Þórólfur gerði rétt
Í dag tók Þórólfur Árnason af skarið og sagði upp stöðu sinni sem borgarstjóri í Reykjavík. Þetta tel ég hafa verið viturlega ákvörðun af hans hálfu bæði pólitískt og fyrir hann persónulega. Með þessari ákvörðun axlar Þórólfur Árnason félagslega ábyrgð. Hann sýnir í verki að hann setur hag Reykvíkinga og pólitískra samherja sinna í Reykjavíkurlistanum ofar sinni persónu.
Reykjavíkurfélag VG efndi til félagsfundar í kvöld. Þar var ákvörðun borgarstjóra fagnað. Þórólfur Árnason sendi vinsamleg skilaboð inn á fundinn og var þeim vel tekið. Ég hef fylgst náið með framvindu þessa máls. Af hálfu VG var frá upphafi fjallað um það af mikilli alvöru en alltaf reiðilaust. Á fundinum í kvöld lýstu margir velvilja í garð Þórólfs Árnasonar. Það breytir því ekki að fundarmönnum þótti hann breyta rétt.
Kastljósi fjölmiðlanna hefur fram að þessu fyrst og fremst verið beint að Þórólfi Árnasyni, sem þó fer með aukahlutverk í þessu drama. Nú mun fjölmiðlamönnum gefast tóm til að beina sjónum víðar og þá kannski að aðalleikurunum. Gæti verið að sama sukkið og svindlið sé að finna víðar? Ekki hef ég á móti samvinnu og samráði, ekki heldur þegar olíufélög eiga í hlut, að því gefnu að það fari fram á heiðarlegum forsendum. Öðru máli gegnir þegar fyrirtæki sammælast um að hafa fé af fólki, fyrirtækjum og almannastofnunum eins og olíufyrirtækin gerðu þegar þau létu í veðri vaka að þau tækju þátt í útboðum en höfðu í reynd ákveðið sameiginlega hver fengi verkefnið hverju sinni og skiptu síðan ágóðanum með sér. Hvernig væri að líta á tryggingafyrirtækin næst?