Fara í efni

TÖKUM ÞÁTT Á UNDIRSKRIFTASÖFNUN TIL STUÐNINGS SAMFÉLAGSÞJÓNUSTUNNI!


Á heimasíðu BSRB er hvatning til okkar ALLRA að taka þátt í undirskriftasöfnun til stuðnings velferðarþjónustunni sem nú á víða undir högg að sækja. Bisnissmenn vilja gera sér hana að féþúfu og beita fyrir sig fjölþjóðlegum samningum til að þröngva fram vilja sínum. Þar má nefna GATS samninga Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, Þjónustutilskipun Evrópusambandsins og fleiri fjölþjóða samninga. Verkalýðshreyfingin í Evrópu (ETUC, sem BSRB og ASÍ eiga aðild að, og EPSU, sem BSRB á aðild að) hefur skorið upp herör gegn þessari þróun og hvetur nú til undirskriftasöfnunar í því skyni að verja velferðarþjónustuna. Á heimasíðu BSRB segir: "Almenningur á Íslandi og í Evrópu hefur sýnt í skoðanakönnunum að hann kann að meta þá almannaþjónustu sem ríki og sveitarfélög veita og vill efla hana, öllum til hagsbóta. Öflug samfélagsþjónusta er nauðsynleg grunnstoð í sérhverju þjóðfélagi, hún treystir innviði þess og stuðlar að velferð og jöfnuði. Hún verður jafnan að vera eins góð og nokkur kostur er á og öllum aðgengileg."
Vilji fólk á annað borð verja þessa þjónustu verður að sýna það í verki. Á heimasíðu BSRB er fjallað nánar um undirskriftasöfnunina og hvernig menn beri sig að við að taka þátt í henni. Ég beini eindreginni ósk til ALLRA að taka þátt, sjá HÉR