Fara í efni

ÞESSUM DRENG VERÐI EKKI VÍSAÐ ÚR LANDI

Myndin er af Yazan, 11 ára dreng frá Hebron í Palestínu sem notið hefur skólagöngu og lífsnauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu á Íslandi þar sem hann nú á heima.

Drengurinn er með vöðvarýrnunarsjúkdóminn Duchenne Muscular Dystrophy (DMD). Sá sjúkdómur veldur í öllum tilfellum sifellt vaxandi máttleysi og með tíð og tíma missis á allri hreyfigetu, að lokum leiðir hann til lömunar. Við þetta bætast svo erfiðleikar við öndun.
Það gefur nánast auga leið að Þessum sjúkdómi fylgja ekki aðeins líkamlegar afleiðingar heldur einnig sálrænar og félagslegar, s.s. depurð, vanlíðan og einmanaleiki.

Allt þetta er hlutskipti Yazans litla sem þegar er kominn í hjólastól. Fram hefur komið að hann hafi verið lagður inn á Rjóður Landspítalans, nánast hættur að geta setið og grét af verkjum.

Nú stendur til að flytja þennan litla veika dreng nauðungarflutningum úr landi því nú liggi stjórnvöldum á að leysa «útlendingavandann».

Hver er sá vandi?

Til Íslands hafa flust tugþúsundir einstaklinga á undangengnum árum. Flestir koma vegna þenslu í atvinnulífinu sem hefur á tímabilum verið allt of ör. Svo er enn.
Undir þessa þenslu kapítalismans hafa stjórnvöld kynt og geta ekki hugsað sé neitt verra en að þar dragi úr.

Fórnarlambið er síðan tungan og félagslegir innviðir landsins sem eru við að bresta á ýmsum sviðum. Þetta er vandinn, ekki Yazan eða hans líkar!

Stjórnvöldum ber að endurskoða ákvörðun sína um að flytja þennan litla veika dreng nauðungarflutningi úr landi.
Slíkt væri alvarlegt brot á mannréttindum.

Ég vek athygli á að Vinir Yazans standa fyrir samstöðufundi með drengnum næstkomandi þriðjudag á Austurvelli kl 5

 

----
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.