ÞETTA LÍKAR MÉR
Ég hef gagnrýnt Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra fyrir að liggja nánast á hnjánum frammi fyrir erlendum fjárfestingaspekúlöntum að biðja þá að koma hingað til lands með úttroðna vasa fjár til að ávaxta sitt pund. Þetta hefur verið nokkuð samtóna gamalkunnum söng „aðila vinnumarkaðar",alla vega ASÍ/SA hlutans, undanfarin ár. Þessir „aðilar"hafa aldrei svarað ákalli hvorki mínu né annarra um að fá að vita hvar þeir vildu að erlendir fjárspekúlantar fjárfestu. Helst hefur verið á þeim að skilja að það væri fyrst og fremst í stóriðju, í orkunni og auðlindunum. Erlend fjárfesting í þessum greinum er jafn varasöm að mínu mati og hitt er æskilegt að fá samstarf við erlend fyrirtæki færandi þekkingu og hugsanlega einnig fjármagn til uppbbyggingar í atvinnulífi. (sjá, t.d. hér: https://www.ogmundur.is/is/greinar/voknum )
Nú bregður svo við að forsætisráðherrann tjáir sig um erlendar fjárfsetingar og talar þar mjög að mínu skapi. Í samtali við RÚV segir hann m.a. „Ja, erlend fjárfesting í bland við innlenda er auðvitað æskileg. En erlend fjárfesting hefur þó ákveðinn galla umfram innlenda fjárfestingu sem er sá, að hún er í eðli sínu lík erlendri lántöku. Því að erlendur fjárfestir sem fjárfestir í öðru landi ætlar eðlilega að ná meiru út, með vöxtum, en hann setti inn. Sem sagt: þetta er í eðli sínu eins og erlend lántaka. Og Ísland skuldar töluvert í erlendri mynt. Svoleiðis að þegar er möguleiki á að fjármagna nýsköpun innanlands, ég tala nú ekki um nýsköpun á sviði útflutnings - þá er það besti kosturinn."
Og fréttamaður spyr: „Þannig að í rauninni ertu að segja að það sé betra að innlendir fjárfestar fjárfesti í fyrirtækjum heldur en erlendir? Og forætisráðherra svarar: „Þegar það er möguleiki. Í sumum tilvikum þurfa menn á þekkingu að halda frá erlendum fjárfestum, að þeir komi inn, ekki bara með fjármagnið heldur líka með starfsaðferðir eða þekkingu sem nýtist, en þar sem vantar fyrst og fremst fjármagn til þess að borga fólki laun til þess að það geti unnið sína vinnu, þá er auðvitað æskilegra að sú fjármögnun verði til innanlands heldur en að menn séu að flytja inn fjármagn sem síðan streymir aftur út á endanum." Sjá hér: http://ruv.is/frett/erlend-fjarfesting-lik-skuldsetningu