Fara í efni

„ÞURFUM HREINA SAMVISKU"


Viðtal í helgarblaði DV 14.08.09
Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra og einn helsti forystumaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, er einn af arkitektum ríkisstjórnar VG og Samfylkingarinnar. Hann teflir mannréttindum gegn eignatjóni af völdum bankahrunsins og telur þau vera undirstöðu velferðarstjórnmálanna.

Þú beitir þér mjög hart eins og þú trúir því að Icesave skuldbindingarnar muni ríða þjóðinni á slig á næstu árum. Treystir þú ekki dómgreind flokkssystkina þinna og samstarfsflokksins í málinu?

Ég vantreysti þeirra dómgreind ekki. En ég geri líka þá kröfu að minni dómgreind sé ekki vantreyst. Hluti af hruni undangenginna ára var fólginn í því að afdrifaríkar ákvarðanir voru oft teknar í snarhasti. Væri tekinn tími til ákvarðanatöku var talað um verkfælni og ákvarðanafælni. Útrásarvíkingunum var aftur á móti hampað fyrir að vera snöggir að komast að niðurstöðu. En flýtinum fylgir líka hugsunarleysi og skortur á fyrirhyggju. Ráðist var í fjárfestingar og skuldbindingar sem síðan stóðust ekki. Ég hef verið stjórnarmaður í lífeyrissjóði þar sem teknar voru afdrifaríkar ákvarðanir. Við reyndum að hafa allan vara á, leituðum upplýsinga og ráðgjafar og það henti á þeim bænum eins og öðrum að teknar voru ákvarðanir sem ekki reyndust skynsamlegar. Ég hef heitið sjálfum mér því að þegar ég tek ákvarðanir sem skuldbinda annað fólk leiti ég af mér allan vafa. Icesave-málið er ekkert venjulegt þingmál. Við erum að tala um skuldbindingar vegna bankahruns sem eru ígildi helmings vergrar þjóðarframleiðslu. Ég las grein eftir fréttaskýranda í þessu blaði, sem ég virði mjög, þar sem því var haldið fram að Icesave væri eins konar draugur sem hyrfi þegar menn hættu að trúa á hann og flækja sig í lagalegum álitaefnum og efnahagslegum vangaveltum. Ég held ekki. Við erum að leggja grunn að veruleika framtíðarinnar. Það var líka hluti af hruninu að skjóta vandanum á frest. Nú eigum við ekki að gera það lengur. Við eigum að skoða hvaða skuldbindingar þetta eru sem við erum að gangast undir, hvort þær eru réttmætar, hvort við eigum að axla þær eða hvort þær eru orðnar til vegna þessa erfiða hlutskiptis sem við búum við nú.

Lágmark 400 milljarðar
Ef allt fer á besta veg erum við að tala um að eftir sjö ár, þegar kemur að skuldadögum, stöndum við uppi með 400 milljarða skuld, aðeins vegna Icesave-reikninganna. Þá eru ótaldar aðrar skuldbindingar. En Icesave getur farið á verri veg. Hvað merkir þetta? Skuldina á að greiða á átta árum. Það gera 50 milljarða króna á fyrsta árinu. Ef við reiknum vexti ofan á það stöndum við í 70 milljörðum króna á ári. Þetta svarar til þess að byggja nýjan Landspítala með öllum búnaði á hverju ári þau ár sem við eigum að greiða. Fyrir mann sem er að sýsla með heilbrigðiskerfið og veit hvað hver milljón og hvað hverjar 10 milljónir skipta miklu máli fyrir þá sem þarfnast heilbrigðisþjónustunnar hlýtur þetta að vera umhugsunarefni, ekki síst í ljósi þess að tekjur ríkissjóðs eru um 400 milljarðar króna á ári og fara minnkandi. Þá þurfum við að horfa til þess að ef við förum að ráðleggingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og tökum lán til að eiga gjaldeyrisforða upp á 5,2 milljarða bandaríkjadala sjáum við fram á nettó vaxtabyrði upp á 20 milljarða króna á ári, eða rekstrarkostnað Landspítalans í hálft ár. Við þurfum að líta á skuldbindingarnar í heild sinni og horfa til greiðslugetu ríkissjóðs. Ég vil horfa á þær skuldbindingar sem við erum að takast á herðar. Þetta snýst ekki um að vantreysta einum eða neinum. Ég vil að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar en ég vil líka vera sannfærður um að við séum að gera rétt. Ég hef um það efasemdir og á þeirri forsendu hef ég neitað að samþykkja samninginn óbreyttan.

Get ekki verið á hnjánum
Þú hefur starfað lengi í pólitík og fyrir hagsmunasamtök. Því má álykta að þú hafir viljann til valdsins. Menn breyta ekki samfélaginu nema með því að halda um stjórnartaumana. Þú gætir misst völdin ef þú gengur skrefinu of langt í andófinu í Icesave-málinu. Misst þau yfir til annarra sem jafnvel yrðu að samþykkja svipaðan Icesave-samning. Er þetta ekki áhyggjuefni?

Ég hef haldið því staðfastlega fram að Icesave sé eitt og ríkisstjórnarsamstarfið sé annað. Þessi ríkisstjórn er mynduð um að standa vaktina fyrir velferðarsamfélagið á erfiðum tímum. Það er alltaf gott að hafa félagshyggjustjórn en aldrei eins brýnt og einmitt nú þegar að okkur er sótt af fjármagnsöflum innanlands og utan. Inn í tilveru okkar núna eru byggðar ýmsar mótsagnir. Annars vegar er vilji okkar til þess að treysta velferðarsamfélagið, standa vaktina fyrir þess hönd. Síðan erum við með Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hér inni á gafli. Við erum með erlend ríki sem fyrir hönd lánardrottna sækja að okkur. Við eigum nú að undirgangast kvaðir sem við erum ekki sátt við. Við ræðum þær og reynum að beina þeim í farveg sem er eins hagfelldur og mögulegt er. Eitt af þessu er Icesave-samningurinn. Hann er gerður við gríðarlega erfiðar aðstæður þar sem við höfum nánast allt í fangið. Nú hefur þjóðþingið fengið drög að niðurstöðu til umfjöllunar og þá er eðlilegt að við gaumgæfum málið og könnum hvort unnt sé að færa okkar réttarstöðu og okkar hagsmunavörslu ögn lengra og reisa hærri girðingar en tókst við samningaborðið. Í þessu er ekki fólgin nein árás á þá sem sömdu eða þá sem stóðu fyrir þessum samningum. Alls ekki. Við erum búin að vera í varnarbaráttu frá hruninu í haust. Það er rétt að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er hér að nafninu til í okkar boði. En var það af fúsum og frjálsum vilja? Var það af fúsum og frjálsum vilja að undirritaðar voru yfirlýsingar í október og nóvember eftir hrunið? Nei. Það var gert í þröngri stöðu og nánast með hnífinn á barkanum. Við erum í sífellu að endurmeta og endurskoða okkar aðstæður og kanna á hvern hátt við getum reist hærri varnarmúra um velferðarsamfélagið. Ég hef sagt að Icesave-samningurinn sé af þeirri stærðargráðu að hann eigi ekki heima niðri í hjólförum hefðbundinna flokkastjórnmála. Ég hef hvatt til þess að allir komi að því og finni í sameiningu lausn. Það væri mjög eftirsóknarvert að okkur auðnaðist að afgreiða þetta með 63 atkvæðum gegn engu. Ég finn fyrir góðum vilja úr öllum áttum, frá öllum stjórnmálaflokkum að reyna að taka þannig á málinu. Það gera sér allir grein fyrir að þetta eru gríðarlegar fjárskuldbindingar. Þetta snýst líka um orðspor Íslendinga. Við þurfum að vanda okkur í þessu máli. Við þurfum að senda þau boð skýrt frá okkur að Íslendingar vilji virða þjóðréttarlegar og lagalegar skuldbindingar. En við viljum líka sanngjarna niðurstöðu. Ég vil ekki að þjóðin verði á hnjánum í samfélagi þjóðanna næsta aldarfjórðunginn, en umfram allt: Ég vil ekki að við séum á hnjánum gagnvart sjálfum okkur.

Við erum reið og leið
Ég tel að það ætti að leggja land undir fót með fulltrúum allra stjórnmálaflokka ásamt forsætisráðherra og fjármálaráðherra. Þetta ætti að vera þverpólitísk sendinefnd sem fer út í heim, ræðir við bresku stjórnina og þá hollensku, fer til Norðurlandanna, Brussel og vestur um haf. Með þessari hugmynd geri ég þó alls ekki lítið úr þeim samtölum sem okkar forsvarsmenn hafa átt við ráðherra í þessum löndum. Þau hafa skipt máli en ég held við þurfum að vera enn ákveðnari og sýnilegri til að hafa áhrif á almenningsálitið í þessum löndum. Við þurfum sem þjóð að sannfæra fólk um það að Íslendingar skjóta sér ekki undan ábyrgð. Við erum reið og við erum leið yfir því sem hefur gerst og við viljum borga okkar skuldir. Við viljum fá aðstoð við að ná í þá peninga sem skotið hefur verið undan, til þess að geta stoppað upp í þessi göt og til að fullnægja réttlætinu. Við viljum sýna almenningi erlendis að við erum samherjar en ekki andstæðingar. Þarna er mikið verk að vinna sem við megum ekki forsóma. Við verðum að sýna að það stendur ekki á okkur að koma þeim í járn sem að lögum eiga að vera með þannig skraut á sér. Þetta segi ég ekki vegna refsigleði heldur vegna þess að við þurfum að virða réttarríkið.

Yfirleitt er erfitt að sjá eitt eða neitt fyrir í framtíðinni. Þetta vita þeir sem reyna að ávaxta fé á verðbréfamarkaði. Óvissa er um gengi bréfa á morgun, hvað þá eftir viku og lífsins ómögulegt að segja fyrir um hlutina eftir 7 ár. Þannig er aðeins unnt að vona hið besta og búa sig undir það versta. Verður þetta ekki þannig eftir nokkur ár að ef hlutirnir fara á verri veginn verður hvort eð er samið upp á nýtt við vinaþjóðirnar?

Samningar eru gerðir í góðri trú og ef aðstæður reynast mótdrægari en ætlað var er eðlilegt að ganga aftur að samningaborðinu. En það á að semja í góðri trú og aldrei á óraunhæfum forsendum. Það er rétt að óvissuþættirnir varðandi Icesave eru margir en margt er þó vitað. Vextirnir eru til dæmis þekkt stærð. Við borgum 100 milljónir króna á dag í vexti af Icesave-skuldunum. Ég sem heilbrigðisráðherra get ekki annað en séð þetta í samhengi við upphæðir sem við verjum til okkar stofnana á því sviði. Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins var skilað út úr þensluskeiði frjálshyggjunnar með hálfan milljarð í skuld. Þær skuldir reynast heilsugæslunni mjög þungbærar á þessum erfiðu tímum. En hvert er samhengið? Upphæðin er sú sama og Icesave-vextir yfir Verslunarmannahelgina. Við verðum að taka á þessu af fullri alvöru og við getum ekki gert samninga sem við vitum að standast trauðla. Við verðum að geta samið í bestu trú og það er lágmark að setja sterka fyrirvara vegna óvissuþátta.

Tapað fé og mannréttindi
En aftur að valdinu. Rétt er að það skiptir miklu máli hverjir sitja í stjórnarráðinu og móta þann farveg sem við steypum samfélaginu inn í. Við erum nú að súpa seyðið af farvegi sem reyndist liggja út í fúafen. Við þurfum nú að finna nýjan farveg og rata í rétta átt. Við megum ekki heldur forsóma okkar bestu dómgreind bara til að halda í völdin. Þetta þarf að fara saman. Ég hef trú á því að sú ríkisstjórn sem nú situr eigi langa ævidaga fram undan. Það er ekkert undarlegt þótt menn gagnrýni Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og gagnrýni óbilgjarna lánardrottna sem hafa sent samninganefndir, sem aldar eru upp í nýlenduráðuneytum í London, Haag og víðar, til samninga við okkur. Það er ekkert undarlegt þótt þetta veki umræður. Fyrr mætti nú vera. Annars væri blóðið hætt að renna í Íslendingum.

Sumir telja að þjóðþinginu beri bókstaflega skylda til þess að setja fyrirvara við þungar skuldbindingar telji það að þær sligi efnahagslífið og að innviðir efnahagslífsins bogni undan þunganum og ógni öryggi þjóðarinnar. Fylgir þú þessari röksemd?

Þetta er hárrétt og hverju orði sannara. Og ég held að ekkert annað þjóðþing í heiminum geti gert athugasemdir við slíka fyrirvara. Þegar Bretar og Hollendingar, sérstaklega Bretar, eru með fordæmingar í okkar garð ættu þeir að ganga varlega um sali. Þeir töldu að neyðarlögin sem sett voru hefðu mismunað mönnum í þágu íslenskra þegna. Það kann að vera. En hvað gerðu þeir sjálfir með hryðjuverkalögunum þegar þeir frystu eigur íslensks banka, stórsködduðu efnahag þjóðarinnar og fjármálastofnana sem þeir bókstaflega felldu. Þetta afsakar ekki mannskapinn sem er valdur að ógæfu okkar. En ég er að benda á að Bretar hafa ekki hreinan skjöld. Hvert samfélag reynir að verja sína innviði.
Svo er það annað, og ég endurtek að við eigum að standa við okkar skuldbindingar. Allir eru nú uppteknir af eignarréttinum af því að einstaklingar, stofnanir og sjóðir eru að tapa innistæðum sínum eftir að hafa leitað uppi hærri vexti en buðust annars staðar. Þetta er slæmt rétt eins og annað tjón sem menn verða fyrir. En það eru til annars konar réttindi. Við köllum þau mannréttindi. Það er réttur öryrkjans og láglaunamannsins og réttur mannsins sem þarf að leggjast inn á krabbameinsdeild Landspítalans eða liggja þar í nýrnavél. Þegar við förum að meta réttindin, eignarréttindin annars vegar og mannréttindin hins vegar vaknar spurningin um það hvar við stöndum í pólitíska litrófinu. Hvaða hagsmuni ætlum við að verja? Ætlum við að setja í forgang rétt eignamannsins sem er að missa eigur sínar eða hins sem er að gera kröfu til þess að njóta mannréttinda. Þessu þurfum við öllu að tefla saman. Þjóð sem lendir í þrengingum og verður fjárvana, hún forgangsraðar. Ég vil forgangsraða undir fánanum sem þessi ríkisstjórn hóf að húni um velferðarsamfélagið.

Fellur ríkisstjórnin ef Icesave fer ekki í gegn um þingið?
Ég held að allir geri sér grein fyrir því að hrár Icesave-samningurinn fer ekki í gegn um þingið. Það er alveg deginum ljósara. Það eru ýmsir sem vilja fella samninginn. Ég segi fyrir sjálfan mig að ég hefði helst viljað fá þennan samning út úr sögunni. Ég geri mér jafnframt grein fyrir því að það gæti mistúlkast sem svo að við vildum ekki gangast við skuldbindingum okkar, sem aftur gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir okkur. Og þá leita ég að öðrum kostum. Eru til einhverjir millileikir þar sem við tökum upp viðræður við þessi ríki? Það er vert að skoða. Nú er á vinnsluborðinu hvort hægt sé að finna fyrirvara sem eru ásættanlegir fyrir Aþingi. Ég vonast til þess að um þetta geti orðið víðtæk sátt.

Átökinn innan VG
Tekst þú á við Steingrím J. Sigfússon um völd og áhrif innan VG? Margir velta því fyrir sér hvort framganga þín í Icesave beri þessu vitni?

Þetta er af og frá. Ég neita því ekki að ágreiningurinn reynir mjög á okkur báða og félaga okkar. Þetta mega hins vegar ekki verða átök um persónur en því miður er alltaf tilhneiging til að persónugera málefnalegan ágreining. Þeir sem þekkja til sambands okkar Steingríms J. Sigfússonar vita hins vegar miklu betur. Við höfum verið samherjar og vinir í áralangri baráttu þótt við höfum ekki alltaf verið sammála um alla þætti og öll mál. En í grundvallaratriðum erum við samstiga og samband okkar og vinskapur hefur þolað skoðanaágreining. Við gerum okkur að sjálfsögðu báðir grein fyrir því að okkur ber að rækja okkar hlutverk eins vel og við getum. Það er hann að gera og ég virði fullkomlega hans verk. Ég geri mér líka grein fyrir því hversu erfitt hlutskipti samninganefndin hafði. Síðan hljóta allir að skilja að Alþingi hefur hlutverki að gegna og verður að rísa undir sinni ábyrgð. Þetta er málefnalegt og á að vera reiðilaust. Þegar Obama varð forseti þurfti hann að draga til baka ýmsar ákvarðanir sem hann tók í flýti í upphafi og þá talaði hann um að sér hefðu orðuð á mistök. Þá var spurt hvort runnir væru upp nýir tímar, hvort tími sýndaróskeikulleika væri að líða undir lok í stjórnmálum.
Krafan um óskeikulleika getur nefnilega verið mjög dýrkeypt, ekki síst á erfiðum tímum þegar oft þarf að hafa hraðar hendur. Við eigum að læra af sögunni. Ég var til dæmis að hlusta á Bjarna Benediktsson heitinn, fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokksins, segja frá því hverjar væru skyldur alþingismanna. Þetta var þáttur frá sjöunda áratugnum. Hann orðaði þar fína hugsun betur en ég hefði getað gert. Og mér varð hugsað til þeirrar kynslóðar í Icesave-samhenginu. Ég held að sú kynslóð hafi haft meiri skilning á því, en við, hvað það þýðir fyrir þjóð að geta staðið upprétt gagnvart öðrum þjóðum í fæð sinni. Hve mikilvægt það er að greina það, sem í sögunni gerir okkur að þjóð, sem aðrir taka mark á.

Farið þið með málið býsna svalir inn í þingið og bíðið þess sem verða vill þar?

Ég myndi ekki orða það þannig. Við skynjum alvöruna. Við tökum málefnalegan ágreining alvarlega en ég hygg að fullur og gagnkvæmur skilningur sé á því sem við erum að gera og það er engin valdabarátta á milli okkar Steingríms, aldeilis ekki. Þetta er af allt öðrum toga.

Ríkisstjórn Geirs var sett af
Hverfum aftur til janúarmánaðar. Búsáhaldabylting er í uppsiglingu og ríkisstjórnin er rúin trausti. Sagt er stundum að vinirnir Ögmundur og Össur Skaprhéðinsson séu arkitektarnir ap samstarfi vinstri grænna og Samfylkingarinnar og að viðræður hafi farið af stað nokkru áður en stjórn Geirs H. Haarde féll milli ykkar, nánar til tekið heima hjá Lúðvík Bergvinssyni og þar hafið þið ræðst við ásamt Steingrími J. Getur þú lýst þessu nánar?

Það er alveg rétt að þetta átti lengri aðdraganda og fleiri komu að þessu. Í kringum áramótin var farin að gerjast sú hugsun að skipta þyrfti um stjórnarmynstur. Við höfðum boðað þjóðstjórn í október. Steingrímur tók það formlega upp og lagði til að ellegar yrði kosningum hraðað. Þreifingar hófust og sýnt var að ríkisstjórninni yrði ekki sætt. Ríkisstjórn Geirs H. Haarde fór ekki frá völdum. Hún var sett af. Fyrir utan Alþingishúsið og um allt land var borin upp hávær krafa um róttækar breytingar, þar með talið á stjórnarsamstarfinu. Þá var ljóst að Vinstri hreyfingin - grænt framboð hlaut að koma að málum. Ég var því fylgjandi að efna til stjórnarsamstarfs við Samfylkinguna. Ég er ekki alltaf sammála Samfylkingunni um alla hluti. En þegar ég horfi á kjósendur þessara flokka held ég að þeir séu iðulega að biðja um svipaða hluti. Og þannig á að meta stjórnmálaflokka. Hvað er það sem kjósendur þeirra eru að biðja um? Ég held að kjósendur þessara flokka séu á einu máli um að skapa hér velferðarsamfélag á norrænum nótum, sniðið að okkar þörfum. Það er þess vegna sem ég legg áherslu á að þessi ríkisstjórn starfi áfram.

Réð vilji Framsóknarflokksins til þess að styðja minnihlutastjórn einhverju um þessar þreifingar?
Ég var reyndar alltaf hlynntur því að Framsókn kæmi inn í stjórnina strax. Það lá nefnilega fyrir að Framsóknarflokkurinn, sem átti drjúgan hlut að máli í mótun stefnunnar sem leiddi okkur í ógöngur með markaðshyggju og einkavæðingu ásamt Sjálfstæðisflokknum, var að endurnýja sig. Flokknum hefur tekist það bærilega finnst mér. Framsóknarflokkurinn er að ná sambandi við sína gömlu rót og talar nú á félagslegum nótum, sem hann hefur ekki gert um skeið.

Friedman, Hayek og þeir hinir...
Hvað um Sjálfstæðisflokkinn?

Sjálfstæðisflokkurinn þarf á mikilli og langri hvíld að halda. Ég held að margir sjálfstæðismenn geri sér grein fyrir þessu. Enda þótt ég hafi verið talsmaður þess að hafa breiða samstöðu þingsins þegar kemur að þessum stóru málum er ég ekki reiðubúinn að hlusta á auðhyggjuna sem dúkkar stöðugt upp. Ég er sannast sagna undrandi eftir allt sem á hefur gengið þegar ég heyri menn af frjálshyggjuvæng stjórnmálanna tala enn eins og ekkert hafi í skorist. Hinu opinbera sé ekki treystandi, fara verði með allt út á markaðstorgið, lifandi og dautt. Læra menn ekkert af reynslunni? Þarna er komið að valdinu. Vald er margslungið. Það er formlegt en vald er líka fólgið í því hvernig þjóð hugsar. Það sem gerðist hér á undanförnum tíu til fimmtán árum hefði aldrei getað gerst fyrir nokkrum áratugum vegna þess að þjóðfélagið hugsaði allt öðruvísi. Á fyrstu árum síðustu aldar hefði frjálshyggjan aldrei komist upp með það sem tókst að gera undir aldarlokin. Samfélagið hefði ekki leyft það. Tíðarandinn var allt annar. En svo mættu þeir með allar hersveitirnar, Friedman, Hayek, Bucanan og hvað þeir heita. Þeir plægðu jörðina, sáðu í hana og síðan sáum við uppskeruna á veisluborðum auðvaldsins og margir dáðust að, fengu jafnvel dálítið með. Þessi tími einkennist af gagnrýnisleysi. Það gildir um fjölmiðla, háskólasamfélagið, það gildir um stjórnmálin og það gildir síðast en ekki síst um atvinnulífið sjálft, verkalýðshreyfingu og atvinnurekendur. Eftir situr þjóð með timburmenn og laskaða sjálfsmynd. Hugsunarhátturinn í þjóðfélaginu er að breytast en við verðum hvert og eitt að temja okkur að horfa gagnrýnum augum á samtíð okkar. Þetta sáum við í kosningunum í vor. Fólk vill opið og heiðarlegt þjóðfélag, ekki markaðshyggju græðginnar. Okkar er að skapa skilyrði fyrir betra samfélagi. Ríkisstjórn Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs og Samfylkingarinnar varð til á þessum forsendum. Okkur ber skylda gagnvart kjósendum til að standa undir væntingunum sem gerðar eru til okkar.

Siðbótin og samviskan
Stjórnvöld sæta gagnrýni fyrir það hversu seint tiltektin gengur, endurnýjunin, siðvæðingin, að uppræta siðleysi og spillingu...

Ég held að slík gagnrýni eigi rétt á sér. En gagnrýnin á ekki bara að beinast að stjórnvöldum. Hún á að beinast að öllum þeim sem hafa einhver ráð á hendi. Við fáum fréttir af því sem er að gerast í skilanefndum bankanna, botnlausri spillingu þar sem menn eru að skammta sér tugi þúsunda fyrir hverja klukkustund sem þeir eru innstimplaðir, eru í lystiferðum og senda háa reikninga. Við fáum fréttir af innheimtubréfum upp á fjórðung úr milljarði. Hver er skýringin? Jú þetta er eitthvert hlutfall af skuld sem til innheimtu er. Mér finnst þetta endurspegla ákveðinn hugsunarhátt. Ég geri það sem ég kemst upp með. Ég geri það sem venjan og reglan leyfir. Þetta er gert í stað þess að beita eigin dómgreind og taka bara tvö þúsund kall fyrir að senda eitt innheimtubréf en ekki 250 milljónir. Við eigum að hugsa hver um sig: Hvað leyfist mér að gera? Það er kallað siðferði.

Erum við þjóð með slæma samvisku?
Við þurfum sjálf að breyta hlutskipti okkar. Ef við förum út til annarra þjóða og stofnana og segjum að við séum þjóð sem virðir sínar skuldbindingar og tekur alvarlega það sem hún hefur gert af sér breytum við hlutskipti okkar, þá breytum við andrúmsloftinu og þá breytast einnig þær samningsniðurstöður sem við getum fengið.
Það verða til nýjar aðstæður þegar liggjandi maður rís á fætur. Við vitum ekki alveg hvað gerist. Við verðum að taka okkur saman í andlitinu. Við verðum að hætta að koma fyrir eins og þjóð með slæma samvisku. Forsenda þess er að við bætum fyrir brot okkar. Þá verður samviskan hrein.

(Styttri gerð birt í DV 14. ágúst ´09)