Fara í efni

TIL HAMINGJU ÁRMÚLASKÓLI !

Fjölbraut Ármúla
Fjölbraut Ármúla

Á tímum sem í stöðugt ríkari mæli einkennast af skoðanalogndeyðu virðist kennara í Ármúlaskóla hafa tekist að efna til alvöru umræðu um hugmyndafræðielgar átakalínur. Þótt skoðanaleysið sé nú í tísku hafa andstæður í raunheimum sjaldan verið grimmari en einmitt nú og þar af leiðandi mikilvægara að menn reyni að greina orsakir og afleiðingar skynsamlega og án þöggunar og hræðslu.

Umræddur kennari heitir Torfi Stefán Jónsson en samkvæmt umfjöllun Stundarinnar, vann hann sér það til óhelgis að mati Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, prófessors við Háskóla Íslands, að stilla sem andstæðum einkaeignarrétti annars vegar og mannréttindum hins vegar. Greinilegt er af skýringum hans að hér er um að ræða uppsetningu sem hugsuð er sem tilefni til umræðu: Kolanámu í einkaeign er lokað og verkamennirnir missa vinnu sína og þar með eru mannréttindi þeirra skert. Hvað skal haft að leiðarljósi, einkaeignarrétturinn eða mannréttindin, við slíkar aðstæður?  Niðurstaðan gæti orðið sú að námunni yrði lokað en rétturinn til að loka ætti ekki að vera ótvíræður, segja félagslega sinnaðir vinstri menn. Almennt eru hægri menn á öðru máli. Þarna greinir á frjálshyggju annars vegar og félagshyggju hins vegar. Eigum við að halda áfram og ræða kvótann á Íslandi og réttinn til að færa lífsbjörgina frá byggðarlögum í krafti einkaeignarréttar? Skyldu slíkar spurningar og mismunandi svör ekkert koma stjórnmálaskoðunum við? Eða má ekki ræða um stjórnmál út frá grunngildum?

Hannes Hólmsteinn Gissurarson má eiga það flestum skoðanasystkinum sínum  fremur að hann þorir að kannast við skoðanir sínar. Til þess þarf talsvert hugrekki. Hann segir að mismunandi lífskjör fólks séu sér ekki þyrnir í auga. Það eru þau mér hins vegar. Aftur snýst málið um pólitíska forgangsröðun. Hannes Hólmsteinn og skoðanasystkinin telja að almennt sé samfélaginu betur borgið ef einkaeignarréttur og sem óheftustust markaðsviðskipti eru sett í forgang. Ég er þessu ósammála. Ég tel að samfélag jafnaðar sé öflugri og sterkari efnhagseining  en samfélag mismununar. En síðan er hitt, að jafnvel þótt svo væri ekki, þá forgangsraða ég jöfnuði umfram einkareignarrétt og frelsi fjármagnisins vegna þess að ég tel samvinnu og jöfnuð betur stuðla að réttlæti og þar með vellíðan okkar en samfélag samkeppni og gróðahyggju. Aftur þarna er forgangsröðunin önnur.

Þetta er þarft að ræða og greinilegt að þetta vakir fyrir kennaranum í Ármúlaskóla sem tekist hefur að glæða kraftmikla umræðu um grunngildi í stjórnmálum. Það er vel af sér vikið.
Til hamingju Ármúlaskóli!   

  http://stundin.is/frett/haegrisinnadur-nemandi-osattur/

http://stundin.is/frett/kvartad-undan-vinstrislagsidu-i-kennslu/