TRÍÓ Í NORRÆNA HÚSINU: SIGRÚN, ÖGMUNDUR OG SELMA
Næstkomandi laugardag, klukkan 17, verða áhugaverðir tónleikar haldnir í Norræna húsinu í Reykjavík. Það er Tríó Aurora sem þá heldur tónleika. Þetta eru fyrstu tónleikar triosins en margt er í vændum hjá þessum frábæru tónlistarmönnum, ekki síst á erlendri grundu.
Í frétt frá Norræna húsinu segir m.a. : „Í tríóinu eru þær Sigrún Eðvaldsdóttir fiðluleikari og konsertmeistari og Selma Guðmundsdóttir píanóleikari, sem eiga langt samstarf að baki og eru vel þekktar í íslensku tónlistarlífi. Auk þess hefur Ögmundur Jóhannesson gítarleikari slegist í hópinn, en þessi framúrskarandi, ungi gítarleikari hefur þegar skapað sér alþjóðlegan feril."
Í frétt Norræna hússins kemur fram að listamennirnir muni frumflytja verk eftir Þóru Marteinsdóttur, sem er sérstaklega samið fyrir hópinn: „ Hin sjaldgæfa hljóðfærasamsetning, - gítar, píanó og fiðla, - gefur spennandi fyrirheit og á vonandi eftir að gefa bæði flytjendunum og tónskáldum mörg tækifæri í tónleikasölum hér heima og erlendis. Auk verka Þóru og fleiri tríóverka leika þau tvíleiksverk, gítar-fiðla, gítar-píanó og fiðla-píanó. Á efnisskrá eru m.a. verk eftir Atla Heimi Sveinsson, Árna Björnsson, N.Paganini, Mario Castelnuovo-Tedesco, L.v.Beethoven og A. Piazzola.
Tríóið hefur þegar verið bókað í tveggja vikna tónleikaferð um Kína frá 23. mars til 7. apríl á þessu ári.
Aðgöngumiðar við inngang. Verð kr. 2.500. Tónleikar styrktir af Reykjavíkurborg og Norræna húsinu."
Nánar um listamennina:
Um flytjendur:
Sigrún Eðvaldsdóttir hóf fiðlunám sitt 5 ára gömul hjá Gígju Jóhannesdóttur.Hún lauk síðan einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Guðnýjar Guðmunsdóttur árið 1984. Hún tók Bachelorgráðu frá Curtis tónlistarháskólanum í Philadelphiu þar sem hún lærði hjá Jascha Brodsky og Jaimee Laredo. Hún lærði einnig hjá Roland og Almitu Wamos á eigin vegum.
Hún hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar og verðlaun fyrir leik sinn í Alþjóðlegum fiðlukeppnum þ.á.m 2.verðlaun í Leopold Mozart keppninni 1987,Brons verðlaunin í Sibeliusar keppninni 1990 og 2.verðlaun í Carl Flesch keppninn 1992. Hún hefur komið fram sem einleikari víða og leikið inn á nokkra geisladiska og hefur flutt fiðlukonserta sem hafa verið tileinkaðir henni. Hún hefur gegnt stöðu Konsertmeistara Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá árinu 1998 og einnig verið gestakonsertmeistari hjá Konunglegu þjóðaróperunni í Kaupmannahöfn.
Selma Guðmundsdóttir píanóleikari hefur haldið fjölda einleikstónleika víða um heim og komið fram með þekktum einleikurum eins og Sigrúnu Eðvaldsdóttur, Gunnari Kvaran, Áshildi Haraldsdóttur, Martial Nardeau og Guðrúnu Birgisdóttur auk þess að leika með Kammersveit Reykjavíkur um árabil. Hún hefur einnig leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveit Þrándheims. Hún hefur leikið inn á 7 geisladiska og gert fjölmargar upptökur fyrir útvarp og sjónvarp. Hún starfar sem píanóleikari (aðjúnkt) við Listaháskólann auk þess að kenna við Tónlistarskólann í Kópavogi.
Ögmundur útskrifaðist með burtfarapróf árið 2000 og stundaði einkanám í gítarleik í Barcelona á Spáni í Escola Luthier d'arts musicals 2000-2002. Hann útskrifaðist með Masters gráðu úr Universität Mozarteum í Salzburg 2008 og Maastricht Conservatory árið 2012. Hann hefur hlotið mörg verðlaun hérlendis og erlendis, m.a Jean-Pierre Jaquillat verðlaunin árið 2005, Rótarý árið 2009, og listamannalaun 2010. Árið 2011 var hann verðlaunahafi í alþjóðlegu gítarkeppnunum í Bangkok, Thailandi og í Tokyo, Japan. Hann hefur haldið tónleika og komið fram á tónleikahátíðum víðsvegar um heiminn. Sem stendur er hann að vinna að kynningu og útbreiðslu klassíska gítarsins á Indlandi og í Suðaustur Asíu.
Áður hefur verið fjallað um Ögmund Þór Jóhannesson hér á síðunni enda þessi listamaður í miklu uppáhaldi hér á bæ: https://www.ogmundur.is/is/greinar/ogmundur-thor-johannesson-i-norraena-husinu