TREGÐULÖGMÁLIN OG LÝÐRÆÐIÐ
Á ráðstefnu um lýðræði á vegum innanríkisráðuneytisins o.fl. í Ráðhúsi Reykjavíkur sl. miðvikudag sagði ég stoltur fyrir hönd sveitarfélaganna í landinu og Alþingis, frá nýjum lýðræðisákvæðum í frumvarpi um sveitarstjórnarlög sem þá var í vinnslu á þingi:
„Það er gleðilegt að nú skuli slíkur réttur í fyrsta sinn í þann veginn að verða leiddur í lög á Íslandi. Samkvæmt frumvarpi nýrra sveitarstjórnarlaga nægir að fimmtungur íbúa í sveitarfélagi krefjist almennrar atkvæðagreiðslu, þá skal hún fara fram. Lýðræðisfélagið Aldan hefur vakið athygli á því að ganga hefði mátt lengra í þessari lagasmíð og hef ég skilning á því sjónarmiði - en enginn neitar því þó að þarna er verið að stíga mjög mikilvægt skref í lýðræðisátt. Sambærilegt ákvæði við það sem er að finna í nýjum sveitarstjórnarlögum þarf að komast inn í landslögin og inn í Stjórnarskrá lýðveldisins."
Of fljótur að fagna
Þarna var ég of fljótur á mér því sama dag og þetta var flutt, sendi Samband íslenskra sveitarfélaga erindi til innanríkisráðuneytisins og Alþingis með beiðni um að ekki yrði opnað eins mikið á beint lýðræði og þarna er gert! Og viti menn, samgöngunefnd Alþingis tók þessu fegins hendi, og setti skerðingartillögur í frumvarpið og komu mín mótmæli fyrir ekki. Samkvæmt þessum tillögum getur sveitarstjórn ákveðið að fimmtungur kjósenda nægi ekki til að krefjast atkvæðagreiðslu eins og ég hafði lagt til, heldur getur hún hækkað hlutfallið í þriðjung ef henni svo býður við að horfa, og ekki verður heldur heimilt að krefjast atkvæðagreiðslu um fjármál sveitarfélagsins. Alþingi botnaði þetta ferli síðan í atkvæðagreiðslu þar sem yfirgnæfandi meirihluti samþykkti skerðinguna, allir ráðherrar nema við Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og þingmennirnir Atli Gíslason, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Lilja Mósesdóttir og Þór Saari! Einhverjar fjarverur í þinginu kunna að skýra að ekki voru fleiri í þessum hópi. En þetta var semsagt vilji Alþingis og ekkert við því að segja . Þingið á að ráða, ekki framkvæmdavaldið. Ekki er það heldur ámælisvert þótt ráðherrar greiði atkvæði sitt á hvað. Enginn á kröfu á samstöðu samráðherra sinna við eigin baráttumál ef aðrir ráðherrar hafa sannfæringu fyrir öðru. Við atkvæðagreiðslu á Alþingi eru þeir fyrst og fremst þingmenn. Þannig á þetta að vera, að hver og einn láti eigin sannfæringu sína ráða. Annað drepur stjórnmálin. Slekkur neistann innra með mönnum. Í stjórnmálum hefur verið gert alltof mikið úr samræmdu göngulagi. Það hefur lengi verið mín sannfæring að í stjórnarmeirihluta eigi það viðhorf að vera ríkjandi, og þykja eðlilegt, að við atkvæðagreiðslu kunni einstakir þinngmenn og ráðherrar að hafa skiptar skoðanir. Ríkisstjórn á ekki að standa og falla með samræmingu í öllum málum.
Lýðræði í orði og á borði
Ekki svo að skilja að almennt sé litið á afdrif lýðræðisins í nýrri sveitarstjórnarlöggjöf sem úrslitaatriði. Sjálfum þykir mér þetta þó vera stórt mál. Og sannast sagna kom það mér nokkuð á óvart hve eindregið Alþingi var á því að setja inn takmarkanir á þær tillögur sem fyrir lágu. Sérstaklega kom þetta á óvart eftir allt lýðræðistalið fyrir nánast allar undangengnar kosningar - gott ef ekki síðustu áratugina. Þegar á hólminn kemur reyna fulltrúar í sveitarstjórnum og á Alþingi að hamla gegn og tefja lýðræðisþróunina. Það sannaðist við þessa atkvæðagreiðslu þrátt fyrir að ég vildi trúa öðru.
Í fyrrnefndi ræðu á lýðræðisráðstefnunni í Ráðhúsinu hafði ég reyndar vikið að tregðulögmálum í fulltrúalýðræðinu:
Við skulum ekki „... fara í grafgötur með að í framkvæmd lýðræðis er ekki allt slétt og fellt. Þar er að finna togstreitu af ýmsu tagi. Þannig er í rauninni ekkert undarlegt að stofnanakerfi stjórnmálanna sé efins um beint lýðræði. Ástæðan er sú að margir stjórnmálamenn líta á beint lýðræði sem ógn við tilveru sína. Beint lýðræði komi til með að fækka þeim viðfangsefnum og ákvörðunum sem þeir eru nú einir um. Síðan er það að sjálfsögðu hitt að krafan um almenna atkvæðagreiðslu er oftar en ekki sett fram vegna óánægju með ákvarðanir eða ákvarðanaleysi stjórnmálamanna. Krafan um almenna atkvæðagreiðslu verður þannig auðveldlega skilin af þeirra hálfu sem vantraust á þá og án efa er oft nokkuð til í því."
„Kosið á milli lýðræðis annars vegar og fulltrúavalds hins vegar"
Breytingin sem meirihluti Alþingis gerði á frumvarpinu var að hækka hlutfall kjósenda til að knýja fram atkvæðagreiðslu og setja í lögin bannákvæði um að krefjast megi kosninga um fjármál sveitarfélaganna í almennri lýðræðislegri kosningu. Þetta er gert þótt samkvæmt sömu lögum sé niðurstaða kosninganna ekki bindandi!
Þessu verður án efa breytt í framtíðinni. Þegar fram líða stundir mun aukinn lýðræðisréttur knúinn fram. Þar mun koma að fulltrúavaldið sjái sig nauðbeygt til að svara kalli tímans. En heldur er hlutskiptið dapurlegt fyrir fulltrúavaldið að þurfa að koma lötrandi á eftir í þessari þróun. Við atkvæðagreiðsluna á Alþingi sagði ég að nú væri kosið á milli lýðræðis annars vegar og fulltrúavalds hins vegar. Og það fór sem fór.
Hér má finna atkvæðaskýringu mína á þingi í dag: http://www.althingi.is/altext/raeda/139/rad20110917T173800.html --------------------------------------------------
Svona var 108. grein í frumvarpi til sveitarstjórnarlaga:
"Ef minnst 10% af þeim sem kosningarrétt eiga í sveitarfélagi óska borgarafundar skv. 105. gr. skal sveitarstjórn verða við því svo fljótt sem unnt er. Hið sama á við ef minnst 20% af þeim sem kosningarrétt eiga í sveitarfélagi óska almennrar atkvæðagreiðslu skv. 107. gr. Sveitarstjórnin á þó ákvörðunarvald um framkvæmd viðkomandi viðburðar og þá spurningu sem borin verður upp sé um að ræða almenna atkvæðagreiðslu meðal íbúa sveitarfélagsins. Um framkvæmd borgarafundar fer eftir ákvæði 105. gr. Um framkvæmd almennrar atkvæðagreiðslu meðal íbúa sveitarfélags fer eftir ákvæði 107. gr.
Almennrar atkvæðagreiðslu skv. 107. gr. verður hvorki krafist um ráðningu í störf hjá sveitarfélagi né tillögu sem gengur gegn lögum eða mundi leiða til þess að lagaskyldu yrði ekki fullnægt af hálfu sveitarfélagsins.
Ráðuneytið skal í reglugerð mæla nánar fyrir um það hvernig staðið verður að söfnun undirskrifta eða annarrar staðfestingar á ósk íbúa skv. 1. mgr. Þar má m.a. kveða á um að undirskriftir skuli lagðar fram á sérstöku eyðublaði sem ráðuneytið eða viðkomandi sveitarfélag lætur gera eða að staðfesting skulu lögð fram rafrænt á nánar tiltekinn hátt. Sé mælt fyrir um rafræna staðfestingu skal þó ávallt jafnframt gefinn kostur á að undirskriftir verði lagðar fram skriflega á þar til gerðum eyðublöðum.
Við mat á því hvort tilskilinn fjöldi hafi lagt fram ósk skv. 1. mgr. skal miðað við þá einstaklinga sem uppfylla skilyrði 2. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna á þeim degi sem söfnun staðfestingar lýkur samkvæmt kjörskrárstofni sem Þjóðskrá Íslands lætur sveitarfélagi í té.
Breytingartillagan sem samþykkt var:
5. Í stað 1. og 2. mgr. 108. gr. komi þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
Ef minnst 10% af þeim sem kosningarrétt eiga í sveitarfélagi óska borgarafundar skv. 105. gr. skal sveitarstjórn verða við því svo fljótt sem unnt er. Um framkvæmd borgarafundar fer eftir ákvæði 105. gr.
Ef minnst 20% af þeim sem kosningarrétt eiga í sveitarfélagi óska almennrar atkvæðagreiðslu skv. 107. gr. skal sveitarstjórn verða við því eigi síðar en innan árs frá því að slík ósk berst. Sveitarstjórn er heimilt að ákveða hærra hlutfall í samþykkt um stjórn sveitarfélags en þó aldrei hærra en þriðjung þeirra sem kosningarrétt eiga í sveitarfélagi. Sveitarstjórnin á ákvörðunarvald um framkvæmd viðkomandi viðburðar og þá spurningu sem borin verður upp sé um að ræða almenna atkvæðagreiðslu meðal íbúa sveitarfélagsins. Um framkvæmd almennrar atkvæðagreiðslu meðal íbúa sveitarfélags fer eftir ákvæði 107. gr.
Almennrar atkvæðagreiðslu skv. 107. gr. verður ekki krafist um efni fjárhagsáætlunar skv. 62. gr. og viðauka skv. 63. gr., um tekjustofna sveitarfélaga eða álagningu annarra lögheimilla gjalda, um ráðningu í störf hjá sveitarfélagi, um laun og önnur starfskjör sveitarstjórnarmanna eða starfsmanna sveitarfélags eða tillögu sem gengur gegn lögum eða mundi leiða til þess að lagaskyldu yrði ekki fullnægt af hálfu sveitarfélagsins.
--------
Rétt er að hafa í huga að niðurstaða atkvæðagreiðslu er samkvæmt 107. grein frumvarpsins eins og það var lagt fram af minni hálfu (nú laga) ekki bindandi!
Í 107. grein segir um þetta: „Atkvæðagreiðsla samkvæmt þessari grein, sem og 108. gr., er ráðgefandi nema sveitarstjórn ákveði að hún skuli binda hendur hennar til loka kjörtímabils. Í auglýsingu skv. 2. mgr. skal koma fram hvort atkvæðagreiðsla er bindandi. Slíka ákvörðun má binda skilyrði um að tiltekið hlutfall þeirra sem voru á kjörskrá hafi tekið þátt í atkvæðagreiðslu."
Þetta ákvæði var gagnrýnt af grasróta- lýðræðissinnum eins og áður er vikið að.