TÍMI TIL AÐ KOMA HEIM...
09.12.2009
Birtist í Málefnum Aldraðra 3.tbl. 18. árg. 2009
Ég held að óhætt sé að halda því blákalt fram að þankagangur Íslendinga hafi umpólast undir lok síðustu aldar og á fyrstu árum þeirrar aldar sem nú er upp runnin. Ekki svo að skilja að hugsunarháttur allra Íslendinga hafi breyst. En hin viðtekna almenna hugsun - tíðarandinn - breyttist hins vegar. Við hverju ætti svo sem að búast þegar hætt er að innræta þann boðskap sem verið hefur fyrirferðarmestur í siðapredikunum í tvö þúsund ár um ágæti hófseminnar og hann látinn víkja fyrir andhverfunni. "Græðgi er góð" sagði Margaret Thatcher, járnfrúin breska, án þess að blikna og hér á landi var hvatt til þess úr Stjórnarráði Íslands að við virkjuðum "eignagleðina" einsog það var kallað.
Það sem þér viljið að aðrir gjöri yður...
Það var gert svo um munaði og ætlaði allt af göflunum að ganga af hrifningu þegar íslenskir "útrásarvíkingar" tóku að sölsa undir sig eignir heima og heiman. Fáir hirtu um réttmæti þessa eða afleiðingar. Meira að segja þegar einkavæddar dýrmæddar eignir voru teknar úr hendi snauðra þjóða í Austurvegi var klappað á Íslandi. Gleymt var hið fornkveðna: "Það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður skuluð þér og þeim gjöra."
Nú hafa heldur betur orðið umskipti. Allt meira og minna hrunið og færri eignir til að gleðjast yfir. Eða hvað? Hafa allir breytt afstöðu sinni?
Í uppgjöri fallinna fjármálastofnana kemur fram hvernig fyrrum verkstjórar á þeim bæjum reisa kröfur í þrotabúin. Á daginn hefur nefnilega komið að þeir áttu eftir að fá útborgað eitthvað af bónusgreiðslunum og kaupréttarsamningunum og vilja nú fá nokkur hundruð milljónir í forgang - umfram aðra kröfuhafa. Það jafngildir ævitekjum okkar hinna - flestra. Og ég sem hélt að bónusgreiðslur væru borgaðar fyrir árangur í starfi! Þýðir það þá ekki að menn ættu að borga með sér þegar allt undir þeirra stjórn hefur farið úrskeiðis?
Tíðarandinn að breytast
Það sem breyst hefur - og þess vegna segi ég að dregið hafi úr eignagleðinni - er að almennt virka þessar kröfur nú á almenning sem út úr öllu landakorti; af einhverjum allt öðrum heimi. Flestum finnst þetta ekki við hæfi á Íslandi í dag. Nú er sú hugsun sem gert hafði sig heimakomna orðin framandi - hinir ágjörnu kröfugerðarmenn virka sem aðkomumenn í íslensku samfélagi.
Þegar ég kvaddi sem formaður BSRB um miðjan október hélt ég ræðu þar sem ég leit yfir farinn veg. Ég rifjaði upp atburði frá rúmlega tveggja áratuga formannstíð minni. Undir lok ræðu minnar staðnæmdist ég við atburði sem tengist þessum vangaveltum um þankagang þjóðarinnar og breytingar á honum:
"Við eigum að horfast í augu við það að í þjóðfélaginu ríkir togstreita - það er okkar hlutverk að toga fyrir þá sem standa höllum fæti gagnvart fjármagni og valdi. Það breytir því ekki að togstreitunni á jafnan að beina í eins jákvæðan og uppbyggilegan farveg og kostur er. Ég vil að við séum sem ein fjölskylda. En þá verðum við líka að vera það í reynd. Íslendingar standa frammi fyrir miklum erfiðleikum þar sem við þurfum á því að halda að leita góðrar sáttar. Við sáum í vetur leið hve nærri við vorum, og erum kannski enn, því að friðurinn í þjóðfélaginu sé rofinn. Eldar loguðu við Alþingishúsið. Ég minnist þess eitt örlagakvöldið að ég var í beinni útsendingu í sjónvarpi. Hrópin heyrðust að utan. Eggjum var hent í rúður þinghússins. Svo kom grjótið. Hönd fréttakonunnar sem hélt um hljóðnemann titraði. Loft var lævi blandið. Að loknu viðtalinu gekk ég að glugga sem veit út á Austurvöllinn. Við hlið mér stóð öryggisvörður, félagi minn í BSRB. Fyrir neðan okkur voru lögreglumenn með hjálma og skildi - og tárags. Því hafði verið beitt kvöldið áður. Allir í viðbragðsstöðu. En þegar grjótkastið tók að beinast að lögreglumönnunum - þá gerðist það. Hópur fólks tók sig út úr mannfjöldanum og myndaði mannlegan varnarmúr frammi fyrir lögreglunni. Hið ósagða lá í augum uppi. Sá sem grýtir lögregluna grýtir mig. Lögreglumennirnir lögðu skildina frá sér. Ég gleymi því aldrei þegar félagi minn við gluggann - öryggisvörðurinn - sagði og ég heyrði klökkvann í röddinni: Guði sér lof. Við erum komin aftur heim til Íslands."
...til Íslands
Þetta er nú verkefnið; að komast heim til Íslands; þess Íslands sem byggir á jöfnuði og réttlæti. Þar sem gankvæm virðing ríkir manna á millum. Ekki vegna eignanna sem þeir hafa hlaðið undir sig heldur vegna þess að við viljum öll vera hluti af stórri fjölskyldu þar sem litið er á hófsemi sem höfuðdyggð og þar sem allir vilja hverjir öðrum allt hið besta.