Þjóðbanki í hendur athafnaskálda
Í lesendadálkinum í dag birtist grein eftir Þorleif Óskarsson sagnfræðing þar sem hann bregður ljósi á sölu þjóðbankanna. Sjónarhornið er ekki hið sama og við eigum að venjast úr fjölmiðlaumræðunni hér og væri betur ef fleiri kæmu auga á þá fleti sem bent er á í greininni. Ég hvet alla til að lesa greinina en þar segir m.a.: “Sagt er að í alræðisríkjum þurfi þegnarnir að hugsa og tala eins og smábörn og umfram allt að undirgangast hin opinberu trúarbrögð, barnatrúna, ef þeir ætla ekki að teljast óalandi og óferjandi. Í alræðisríkjum kapítalismans, þar sem peningar skipta öllu, er frjálshyggjan að sjálfsögðu hin viðurkenndu trúarbrögð. Látum það ekki henda okkur eitt augnablik að trúa prestum hennar sem boða þann barnaskap að gróði hinna fáu muni koma öllum til góða. Þannig er það ekki og mun aldrei verða. Því er mikilvægt að haldið sé á lofti öflugri gagnrýni gegn tískustraumum frjálshyggjunnar sem plaga flest stjórnmálaöfl á Vesturlöndum nú um stundir og ber þá síst af öllu að undanskilja svonefnda jafnaðarmannaflokka. Þar ræður sú aumlega heimspeki ríkjum að fyrst megi éta kökuna en eiga hana engu að síður áfram.” Þetta eru aðeins fáeinar línur úr frábærri grein Þorleifs Óskarssonar um athafnaskáldin og þjóðbankasöluna.