Fara í efni

TILLAGA TIL KETILS SKRÆKS

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 09/10.03.24.
Áður en ég geri grein fyr­ir Katli skræk vil ég segja frá for­send­um þeirr­ar til­lögu sem ég legg hér fram í eins knöppu máli og kost­ur er, enda er þetta sunnu­dagspist­ill sem á ekki að vera lengri en nem­ur ein­um kaffi­bolla í lestri.

Til­lag­an bygg­ir á svo­nefndri dómínó­kenn­ingu. Hún geng­ur út á að hið sama ger­ist í yf­ir­ráðapóli­tík heims­ins og í dómínó­spili þar sem kubb­ur fell­ur á næsta kubb og svo koll af kolli svo lengi sem kubb­um hef­ur verið raðað upp til að falla hver á ann­an.

Þegar ég var að al­ast upp á sjötta og sjö­unda ára­tug síðustu ald­ar hafði dómínó­spilið eða öllu held­ur dómínó­kenn­ing­in, sem þá var orðin til, held­ur drunga­legt yf­ir­bragð. Vest­ur­veld­in tefldu dómínó­kenn­ing­unni iðulega fram í mála­fylgju sinni í heim­spóli­tík­inni á þá leið að félli eitt ríki eða eitt svæði und­ir komm­ún­isma mætti ætla að senn kæmi að grann­rík­inu að falla komm­ún­ism­an­um í skaut. Þá kæmi röðin að þar næsta ríki og svo koll af kolli þar til heims­hlut­inn all­ur væri orðinn rauður.

Þetta þótti ráðandi öfl­um á Vest­ur­lönd­um af­leitt og varð dómínó­kenn­ing­in að eins kon­ar áminn­ingu um hvað gæti orðið ef þau stæðu ekki sína vakt fyr­ir hönd kapí­tal­ism­ans gegn komm­ún­isma.

Sjálft er dómínó­spilið hlut­laust og nokk sama um kapí­tal­isma og komm­ún­isma, enda má út­færa kenn­ing­una til allra átta.

En fyrst nokk­ur orð um Ketil skræk áður en ég held áfram með þessa kenn­ingu. Hann var kok­hrausti smá­karl­inn í Skugga-Sveini sem þótt­ist meiri en hann var.

Rík­is­stjórn Íslands hef­ur kosið sér hlut­verk hins kok­hrausta í heim­spóli­tík­inni. Við erum að vísu vopn­laus þjóð en við leggj­um okk­ar af mörk­um, hef­ur verið viðkvæðið á fund­un­um þar sem leiðtog­ar hins vest­ræna heims koma sam­an til að faðmast og ræða frek­ari víg­væðingu.

Skræk­ur vill eind­rægni og hörku, full­an sig­ur yfir óvin­in­um, hvatti ein­dregið til stækk­un­ar NATO, Finn­ar og Sví­ar ættu að drífa sig í klúbb­inn og „rúss­neski floti þið megið fokka ykk­ur“ sagði ís­lensk­ur ráðherra á fundi í Úkraínu. Al­vöru fólk, eða sáuð þið hvernig ég lagði hann?

En svo hitti ég stúlku sem talaði allt annað tungu­mál, beint frá hjart­anu. Við vor­um á leið til Brus­sel í flug­vél, ég að fara á fund evr­ópskra stjórn­mála­manna með mann­rétt­inda­fólki úr röðum Kúrda og síðan á fjölda­fund í Köln um sama mál­efni. „Ég er líka að fara að hitta Kúrda“, sagði stúlk­an, sem var sænsk, „hann er kærast­inn minn“. Þau hefðu verið sam­an í nokk­ur ár „en í haust var okk­ur stíað í sund­ur, hon­um vísað úr landi. Þeir voru fleiri fé­lag­ar hans sem rekn­ir voru frá Svíþjóð í haust, hann var í raun hepp­inn, náði að stoppa í Brus­sel, hinir voru send­ir áfram til Tyrk­lands þar sem þeir eru komn­ir í fang­elsi vegna stuðnings við bar­áttu Kúrda“. Hvers vegna voru þeir rekn­ir, spurði ég þótt ég vissi svarið. „Hef­urðu ekki heyrt að Sví­ar vilja kom­ast í NATÓ og þetta er liður í því að verða við kröf­um Er­dog­ans for­seta Tyrk­lands og þar með NATÓ?“

Ég hugsaði mitt og rýndi í frétt­ir sem aldrei fyrr. Ég las velþókn­un­ar­grein­ar um að Sví­ar hefðu „und­ir­búið NATO-aðild­ina vel“. Ein­hvers staðar var það fyr­ir­sögn. Ég las líka að Norðmenn hefðu látið Banda­ríkj­un­um það eft­ir í fyrsta skipti í sög­unni að þeir fengju að setja her­stöðvar í Norður-Nor­egi með eig­in lög­sögu. Dan­ir hefðu ákveðið að gera hið sama. Í Morg­un­blaðinu las ég svo yf­ir­lýs­ingu finnsks „sér­fræðings í varn­ar­mál­um“ sem varð ekki skil­in öðru vísi en sem fögnuður yfir víg­væðingu á norður­slóðum, „þar sem Rúss­ar þurfi nú að huga að vörn­um við landa­mæri sín að Finn­landi“. Þannig leiðir eitt af öðru.

Svo var það Macron Frakk­lands­for­seti, sem orðaði mögu­leika á að Evr­ópuþjóðir tækju beinni þátt í stríðsrekstr­in­um í Úkraínu, og þýsku her­for­ingjarn­ir sem ræddu hvernig mætti koma Rúss­um á hnén með frek­ari eyðilegg­ingu á mann­virkj­um. Og vest­ur í Banda­ríkj­um Norður-Am­er­íku talaði for­seti um tík­ar­son­inn í Kreml.

En ef tík­ar­son­ur­inn er sá sem hon­um er lýst, þarf þá ekki að taka al­var­lega hót­un hans um að svara af fullri hörku ef NATO herðir hríðina?

Óum­deilt er að vax­andi ótta gæt­ir um all­an heim vegna stríðsátaka og stríðsæs­inga og ekki síst vegna þess að ekki örl­ar á sjálf­stæðri hugs­un hjá þorra kos­inna full­trúa á þjóðþing­um í okk­ar hluta heims­ins. Sendi­boðar her­gagnaiðnaðar­ins ráða orðið al­ger­lega ferðinni, aðrir fljóta með. Öll sjá­um við keðju­verk­un verða að veru­leika. Stríð hér vek­ur stríð þar. Ég hirði ekki um að til­greina hverj­ir halda um gikk­inn hverju sinni. Hug­ur minn er bund­inn við það eitt að dómínó­spilið hef­ur verið gang­sett og vís­ustu menn staðhæfa að kveikjuþráður­inn í púðurtunnu heims­ins sé orðinn óhugn­an­lega stutt­ur.

Og er þá komið að til­lögu minni, en hún er sú að dómínó­spil­inu verði snúið við. Í stað þess að stríð hér verði að stríði þar megi láta það ger­ast að friður hér verði friður þar.

Hvernig væri að rík­is­stjórn Íslands hætti að glamra með vopnaiðnaði og heimsauðvaldi og talaði þess í stað fyr­ir af­vopn­un; gerði sitt til að velta dómínókubbi í átt til friðar? Þá gæti það gerst að Ketill skræk­ur hætti að vera skræk­ur og fengi rödd sem nyti virðing­ar, rödd sem hlustað væri á utan góðra-vina-fund­anna; rödd sem talaði máli þeirra sem ætlað er að borga og deyja fyr­ir vax­andi víg­væðingu heims­ins.

Ég vek athygli á að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.