt í ljós að það yrði miklu dýrara. Þessi árátta á undanförnum árum að fela einkaaðilum alla hluti hefur reynst samfélaginu óskaplega dýr. Til dæmis er opinber starfsemi meira og minna í rándýru leiguhúsnæði einkaaðila til 25 til 50 ára. Það er út í hött. Þetta er leið til að færa peninga ofan í vasann á fjárfestum í stað þess að láta almenning njóta lægri skatta."

Hann heldur áfram og segir að það verði að skoða alla hluti heildstætt.

„Ef þú semur við stofnun um tiltekin verk sem unnin eru af launamanni spítala fyrir fimmtíu milljónir króna og færð svo tilboð frá verktaka sem segist geta gert þetta fyrir 45 milljónir þá er ekki sjálfgefið að það boð sé hagstæðara. Hverju skilar launamaður aftur til samfélagsins í formi skatta og hverju skilar verktakinn til samfélagsins í formi fyrirtækjaog fjármagnstekjuskatta? Menn verða til dæmis að skoða málin með hagsmuni heildarinnar í huga. Heildarhagsmunir eiga að vera ríkjandi, sérhagsmunir víkjandi."

Hátæknisjúkrahús enn á teikniborðinu
Talið berst næst að byggingu nýs hátæknisjúkrahúss við Hringbraut. Ögmundur segir aðspurður að það sé enn á teikniborðinu.

„Já, ég vonast til þess að það líði ekki margar vikur þangað til við fáum niðurstöðu í þetta mál, en það er á vinnsluborði ríkissjóðs og lífeyrissjóða. Ríkisstjórnin er áhugasöm um byggingu sjúkrahússins og lífeyrissjóðirnir eru áhugasamir um að setja peninga í verkefnið. Það sjá það allir að þetta er þjóðþrifaverkefni. Það skapar atvinnu. Auk þess verður samruni spítalanna í Reykjavík, Borgarspítalans og Landspítalans, ekki að veruleika fyrr en þessi bygging er komin til sögunnar. Þá munu samlegðaráhrifin fyrst koma fram."

Í grein Viðskiptablaðsins á síðastliðnu ári kom fram að kostnaður sjúkrahússins var talinn vera í kringum 100 milljarðar.

Að lokum er ekki úr vegi að spyrja Ögmund út í stjórnarsamstarfið og hvernig það gangi. Hann svarar því til að vilji sé allt sem þurfi og að sá vilji sé til staðar hjá báðum stjórnarflokkunum.

„Stjórnarflokkarnir eru staðráðnir í því að vinna vel saman. Stjórnmálaöflin sem bera ríkasta ábyrgð á efnahagshruninu þurfa hvíld, langa hvíld."

Hann segir gott að flokkunum hafi tekist að ná þverpólitískri niðurstöðu í Icesave- málinu á Alþingi, en allir flokkar nema Framsóknarflokkurinn stóðu að breytingartillögum við Icesave ríkisábyrgðina. Hún var svo endanlega samþykkt með atkvæðum stjórnarflokkanna. Ögmundur segir að Evrópusambandsmálið hafi hins vegar reynst Vinstri grænum mjög erfitt en það var samþykkt á Alþingi sem kunnugt er í sumar, með atkvæðum ríkisstjórnarþingmanna, að sækja um aðild að ESB.

„Margir okkar flokksmanna eru mjög leiðir og reiðir yfir því í hvaða farveg þetta mál hefur farið. Það var hins vegar þannig að ég greiddi atkvæði í samræmi við það sem ég sagði fyrir kosningar," segir Ögmundur en hann greiddi atkvæði með aðildarumsókn.

Hann segir að niðurstöðu verði að fá í þessu máli og virða beri skoðanir þeirra sem vilja láta reyna á viðræður.

„Það er þetta sem mestu máli skiptir, að virða lýðræðið. Hin lýðræðislega umræða og sjálf niðurstaðan, hvort sem mér hugnast hún eða ekki, er miklu stærri og merkilegri en stjórnmálaflokkarnir VG, Samfylkingin eða Sjálfstæðisflokkurinn. Þetta ferli er miklu merkilegra en Evrópusambandið sjálft. Það er fyrst og fremst lýðræðið, opið lýðræðislegt samfélag fyrir alla, sem við eigum að þróa áfram. Á Alþingi, í stjórnmálunum almennt, og í samskiptum við aðrar þjóðir. Ekkert hefur gert okkur sterkari bæði inná við og í samskiptum við aðrar þjóðir en lýðræðishefðin sem við eigum."