ÞINGMAÐUR FRAMSÓKNAR FER MEÐ RANGT MÁL Í SJÓNVARPSFRÉTTUM
Í fréttum Sjónvarpsins 2. október birtist viðtal við Höskuld Þórhallsson þingmann Framsóknarflokksins þar sem hann talar fyrir því að hraðað verði byggingu álvers á Bakka við Húsavík. Fráleitt sé að reisa álver á Suðvesturhorninu þar sem mikil þensla sé í atvinnulífinu. Þess í stað eigi að beina sjónum að álveri við Húsavík. En er þingmaðurinn vongóður um að slíkar hugmyndir fái stuðning, spyr fréttamaður. Höskuldur svarar því játandi, á þinginu sé að hans mati breiður stuðningur við slíkar hugmyndir, líka hjá þingmönnum Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs! Orðrétt sagði Höskuldur: „Ég finn bara fyrir mjög jákvæðum straumum hjá Vinstri grænum – þeir taka undir það sem ég hef heyrt. Það virðist vera breiður grundvöllur…“
Sannast sagna furða ég mig á því að fréttastofa Sjónvarps skuli ekki hafa, þegar í gær, leitað eftir staðfestingu frá VG á því sem þarna er staðhæft því ef fullyrðingar þingmannsins ættu sér sér stoð í veruleikanum væri einfaldlega um algera kúvendingu í afstöðu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs að ræða. Ekki er nóg með að VG sé því ekki fylgjandi að flýta byggingu álvers á Bakka, flokkurinn hefur talað gegn því að álver verði yfirleitt reist þar.
Getur verið að það hafi farið framhjá Framsóknarflokknum og þess vegna fréttastofu Sjónvarpsins einnig, að VG hefur talað fyrir stóriðjustoppi.
Sjá frásögn frá fundi þar sem ég var fulltrúi fyrir VG fyrir síðustu alþingiskosningar, HÉR
Hér er slóð á umrædda sjónvarpsfrétt: http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4338444/1