TILLAGA UM EFNAHAGSÚRRÆÐI: RÍKISSTJÓRNIN SEGI AF SÉR
Stóriðjupólitík annars vegar...
Skyldu menn vera búnir að gleyma heitstrengingum Halldórs Ásgrímssonar og Valgerðar Sverrisdóttur um mikilvægi þess að efla stóriðju, þannig að hún yrði að minnsta kosti um þriðjungur af efnahagsstarfseminni í landinu? Þetta væri sérstaklega mikilvægt vegna atvinnusköpunar. Því fyrr sem ráðist væri í framkvæmdir, og af þeim mun meiri krafti, því betra. Ég held að allir hljóti að muna eftir þessu tali, enda ekki lítið auglýst - í aðdraganda kosninganna til Alþingis árið 2003. Þetta var hvorki meira né minna en atvinnustefna Framsóknarflokksins. Þetta var sjálf Framsóknarpólitíkin!
Fjölbreytni og nýsköpunarpólitík hins vegar
En skyldi menn reka minni til að uppi voru höfð varnaðarorð um að þetta myndi reynast dýrkeypt innlendu atvinnulífi og annarri atvinnusköpun? Skyldi menn ráma í útleggingar talsmanna Vistrihreyfingarinnar græns framboðs um að þessi atvinnustefna væri ekki skynsamleg? Þetta myndi koma í vega fyrir fjölbreytni, að öllum líkindum yrði byggt á innfluttu ódýru vinnuafli, þensla myndi aukast, vextir hækka, gengið yrði óeðlilega hátt en allt þetta myndi verða þess valdandi að þrengt yrði að innlendri atvinnustarfsemi; henni yrði hreinlega rutt úr vegi. Hún legðist af, eða yrði þröngvað til að flytja starfsemi sína úr landi.
Síðbúnar áhyggjur
Og nú þegar allt þetta gengur eftir segir iðnaðar- og viðskiptaráðherra að ástæða sé til að hafa áhyggjur af ástandinu. En svo illa virðist ráðherrann skilja samhengi hlutanna að áfram heldur hún að boða framhald á uppbyggingu stóriðjunnar.
Glæpur þessarar ríkisstjórnar gagnvart íslensku atvinnulífi er mikill. Þau fyrirtæki sem nú er verið að flæma úr landi vegna atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar eiga sér mörg langa uppbyggingarsögu. Önnur hafa byggt á þrautseigju og dugnaði frumkvöðla í skemmri tíma. Nú er hætta á því að þeirra starf verði þurrkað út – í það minnsta sá hluti þess sem snýr að íslensku samfélagi.
Snúum inn á heillavænlegri brautir
Nú þegar Valgerður, ráðherra og ríkisstjórnin, sem ber ábyrgð á öllu því sem úrskeiðis hefur farið, segist vera að hugsa málin, jafnvel ætla að grípa til aðgerða – þá hygg ég að hrollur fari um margan manninn. Vissulega þarf að grípa til ráðstafana en forsenda skynsamlegra ráðstafana í efnahagsmálum er augljós: Ríkisstjórnin segi af sér og breytt verði um stefnu við efnahagsstjórn landsins. Nú er það óumdeilanlegt að stóriðjustefnan hefur leitt okkur út í ógöngur. Nú þarf að snúa inn á heillavænlegri brautir.