Fara í efni

ÞJÓÐHÁTÍÐ BANDARÍKJANNA: AT THE INVITATION OF SEGLAGERÐIN ÆGIR

Hinn 4. júlí nálgast óðum og líður því senn að því að ríkasta stórveldi heimsins, Bandaríki Norður-Ameríku, haldi upp á þjóðhátíðardag sinn. Hinn 4. júlí  árið 1776 var lýst yfir sjálfstæði Bandaríkjanna, sem heyrt höfðu undir bresku krúnuna. “Þar með hófst ameríski draumurinn”, segir George Bush Bandaríkjaforseti á sérstakri heimasiðu sem opnuð hefur verið vegna hátíðahaldanna: “Við bjóðum öllum þjóðum heims að halda upp á daginn með okkur á netinu”, segir forsetinn þar í ávarpi. Ekki nóg með þetta, sendiráð Bandaríkjanna um heim allan efna til hátíðahalda í tilefni dagsins. Ég gef mér að svo sé, því varla er einvörðungu stofnað til fagnaðar í sendiráðinu í Reykjavík en frá því streyma nú út boðskortin.
Allt þetta umstang hlýtur að kosta sitt. Bjór og pitsur er að vísu ekki mjög kostnaðarsamur kostur á mælikvarða Íraksstríðsins eða stjörnustríðsáætlunarinnar en allt telur þetta. Þess vegna ber að fagna því að fyrirtæki, innlend og fjölþjóðleg, skuli hafa hlaupið undir bagga með George Bush og félögum sem stýra bandaríska heimsveldinu. Það er ekki amalegt að eiga Dominos pizzur að við slíkt partíhald, að ekki sé minnst á Century Aluminum, Seglagerðina Ægi og öll þau gjöfulu fyrirtæki sem skilmerkilega eru tilgreind á boðskorti Bandaríkjaforseta vegna þjóðhátíðarboðsins. Við hljótum öll að taka undir með George Bush í fyrrnefndu ávarpi: Happy Birthday America!

Ávarp Bush HÉR.