Fara í efni

ÞÖRF MARKVISSRA AÐGERÐA


Hæstiréttur hefur úrskurðað gengistengd lán ólögleg. Lántakendur hrósa sigri. Þeir segja margir hverjir að eftir að gengistenging lána hafi verið numin brott skuli þeir hlutar lánasamningsins sem ekki eru í blóra við lög standa. Þetta kveðast lánveitendur hins vegar ekki ætla að sætta sig við og hafa lýst því yfir að þeir muni leita réttar síns fyrir dómstólum. Gott og vel. Þangað eru þessi mál komin. Ástæðan er sú að stjórnvöldum hefur ekki tekist að færa lánamál fjölskyldna og fyrirtækja inn í farveg sem almenn sátt er um í þjóðfélaginu. Þess í stað var lántakendum beint inn í hinn sértæka farveg annars vegar (sem vissulega er góðra gjalda verður, svo sem nýsamþykkt lög um greiðsluaðlögun,  en of takmarkaður) og til dómstóla hins vegar. Sagt var: Þeir sem telja á sér brotið leiti til dómstóla. Nú liggur niðurstaða dómstóla fyrir. Hana ber að virða. Ef lánveitandinn telur á sér brotið getur hann farið sömu leið og lántakandinn.

Spurningin er nú sú, hvort fjármálafyrirtækin telji að Seðlabankinn og FME hafi tekið af sér ómakið. Þau séu einfaldlega laus allra mála. Með tilmælum þessara aðila sé fundin leið sem þau geti farið. Svo er ekki. Í yfirlýsingu FME og Seðlabanka eru tekin af öll tvímæli um að tilmælin séu til bráðabirgða: „Á meðan ekki hefur verið skorið úr um umfang og lánakjör þeirra samninga..." segir í yfirlýsingu FME.

Mín skoðun er sú, að þrátt fyrir fyrirvara FME og Seðlabanka, hafi það verið mjög misráðið að gefa út tilmæli um vaxtakjör ofan í dóm Hæstaréttar.  Ef lánveitendur efast um skyldur sínar og réttmæti niðurstöðu Hæstaréttar eða telja þar eitthvað óútkljáð, verða þeir að fá niðurstöðu fyrir dómi. Hagsmunsamtök heimilanna hafa hvatt til þess að lagalegri óvissu verði eytt með þessum hætti. 

Hlutverk ríkisvaldsins er í mínum huga nú tvíþætt:
1) Gera allt sem í valdi framkvæmdavaldsins stendur til að tryggja skjóta úrlausn mála fyrir dómstólum um þau atriði sem aðilar að lánasamningum kunna að véfengja.
2) Setja í gang markvissa vinnu um almennar aðgerðir í þágu skuldara.

Þetta ber ríkisvaldinu að gera þegar í stað. Ef Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er þessu andvígur - sem hann hefur verið til þessa - þá þarf það að koma fram. Þjóðin á rétt á opinni umræðu um þessi mál.