TÖFRAHESTURINN GLÓFAXI OG MÁTTUR LISTAMANNS
Fyrir nokkrum kvöldum las ég fyrir dótturson minn ungan, ævintýri sem gerðist fyrir löngu síðan „lengst inni í Rússlandi" og fjallaði um malara og syni hans, töfrahestinn Glófaxa og ævintýri í konungshöllinni. Nóg um það að sinni. Það má ekki segja allt.
Við langfeðgarnir vorum báðir syfjaðir en athygli okkar þó vel vakandi og því meir sem leið á söguna. Hún var ekki í löngu máli en ágætlega myndskreytt, sem eflaust átti sinn þátt í að halda athygli okkar, svo og náttúrlega söguþráðurinn.
En fyrst og fremst var það þó frásagnarmátinn, orð og stílbrögð, allt eins einfalt og látlaust og hugsast gat en samt svo vel sagt og svo mikið lifandi að hugurinn varð fanginn.
Þegar afi hafði lesið bókina í þriðja sinn í einni lotu að áeggjan síns unga vinar, var flett upp á forsíðu til að sjá hver hefði þýtt. Þýðandinn var þá Þorsteinn frá Hamri í útgáfu Iðunnar frá árinu 1974.
Það hlaut eiginlega að vera. Svona geta bara þeir sem búa yfir töfrasprota og kunna að vekja okkur hin til lífsins.
Framvegis veit ég af kynjahestinum Glófaxa uppi í hillu að grípa til ef ég þarf að keppa við spjaldtölvu um athygli ungviðis. Þetta umrædda kvöld var samkeppnin einmitt hörð við tölvuna, en Þorsteinn frá Hamri hafði vinninginn.
Góðir listamenn eru gulls ígildi. Fæstir þeirra eru þó klyfjaðir þeim málmi.