Fara í efni

TÍMASKEKKJA Í SPEGLI

Timans spegill
Timans spegill
Í Spegli RÚV á fimmtudagskvöld var fluttur pistill um samanburð á Frjálslynda flokknum í Bretlandi og Vinstri grænum á Íslandi. Nokkuð þótti mér vandséð hvers vegna yfirleitt var lagt upp í þetta samanaburðarferðalag. Hvað sem því  líður ætla ég að halda mig við VG, sem í pistlinum var sagður vera flokkur - eða hluti hans  - sem erfitt ætti með að gera málamiðlanir, enda væru þær drullugar og hætt við að uppá málamiðlara slettist. Fólki sem vildi vera hreint, væru pólitískar málamiðlanir um megn.
Eitthvað á þessa leið var útlegging Sigrúnar Davíðsdóttur, sem flutti þennan pistil.

Nú er það í sjálfu sér ágætt að vera  sagður vilja hafa allt sitt á hreinu, mannorð og samvisku tandurhreina. Málið vandast þegar látið er í veðri vaka að hrænlætisástin sé nánast manísk, sé í reynd óbilgirni og ósveigjanleiki, nokkuð sem í stjórnmálum geri fólk óstjórntækt. Þetta er gamalkunnur tónn sem þau okkar þekkja, sem verið hafa upp á kant við tíðarandann. Það sem Sigrún Davíðsdóttir, fréttaskýrandi , áttar sig hins vegar ekki á, er að hún er með rangt fólk í sigti þegar spurt er um tregðu til málamiðlana í þá átt sem almenn viðhorf í þjóðfélaginu liggja.  

Nokkur orð um þetta. Fyrst hið sögulega samhengi. Í tvo áratugi sigldi íslenska þjóðarskútan hraðbyri í mesta gjaldþrot síðari tíma, peningalega, siðferðilega og pólitískt. Þær raddir sem andæfðu voru bornar ofurliði. Við sem sögðum bankana orðna ofvaxna og hættulega efnahagskerfinu vorum hædd og spottuð og sögð pólitískir harðlífismenn - bundnir  hreintrúarkreddum fortíðar. Við sem sögðum óráðlegt að einkavæða orkuauðlindir og orkufyrirtæki vorum hrópuð út af vellinum, og sögð ófær um að svara kalli samtíðar og framtíðar.  Við sem vöruðum við foringjaræði og hjarðmennsku í stjórnmálum, vorum sögð óalandi og óferjandi. Við sem vildum jafna kjörin, kveða niður fjármálaokur, gróðabrask og græðgi vorum sögð ólæs á nútímasamfélag. Við sem vildum þyrma náttúruperlum landsins, vorum sögð óraunsæ. Og auðvitað má segja að fólk sem ekki vildi miðla málum við hið viðtekna í þjóðfélaginu hafi verið óstjórntækt. Það liggur í hlutarins eðli að þau sem ekki vilja gera málamiðlun við tíðarandann, ekki svara kalli tímans, njóti takmarkaðs trausts til að stýra þjóðarskútunni .

En svo leið tíminn, skútunni var siglt fram af hengifluginu og allt hrundi yfir okkur! Hjá almenningi urðu nú sinnaskipti og fólk reis upp. Á daginn kom að krafan utan af Austurvelli varð sú sama og okkar hafði verið; hún varð sú sama og okkar krafa hafði verið öll þessi ár. Nákvæmlega sú sama! : Burt með leyndina og braskið. Fólk vildi gerbreytt fjármálakerfi, láta stöðva útsöluna á landsins gæðum, vernda náttúruna. Nýja auðlindalöggjöf strax! Opna stjórnsýsluna, gera hana gagnsærri, meira lýðræði! Burt með foringjaræði og póltíska hjarðmennsku, hættað að dekra  við hina ríku, burt með okrið, misskiptinguna! Þetta varð nú krafa samfélagsins.

Kemur þá að spurningunni um hverjir vilja miðla málum gagnvart þessum röddum, koma til móts við þessar kröfur - svara kalli tímans -  og hverjir eru því andvígir? Er það ekki spurningin? Hverjir eru fastir í sínu gamla fari og hver okkar eru nú í takt við almannaviljann? Hvort skyldu það vera  kettirnir eða smalarnir? Er það hreintrúarstefna á Íslandi í dag að vilja vernda Þjórsá eða orkuauðlindir Reykjaness? Eru  það óbilgjarnir hreinlífismenn sem vilja meira lýðræði, gagnsæi, opna og óttalausa umræðu? Eða eru það kannski einhver önnur öfl, aðrir einstaklingar, sem eru óstjórntækir, úr takti við almannaviljann? Ég bara spyr. Væri hægt að fá Sigrúnu Davíðsdóttur og Spegil RÚV  til að vera örlítið meira konkret? Tímarnir breytast nefnilega. Það sem átti við í gær, á ekki endilega við í dag.  Það verða fréttaskýrendur að skilja. Annars daga þeir uppi sem tímaskekkja.

Gæti þarna verið komin skýringin á því að stjórnmálaflóran, nánast einsog hún leggur sig, er úti í samfélaginu talin óstjórntæk? Er þarna komin skýringin á því hve lítið traust er borið til hinna hefðbundnu stjórnmála nú um stundir?  Að fólki finnist orðið leitun á stjórntækum stjórnmálamönnum. Þeim sem raunverulega vilja svara kalli tímans! Eru þetta ekki spurningar sem stjórnmálamenn þurfa að spyrja sjálfa sig - í alvöru?