ÞURFUM BJARTSÝNA RÍKISSTJÓRN
Birtist í DV 16.07.08.
Að einhverju leyti kann skýringin á því að fylgi ríkisstjórnarinnar fer þverrandi að vera sú að fólki þyki hún fálmandi við efnahagsstjórnina og ekki ráðagóð. Ráðherrar flýi vandamálin í stað þess að reyna að takast á við þau. Þeir séu á stöðugu flandri um jarðarkringluna til að „leysa" heimsmálin. Það kynni að vera saklaust ef víst væri að samviska Íslands væri aldrei föl í viðræðum ferðalanganna og þá til dæmis í skiptum fyrir stuðning við framboð Íslands í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna eða aðrar vegtyllur.
Óreglubundið göngulag
Aðra skýringu á óvinsældum ríkisstjórnarinnar er hugsanlega að finna í hinu óreglubundna göngulagi sem stjórnin hefur tamið sér. Þegar einn ráðherra stígur fram þá stígur annar aftur og þegar einn talar í norður má bóka að síðar þann sama dag muni annar tala í suður.
Um þetta er Evrópuumræðan dæmigerð. Auðvitað mega ráðherrar hafa mismunandi sjónarmið og áherslur. En þetta er nú einu sinni ríkisstjórn og það sem máli skiptir fyrir landslýð er að fá að vita hvað hún hyggst taka sér fyrir hendur sem slík.
Björn Bjarnason dómsmálaráherra á síðasta útspilið í Evrópu- og gjaldmiðilsumræðunni. Hann veltir því upp hvort hægt sé að fá kjölfestu í peningamálin með samningum við Evrópusambandið á þá lund að við öðlumst aðild að myntbandalaginu án þess að taka þátt í Evrópusamrunanum. Vel má vera að tæknilega sé þetta fært en efasemdir hef ég um að Evrópusambandið myndi ljá þessu máls.
Með aðild að myntbandalaginu myndi Seðlabanki Evrópusambandsins taka ákveðna ábyrgð á okkur, verja okkur áhlaupum og koma til aðstoðar að ýmsu öðru leyti. Það væri stílbrot hjá Evrópusambandinu að vilja ekki fá eitthvað fyrir sinn snúð og þar hygg ég að um yrði að ræða skuldbindingu um þátttöku í Evrópusamrunanum.
Evrópuumræðan má ekki villa okkur sýn
Vissulega kallar kaldhamraður veruleikinn á að framtíð gjaldmiðils þjóðarinnar verði skoðuð af alvöru og raunsæi. Í því samhengi eiga vangaveltur Björns Bjarnasonar fyllilega rétt á sér.
En þessi umræða má þó ekki verða til þess að við missum sjónar á öllu því sem gefur tilefni til bjartsýni á Íslandi. Við búum í gjöfulu og góðu landi. Hér er hátt menntunarstig og öllum má ljóst vera að með þjóðinni býr mikill sköpunarkraftur. Hann hefur til þessa skilað okkur vel áleiðis í lífsbaráttunni.
Á undanförnum árum hefur hins vegar margt gengið illilega úr skorðum. Tvennt vil ég nefna. Annars vegar mistök við efnahagsstjórnina: tröllauknar fjárfestingar í þágu erlendra álrisa og einkavæðing fjármálakerfisins án viðeigandi varúðarráðstafana. Hins vegar hafa einstakalingar og fyrirtæki sem sýsla með fjármuni gerst mörg hver nánast glæpsamlega heimsk í gambli sínu með peninga þjóðarinnar út um allan heim auk þess að bruðla úr hófi fram. Fyrir vikið hefur allt efnahagslífið verið sett á spil.
Virkjum sköpunarkraftinn
Nú á það að vera hlutverk ríkistjórnarinnar að færa það sem úrskeiðis hefur farið inn í skaplegri farveg. Þetta er hægt og liggja fyrir tillögur þar að lútandi, til dæmis um fyrirbyggjandi reglur í viðskiptalífinu. Síðan á það að vera forgangsatriði hjá ríkisstjórninni að virkja sköpunarkraftinn sem býr með þjóðinni. Það á að vera verkefni hennar í stað þess að ráðherrar sitji á málskrafi hver við annan. Þetta er verkefnið. Það sem við þurfum á að halda í Stjórnarráði íslands er drifkraftur og bjartsýni.
Ögmundur Jónasson, alþingismaður