Fara í efni

ÞORSTEINS GUÐMUNDSSONAR MINNST

Í dag, laugardaginn 5. október, fór fram á hjúkrunarheimilinu Seltjörn á Seltjarnarnesi minningarathöfn um vin minn og frænda, Þorstein Guðmundsson frá Holti í Svínadal.
Agnes Sigurðardóttir biskup stýrði helgihaldi, sonur Þorsteins, Lúkas, minntist föður síns svo og bróðir hans, Halldór bóndi í Holti sem lauk orðum sínum á þeim ummælum um Þorstein að hann hafi verið "hlýr og viðmótsþýður maður". Það eru orð að sönnu. 

Um starfsferil Þorsteins segir meðal annars í formála að minningarskrifum um Þorstein sem birtust í Morgunblaðinu í dag:

«Þorsteinn Guðmundsson gekk í farskóla Svínavatnshrepps en síðan í Héraðsskólann á Reykjum og lauk þaðan landsprófi 1966. Hann tók stúdentspróf af náttúrufræðibraut Menntaskólans á Akureyri 1970 og árin 1970–1974 nam hann búvísindi við Edinborgarháskóla sem lauk með BSc-gráðu. Þorsteinn var við framhaldsnám í jarðvegsfræði við Aberdeenháskóla 1974–1978 og lauk þaðan doktorsprófi. Árin 1978–1980 naut Þorsteinn styrks frá Alexander von Humboldt Stiftung til rannsóknardvalar hjá jarðvegsskor við skógræktardeild Albert Ludwig háskólans í Freiburg og gegndi stöðu háskólakennara við jarðvegsskor innan landslagsmótunarsviðs Tækniháskólans í Berlín á árunum 1980–1985. Í byrjun árs 1986 var flutt til Íslands í stöðu kennara við Bændaskólann á Hvanneyri og henni gegnt til 1990. Árið 1990 flutti fjölskyldan aftur til Þýskalands og Þorsteinn sinnti heimilisstörfum auk stundakennslu og stakra annarra verkefna næstu ár. Frá 1999 til starfsloka 2018 var hann í hlutastarfi sem prófessor í jarðvegsfræði við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Á starfsferli sínum hafði Þorsteinn meðal annars umsjón með rannsóknarstofum og gegndi ýmsum stjórnunarstörfum, meðal annars sem sviðsstjóri Náttúrunýtingarsviðs háskólans. Þorsteinn hafði mikinn áhuga á kennsluaðferðum, öflun og miðlun þekkingar. Hann samdi snemma námsefni í jarðvegsfræði sem hann prufukenndi og endurbætti reglulega uns hann gaf út ítarlega kennslubók í greininni árið 2018. Auk kennslustarfa skrifaði Þorsteinn tugi vísindagreina í innlend og erlend fræðirit, ýmist einn eða með öðrum.»

Eftirfarandi voru minningarorð mín um Þorstein í Morgunblaðinu:

Lengi vel hafði ég ekki hugmynd um hve náskyldir við Þorsteinn Guðmundsson værum. Þorsteinn var engu fróðari um það en ég.
Það var svo haustið 1970 að við tókum tal saman á stúdentagarði í Pollock Halls þar sem flestir aðkomumenn við Edinborgarháskóla leigðu framan af í námi sínu við skólann. Eins og gerist með Íslendinga sem hittast utan landsteinanna fórum við strax að rekja okkur saman, finna samnefnara, hvar væru heimahagarnir á Íslandi, síðan hvort um sameiginlega vini væri að ræða að ekki sé minnst á fjölskyldutengsl, voru þau hugsanlega einhver?

Við vorum strax komnir norður í Húnavatnssýslu þaðan sem báðir röktu ættir sínar. Jú Torfalæk þekkti Þorsteinn og Geithamra þekkti ég. Við vissum að á Torfalæk hafði búið Ingibjörg Björnsdóttir amma mín og á Geithömrum Halldóra Björnsdóttir amma Þorsteins. Þær voru systur. Þar með lá þetta ljóst fyrir. Við Þorsteinn Guðmundsson vorum þremenningar.

Ég kannaðist strax við ýmsa ættartakta í Steina og hann eflaust í mér, vissir í sinni sök, jafnvel svolítið þrjóskir ef því var að skipta. En ég kynntist líka fljótt ýmsum mannkostum Þorsteins, hvílíkt ljúfmenni hann var, heiðarlegur og óvenju sjálfstæður í hugsun. Með okkur tókst fljótlega góð vinátta. Og þegar báðir vildu út af stúdentagarði og leigja úti í bæ varð að ráði að við leigðum saman ásamt þriðja manni, Skagfirðingnum Magnúsi Sigurðssyni.
Ekki minnist ég þess að nokkurn tímann hafi slest upp á vinskapinn í þröngu sambýli okkar. Þvert á móti hnýttust enn fastar vinaböndin.

Eftir háskólanámið urðu samfundir okkar Þorsteins stopulli þótt leiðir lægju oftar saman árin sem hann kenndi á Hvanneyri. Sannast sagna áttum við Vala kona mín það ógert, en engu að síður alltaf á dagskrá, að heimsækja þau Ulrike í Svartaskógi í Suður-Þýskalandi.

Þorsteinn var vel giftur, ég held að við Vala höfum notið þess heiðurs af hálfu Steina að vera fyrstu vinirnir utan fjölskyldunnar sem hann kynnti verðandi konu sína fyrir. Það varð okkur strax augljóst að þar var Þorsteinn Guðmundsson kominn með traustan lífsförunaut sér við hlið.

Missir Ulrike og sonanna þriggja er mikill. Við færum þeim okkar innilegustu samúðarkveðjur um leið og við kveðjum traustan vin og góðan dreng.

----------------------------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.