Fara í efni

ÞREYTT RÍKISSTJÓRN LÖTRAR FRAM VEGINN


Ekki lái ég nýjum forsætisráðherra Geir H. Haarde að strjúka sér um ennið með þá arfleifð á bakinu sem fyrirrennarar hans í Stjórnarráðinu skilja eftir sig. Ekki orð um það meir – í bili. Nú hefur ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks kynnt ráðstafanir sem friða eiga launafólk og koma í veg fyrir uppsögn samninga í haust. Sitthvað horfir þar til framfara. Ekki eru framfaramálin fram sett að frumkvæði ríkisstjórnar heldur verkalýðshreyfingarinnar sem ásamt stjórnarandstöðu hefur knúið stjórnvöld til þess að rumska og bregðast við aðkallandi vanda, sem þessa dagana birtist þjóðinni í vaxandi verðbólgu og háum vöxtum, en hvort tveggja rýrir kjörin jafnt og þétt. Í allan vetur hefur stjórnarandstaðan á Alþingi talað fyrir daufum eyrum stjórnarmeirihlutans að gripið yrði til aðgerða til að koma böndum á verðbólgu, rétta hlut lágtekjufólks og stuðla að öryggi og framgangi smárra og meðalstórra atvinnufyrirtækja. Þau hafa sem kunnugt er átt undir högg að sækja vegna ruðningsáhrifa frá stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar.

Nú hefur ríkisstjórnin verið vakin af löngum svefni. Þó verð ég að segja að ekki er hún vel vakandi og ekki munu þær ráðstafanir sem nú hafa verið kynntar duga sem syndaaflausn fyrir misréttisstefnu liðinna ára. Þetta er ekkert annað en dropi í hafið, tilraun til að sýna lit af hálfu ríkisstjórnar sem aðgerðarlaus hefur horft upp á sívaxandi misskiptingu, afhent hefur eignir þjóðarinnar á silfurfati vildarvinum sínum; ríkisstjórnar sem á alla lund hefur hlaðið undir auðvaldið í íslensku þjóðfélagi.

Já, auðvitað grípur Geir H. Haarde, forsætisráðherra um ennið á mynd Vilhelms, sem birtist í Fréttablaðinu þegar Halldór Ásgrímsson tók pokann sinn. Það er aðeins tæpt ár til kosninga og því senn komið að skuldadögum ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem seint verður sögð hafa skilað góðu búi. Hagvöxtur hefur ekki verið notaður til að styrkja innviði samfélagsins, þvert á móti þá hafa þeir verið veiktir, fátækt hefur aukist og skuldastaða þjóðarbúsins er verri en nokkru sinni í sögunni.

En aftur að "samningunum" sem undirritaðir voru í gær. Á heimasíðu forsætisráðuneytisins er talað um að nú skuli verðbólgunni náð niður og að "aðilar" hafi sett sér markmið í því efni. Þetta er að sjálfsögðu jákvætt og mikilvægt er að vel takist til um þetta.

Þeirri spurningu er hins vegar ósvarað hvers vegna ríkisstjórnin lagði slíkt ofurkapp á það við frágang síðustu samninga að komið yrði í veg fyrir að opinberir starfsmenn kæmu nærri endurskoðun kjarasamninga þegar þar að kæmi. Með þetta í huga voru endurskoðunarákvæði samninga hönnuð. Þá kom fram að starfsfólki almannaþjónustunnar var  ætlað að verða afleidd stærð, taka því sem samið yrði um í þríhliða samkomulagi ASÍ, SA og ríkisstjórnarinnar. Hvers vegna skyldi ríkisstjórnin hafa lagt slíkt ofurkapp á að  kljúfa launaþjóðina í herðar niður? Hvers á fólk í almannaþjónustunni að gjalda; að þeirra samtökum skuli haldið utan endurskoðunar kjarasamninga? Hvers vegna eru hinir margrómuðu "aðilar" einskorðaðir við einkamarkaðinn?  Hvers vegna er ekki leitað til tugþúsundanna innan BSRB, BHM, Kennarasambandsins og Sambands bankamanna í þessu þjóðarátaki? Verður gerð þjóðarsátt án þessa fólks? Getur verið að ríkisstjórnin óttist þennan hluta þjóðarinnar; að hún óttist að ef þessum samtökum yrði hleypt að "þjóðarsáttarsamningaborði" kynnu að koma fram athugasemdir um einkavæðingu, sjúklingagjöld, niðurskurð á sjúkrahúsum, sambýlum fyrir fatlaða, niðurskurð í skólum ... Og gæti verið að athugasemdir kæmu fram um aðförina að Íbúðalánasjóði?
Hitt er svo annað mál – og þekki ég það af reynslu frá BSRB – að þau samtök hafa reynst ábyrgari en flest önnur þegar kemur að ríkisfjármálum. Þau vita sem er að ekki gengur að gera tvennt í senn, að skerða tekjur hins opinbera og krefjast betri þjónustu. Rödd BSRB er þannig rödd skynseminnar. Óttast menn þá rödd við samningaborð ríkisstjórnarinnar?