ÞÖRF Á PÓLITÍSKRI GJÖRGÆSLU
Birtist í Morgunblaðinu 15.05.05
Um það var rætt undir þinglokin að nauðsynlegt væri að lengja þinghaldið. Ég blandaði mér í þessa umræðu og kvað mikilvægara að efla innra starf þingsins en lengja þingfundi. Þannig ættu nefndir þingsins að vinna af krafti yfir sumarið, nokkuð sem reyndar er að færast í vöxt í seinni tíð. Síðan gerist það eftir að þingi er slitið að Valgerður Sverrisdóttir, viðskipta- og iðnaðarráðherra fer að tjá sig af miklum ákafa í fjölmiðlum. Fékk ég þá eftirþanka um lengd þinghaldsins. Ráðherrann talaði af miklum hroka niður til stofnana í almannaþjónustu. Þær hefðu gengið of langt í umsögnum sínum um stjórnarfrumvörp og væru þær Sigríður Anna Þórðardóttir, umhverfisráðherra, og hún um þetta sammála. Þessar stofnanir hefðu leyft sér að tjá sig um lagafrumvörp frá ríkisstjórninni á gagnrýnin hátt. Þannig hefði Umhverfisstofnun gengið of langt í umsögn sinni um vatnalög og Samkeppnisstofnun um samkeppnislög. Opinberum stofnunum bæri að "taka tillit til þeirra skilaboða sem koma frá stjórnvöldum", sagði Valgerður Sverrisdóttir í viðtali við Ríkisútvarpið. Hvað er ráðherrann að fara? Á starfsfólk fyrrnefndra stofnana að kasta sannfæringu og faglegum sjónarmiðum fyrir róða til að þóknast duttlungum þeirra Sigríðar Önnu og Valgerðar? Og hvar eru rökin? Á hvern hátt höfðu þessar stofnanir gengið of langt í umsögnum sínum? Hafði ekki einmitt verið óskað eftir því að þær gæfu faglega og þá væntanlega gagnrýna umsögn? Gætum við fengið efnislega umræðu?
Tónninn í máli iðnaðarráðherra var yfirlætisfullur og bar vott um löngun til að beita því valdi sem fylgir ráðherraembættinu. Þessu valdi er Alþingi ætlað að veita aðhald. Þegar þingið ekki situr er þetta aðhald ekki til staðar í sama mæli og þegar Alþingi er að störfum. Við það að hlusta á Valgerði Sverrisdóttur ráðherra tala í fréttatímum fjölmiðla niður til starfsmanna ríkisins og sveifla framan í þá valdstjórnarsvipunni kom það upp í huga minn að sennilega sé það nauðsynlegt að Alþingi sitji lengur en nú tíðkast. Með ráðherra eins og núverandi iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra við stjórnvölinn þyrfti Alþingi sennilega að sitja allan ársins hring. Ekki svo að skilja að við þessa ráðherra eina sé að sakast. Það er kunnara en frá þurfi að segja að oddvitar ríkisstjórnarflokkanna, þeir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson þyrftu að vera undir stöðugu eftirliti. Ef vel ætti að vera væru þeir öllum stundum, dag og nótt, í pólitískri gjörgæslu.