ÞÚ ERT FÍFL!
Nei ekki þú lesandi góður, ég er alls ekki að halda því fram að þú sért fífl, ég er miklu frekar að tala um sjálfan mig. Og ég ætla að segja hvers vegna.
Ég fagna mjög almennri umræðu á internetinu, á svokölluðum samfélagsmiðlum. Sú umræða er á margan hátt frelsandi. Hún opnar fyrir almenn skoðanaskipti og veitir fólki fyrirhafnarlítið aðgang að þjóðfélagsumræðunni. Samfélagsmiðlar eru iðulega uppspretta upplýsandi og gagnrýninnar umræðu og þeir sem einhverra hluta vegna komast ekki að í öðrum fjölmiðlum með sjónarmið sín geta nýtt sér þennan vettvang fyrir lengri skrif og styttri. Sumir vefmiðlar bjóða upp á viðbrögð við skrifum annarra. Það getur verið gefandi. En líka kæfandi.
Og þar er ég kominn að fyrirsögninni. Samfélagsmiðlarnir geta nefnilega líka verið hamlandi og beinlínis beitt til að þagga niður umræðu. Mörgum finnst að sá sem vogar sér út á vettvang pólitískrar umræðu hafi gefið á sig skotleyfi og að þá sé allt leyfilegt. Líka að segja að viðkomandi sé fífl ef sjálfskipuð skoðanalögregla telur framlagið ekki falla að leyfilegum rétttrúnaði.
Auðvitað þurfa stjórnmálamenn og aðrir sem taka þátt í samfélagsumræðu að þola hörð viðbrögð við skrifum sínum. Ekki síst þeir sem hafa miklar skoðanir og skirrast jafnvel ekki við að gagnrýna aðra harkalega. Hvers vegna skyldu þeir ekki hljóta grimm örlög?
Svarið er að enginn á að hljóta þau örlög að vera afgreiddur með útúrsnúningum og hnjóðsyrðum. Það á við - og á að eiga við á samfélagsmiðlum - ekkert síður en í öðrum fjölmiðlum, að rökum sé beitt, að umræðan sé málefnaleg. Hörð umræða og gagnrýnin getur verið kurteis og málefnaleg. En einmitt þarna koma veikleikarnir í ljós, þeim sem ekki ráða við málefnalega framsetningu er aðeins fær gífuryrðaleiðin.
Sumir stjórnmálamenn standa utan skotlínu. Það eru þau sem hafa litlar skoðanir, annað en að segja að margt sé í mörgu og allt þurfi skoðunar við; umræða sé góð og þá alls konar umræða og að flest sé til farsældar ef við bara spjöllum sem mest saman á netinu góða. Netið verður þannig markmið í sjálfu sér. Stór hluti þjóðarinnar telur netið meira að segja vera sjálfan kjarna stjórnmálanna ef marka má skoðanakannanir.
Auðvitað er það sjónarmið að vilja fylkja sér um tæknilegt samskiptaform og auðvitað má segja að umræða um ekki neitt á hinum eftirsótta miðli sé skaðlaus og óþarfi að amast við henni.
Verra er þegar reynt er að kæfa þá sem þar vilja taka þátt og hafa eitthvað bitastætt fram að færa , tillögur og gagnrýni. Allt of oft gerist það að slíkir aðilar verða fyrir holskeflu svívirðinga og óbótaskamma, einfaldlega vegna þess hverjir þeir eru eða hverjir þeir eru taldir vera.
Þöggunarlöggan á netinu er ekki fjölmenn en svo illskeytt er hún og svo viss er hún í sinni sök að hún eyðileggur það sem hún segist helst vilja verja, opin málefnaleg skoðanaskipti. Hvernig væri að við sameinuðumst öll um nákvæmlega þetta: að efla málefnalega umræðu. Líka á netinu.