ÞYKIR ÞJÓÐINNI NÓG KOMIÐ AF AFTURHALDI?
24.06.2008
Menn velta því fyrir sér hvers vegna fylgi ríkisstjórnarinnar fari nú ört dalandi. Ýmsar skýringar hafa verið settar fram þótt gamalgrónir fréttaskýrendur minni á að skoðanakannanir hafi í tímans rás verið sveiflukenndar og ekki alltaf til að reiða sig á. Hins vegar eru nú sterkar vísbendingar um að dregið hafi úr trú þjóðarinnmar á ríkisstjórninni.
Nú orðið gera flestir sér grein fyrir þeim efnahagsvanda sem þjóðin stendur frammi fyrir. Að sama skapi er mönnum ljóst að hann er að hluta til vegna kreppu á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og stórhækkandi verðlags á olíu og matvælum. Vandi Íslendinga er þó að uppistöðu til heimatilbúinn. Stóriðjufylliríið og gegndarlaus markaðsvæðing á undanförnum árum með tilheyrandi ofurtrú á kraftaverkamenn í heimi fjármálanna hefur stefnt Íslendingum í þann vanda sem nú blasir við.
Allt var þetta gert undir formerkjum nútímavæðingar en er þegar betur er að gáð ekki einu sinni Íhaldsstefna heldur beinlínis AFTURHALD. Hér hefur nefnilega verið innleiddur hrá-kapítalismi 19. aldarinnar sem neitar að viðurkenna allt sem heitir samfélag. Þannig hafa bankastjórar talað í mín eyru um ójafnræði á markaði þegar samfélagið vogar sér að reka sameiginlegan Íbúðalánasjóð fyrir alla landsmenn! Frá Brüssel hafa þessir afturhaldsmenn sótt sinn styrk í gegnum EES samninginn sem aldrei skyldi gerður hafa verið.
En enda þótt gjaldþrot óheftrar markaðshyggju hljóti að vera hverju barni augljóst virðist ríkisstjórnin staðráðin í að skrönglast áfram með sömu stefnuna, fela fjárglæframönnum raforkugeirann, heilbrigðiskerfið og aðra grunnþætti samfélagsins til rekstrar. Síðasta afrekið er að halda út á þá braut að gera Íbúðalánasjóð að heildsölubanka. Það þýðir að bankarnir fá í hendur fjármagn með bakábyrgð ríkisins. Íbúðalánasjóður verður fyrst og fremst milliliður. Lánið til íbúðakaupandans verður með þessu móti dýrara en banakarnir hagnast. Allt þetta sér fólk. Líka fjöldauppsagnirnar. Er að furða að fylgi ríkisstjórnarinnar dali?