Fara í efni

ÞRIGGJA DAGA "AÐGERÐUM" LOKIÐ Í NABLUS

Menn setur hljóða við fréttir af hryðjuverkum Ísraela í Líbanon. Engu betra er að hlusta á fulltrúa verndara þeirra, Bandaríkjanna, réttlæta morðin og mannréttindabrotin eins og Bush Bandaríkjaforseti og Condoleeza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hafa gert.
Augu heimsins beinast augljóslega fyrst og fremst að atburðum innan Líbanon, afleiðingum hernaðarárásanna á landið. Í fréttum fer minna fyrir hernaðarofbeldinu sem samhliða viðgengst af hálfu ísraelska hernámsliðsins víðs vegar á herteknu svæðunum innan Palestínu. Þar verður hvert svæðið á fætur öðru, hver bærinn og hver borgin á fætur annarri fyrir barðinu á ísraelska hernum. Aðferðafræðin er ætíð hin sama. Mikilvægar stjórnarbyggingar rústaðar,  íbúðarhús eyðilögð og ráðist á fólk, að því er virðist af handahófi, til að skapa skelfingu og ringulreið.
Fyrir hálfu öðru ári ferðaðist ég um herteknu svæðin ásamt þeim Eiríki Jónssyni, formanni Kennarasambands Íslands og Borgþór Kjærnested, stjórnarmanni í félaginu Ísland-Palestína og Qussay Odeh, ungum Palestínumanni, sem hefur verið búsettur hér á landi.. Við komum á meðal annars til Nablus. Kannski var það þess vegna að ég tók  núna sérstaklega eftir lítilli frétt um að ísraelski herinn hefði nýlokið þriggja daga "aðgerðum" í Nablus. Helsta stjórnsýslubyggingin í borginni hefði verið rústuð. Þrír Palestínumenn hefðu verið drepnir og 85 særðir. Þetta er hvorki meira né minna en það sem nú hendir annars staðar í Palestínu. Endurminningin færði þessa atburði hins vegar nær mér. Mér fannst þetta minna á það sem ég lýsti HÉR og HÉR en í þessum pistlum er sérstaklega vikið að Nablus og "aðgerðum" þar.