Fara í efni

ÞRÁLÁTT MEIN TEKUR SIG UPP

Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort kunni að vera til eitthvert læknisráð gegn flugvallarþráhyggjunni.
Reyndar held ég að ráðið gegn flestum meinum sem hrjá stjórnmálamenn sé ofur einfalt: Almenningur ráði.

Fyrir allmörgum árum var efnt til atkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Kosningin yrði því aðeins bindandi að lágmarksþátttaka fengist. Það tókst ekki. Naumur meirihluti í þessari ómarktæku atkvæðagreiðslu vildi flugvöllinn burt.
Engu að síður voru vísbendingar um að meirihluti borgabúa vildi halda í flugvöllinn í Vatnsmýrinni og í öllum skoðanakönnunum síðan hefur yfirgnæfandi meirihluti í ÖLLUM flokkum verið þeirrar skoðunar.

Ef kosið yrði um flugvöllinn þarf að sjálfsögðu að greiða atkvæði á landsvísu. Höfuðborgin er nefnilega okkar allra og flugvöllurinn þjónar landsmönnum - ÖLLUM.
Þannig að fyrir alla muni kjósum um framtíð Reykjavíkurflugvallar og gerum það í alvöru á landsvísu.

Ég vona að þetta komi ekki til með að þvælast fyrir stjórnarmyndun í borginni, hvorki flugvöllurinn né að fella tré og hríslur í Öskjuhlíðinni til að tryggja flugöryggi.

-------------------------------------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/