Fara í efni

ÞEIR VERÐA Í LISTAHÁSKÓLANUM Á FÖSTUDAG KLUKKAN 20!

Ogmundi og Israeli
Ogmundi og Israeli


Midnight Sun Guitar Festival
er gítarhátíð sem haldin hefur verið undanfarin tvö ár í Reykjavík. Ef vel tekst til að þessu sinni - einsog undanfarin ár - þá standa vonir til að þetta geti orðið að árlegum viðburði í menningarlífinu.

Það eru tveir ungir klassískir gítarleikarar Ögmundur Þór Jóhannesson og Svanur Vilbergsson,sem standa að hátíðinni sem að þessu sinni samanstendur af þrennum tónleikum en síðustu tónleikarnir eru gala tónleikar með listamönnum og nemendum sem tengjast hátíðinni.

Á fyrstu tónleikunum koma þeir fram Tal Hurwitz og Ögmundur Þór Jóhannesson en tónleikar þeirra fara fram í Sölvhól, Listaháskóla Íslands, að Sölvhólsgötu 13, Reykjavík, föstudaginn 8. maí kl. 20:00. 

Tal Hurwitzsem kemur frá Ísrael,er heimsþekktur listamaður sem unnið hefur til margra alþjóðlegra verðlauna sem gítarleikari og sem tónskáld einnig. Ögmundur Þór hefur einnig skapað  sér alþjóðlega viðurkenningu og hefur hann komið fram á tónleikum og listahátíðum víðs vegar um heiminn á undanförnum árum og á meðal annars kynnt íslenska tónlist.

Haft hefur verið eftir listamönnunum að þeir hafi lengi beðið þess að fá tækifæri til að leika saman í dúett en á tónleikunum í Sölvhól á föstudag rætist sá draumur.Báðir munu þeir einnig flytja einleiksverk á tónleikunum.

Á laugardag koma fram á sama stað klukkan 20  hjónin Veronique van Duurling frá Belgíu og Harold Gretton frá Ástralíu. Þau eru einnig afburða tónlistarmenn og er hér að finna upplýsingar um þau:http://www.veroniquevanduurling.com/duo-amythis.html

Því miður verð ég ekki staddur á landinu á föstudag og get ekki sótt framangreinda tónleika. Ég hef hins vegar sótt gítarhátíðna, Midnight Sun Guitar Festival, undanfarin ár og þar að auki  iðulega heyrt Ögmund þór Jóhannesson leika á gítar, nú síðast í vetur ásamt Selmu Guðmundsdóttur, píanóleikara og Sigrúnu Eðvaldsdóttur, fiðluleikara á frábærum tónleikum í Norræna húsinu. Allt hafa þetta verið frábærir tónleikar og ætla ég að hvetja allt áhugafólk um góða tónlist að sækja þessa fyrirhuguðu tónleika, sjálfu sér til skemmtunar og andlegrar heilsubótar og listamönnunum til stuðnings í göfugu hlutverki þeirra.
Plakat Gala