Fara í efni

TIL MARKS UM SAMKENND ÍSLENDINGA AÐ ÞEIR HAFNI EINKVÆÐINGU HEILBRIGÐISÞJÓNUSTUNNAR


Í könnun sem Háskóli Íslands, Lýðheilsustöð og Landlæknisembættið stóðu að, kemur í ljós að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna vill að heilbrigðisþjónustan sé hjá hinu opinbera. Í forsíðufrétt Morgunblaðsins um könnunina segir "MIKILL meirihluti landsmanna vill að hið opinbera komi fyrst og fremst að rekstri sjúkrahúsa (80,7%) og heilsugæslustöðva (76,2%) í stað þess að slíkar stofnanir séu reknar fyrst og fremst af einkaaðilum eða jafnt af þeim og hinu opinbera. Þetta er meðal niðurstaðna landskönnunarinnar Heilbrigði og aðstæður Íslendinga. Í henni var einnig spurt um viðhorf til fjármögnunar heilbrigðisþjónustu. Mikill meirihluti (81,5%) vill að hið opinbera, ríki og sveitarfélög, leggi meira fé til hennar en nú er gert. "Við getum sagt að í þessum svörum sé víðtækur stuðningur við opinberan rekstur í heilbrigðisþjónustu, alveg sérstaklega varðandi stærri þættina eins og sjúkrahús og heilsugæslustöðvar," sagði dr. Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, sem stýrði landskönnuninni. Hún var samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Landlæknisembættisins og Lýðheilsustöðvar. "Mikill meirihluti telur að hið opinbera eigi einkum að vera í þessu en ekki einkaaðilar eða hið opinbera og einkaaðilar jöfnum höndum…Ég átti von á að flestir vildu óbreytt ástand í fjármögnun en hér er kallað eftir meiri fjárveitingum frá hinu opinbera því 81,5% vilja að ríki og sveitarfélög leggi meiri fjármuni til heilbrigðisþjónustunnar en nú er."

Þetta eru stórmerkar niðurstöður og vil ég í því sambandi vísa í athugun sem gerð var á vegum BSRB fyrir nokkrum árum. Þar komu svipaðar vísbendingar fram, nefnilega að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna vilji opinbert kerfi og hafni einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar. Í könnun BSRB sem Félagsvísindastofnun HÍ framkvæmdi kom fram að hátt hlutfall þjóðarinnar var því fylgjandi að borga hærri skatta ef það mætti verða til þess að bæta heilbrigðisþjónustuna í landinu. Sjá könnun BSRB HÉR.