TIL HAMINGJU ÞORLEIFUR!
Á fréttavef Ríkisútvarpsins er þetta að finna: “Fjármálaráðherra segir mikilvægt að ríkið öðlist fullt forræði yfir auðkenni, fyirrtækinu sem gefur út rafræn skilríki. Ríkið standi nú í viðræðum um kaup á fyrirtækinu, en heimild er til þess í fjárlögum.”
Á árunum 2012 og 2013 var tekist á um þetta efni. Samningurinn við Auðkenni var þá laus og reyndi ég mikið í hlutverki mínu sem innanríkisráðherra að fá því framgengt að hann yrði tekinn yfir af ríkinu. Málefnið heyrði undir innanríkisráðuneytið en fjármálaráðuneytið hafði úrslitaorð varðandi Auðkenni. Þar innanborðs voru embættismenn mjög andvígir því að Auðkenni væri tekið frá bönkunum. Fengu þeir stuðning frá hlutaðeigandi ráðherrum Samfylkingarinnar þannig að úr þessu varð ekki.
Nú er Bjarni Benediktsson, af öllum mönnum (fyrirgefðu Bjarni), að leggja þetta til sem er hið besta mál þótt pakkinn verði miklu dýrari nú en áður hefði orðið þegar þetta var ekki spurning um annað en ákvörðun.
En ég var ekki einn um að vilja hafa auðkennisþjónustu í umsjá hins opinbera en ekki á vegum einkaaðaila. Þetta var afstaða sveitarfélaganna, alla vegar nefndar með fulltrúum þeirra sem gera átti tillögur um sitthvað sem sneri að rafrænu Íslandi. Fyrir nefndinni fór Þorleifur Gunnlaugsson, borgarfulltrúi. Hann gerði allt sem í hans valdi stóð til að fá því framgengt sem sem nú stefnir í að gerist.
Þakkir til þín Bjarni en hamingjuóskir sendi ég þér Þorleifur Gunnlaugsson!
Sjá frétt Rúv: https://www.ruv.is/frett/2021/03/28/bjarni-vill-ad-rikid-fai-fullt-forraedi-yfir-audkenni