Fara í efni

ÞURFUM MENNINGARBYLTINGU

MBL- HAUSINN
MBL- HAUSINN
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 05/06.03.16.
Best að taka fram í upphafi að ég er ekki að biðja um menningarbyltingu eins og hjá Maó í Kína, þegar reynt var að þvinga fólk með valdi inn á veg dyggðarinnar; láta þau sem urðu viðskila við pólitískan rétttrúnað ganga svipugöng undir háværum fordæmingum. Bæði í refsiskyni fyrir villu síns vegar og öðrum sem víti til varnaðar. Meiningin var að fá þau og aðra til að „hugsa rétt" og „breyta rétt". Ekki reyndist þetta farsæl leið til að kenna góða breytni. 

Viðfangsefnið sem ég hef í huga undir fyrirsögninni á þessum pistli er vissulega þankagangur og breytni. Nánar tiltekið hvernig megi forða okkur frá því að lenda aftur inn í hringiðu sjálftöku og ásælni, sem við kynntumst svo vel í aðdraganda efnahagshrunsins, ekki bara í fjármálakerfinu heldur víðast hvar í efnahagslífinu, í stóru og í smáu.

Það fer varla framhjá nokkrum manni hvert við erum nú, enn á ný, að sogast. Risabónusar, óhóflegar arðgreiðslur og brask þar sem þau sem komast í aðstöðu skara eld að sinni köku; og viðkvæðið jafnan hið sama þegar að þessu er fundið: Allir eru að gera það úti í hinum stóra heimi. Hvers vegna ekki við? Í útlöndum fái stjórnendur bónusa og eignist  hluti í fyrirtækjunum sem þeir stýri.

Þannig verður til sameiginlegt svar, stöðluð réttlæting sjálftökuheimsins

Lög og reglur geta hér að sjálfsögðu skipt sköpum. Ný löggjöf um sparisjóði um síðustu aldamót breytti þeim úr þjónustustofnunum fyrir nærsamfélagið, þar sem bannað var að braska með eignarhluti, gerði þeim nú  kleift að taka þátt í Hrunadansi kapítalismans. Lagabreytingarnar losuðu sparisjóðina nefnilega við mél og beisli þannig að þeir gætu, engu síður en nýfrelsuðu  bankarnir, hleypt á harðastökki inn í lendur þar sem gróðavon var að finna.

Ótemjurnar fóru um víðan völl. Svo hrundi öll spilaborgin eins og við öll þekkjum. En hún var reist við að nýju. Og nú er að koma í ljós að kúltúrinn, þankagangur fyrirhrunsáranna, varð eftir í fjármálakerfinu. Hann hvarf aldrei og verður ekki betur séð en nú blómstri hann sem aldrei fyrr.

Og það er þarna sem þörf er á umbyltingu  hugarfarsins. Við þurfum vissulega lög, auk formlegs aðhalds og eftirlits. Og við þurfum nýtt skipulagsform, samfélagsbanka í stað áhættusækinna gullgerðarvéla, sem náttúrlega búa ekki til neitt gull ef út í það er farið.

En það er ekki nóg að búa til hið ákjósanlega skipulagsform. Svipugöngin viljum við varla og lögin og aðhaldsreglurnar nægja ekki. Það er ekki hægt að setja lög um hófsemi. Ekki frekar en um kurteisi. Hún verður ekki lögleidd. Hún þarf að verða til innan frá.

Og nákvæmlega þetta er viðfangsefni byltingarinnar; að við innrætum sjálfum okkur annað og betra hugarfar en það sem er alltof einkennandi fyrir okkar samtíð. Hina sömu siðgæðisvitund og búið er að reyna - með misjöfnum árangri að vísu -  að kenna okkur í tvö þúsund ár og gott betur. Trúarbrögð og siðfræði heimspekinnar hafa reynt að fá okkur til að hugsa og breyta á ábyrgan hátt og í almannaþágu en  gangast ekki eigingirni og græðgi á hönd.

Ég leyfi mér að spyrja, er skynsamlegt að blása út af borðinu þetta mörgþúsund ára samtal? Þarf ekki að gera hið gagnstæða, leggja eyrun við göfugum boðskap? Væri slík bylting ekki eftirsóknarverð? Og ætti hún ekki erindi inn í íslenskt fjármála- og efnahagslíf?