Fara í efni

TRÚFRELSI

pallborð 030712 - trúfrelsi
pallborð 030712 - trúfrelsi

Við pallborðið: Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands, Ragnhildur Helgasdóttir, prófessor við lagadeild HR,  Hjalti Hugason, prófessor við guðfræði- og trúarbragðadeild HÍ, og Bjarni Jónsson, varaformaður Siðmenntar.

Ávarpsorð á morgunfundi innanríkisráðuneytisins um trúfrelsi

Woody Allen sagði einhvern tíman: "Ég hef alltaf vitað að það er eitthvað þarna úti sem vakir yfir okkur. Því miður reyndist það vera ríkisstjórnin."

Það eru auðvitað ekki allir sem trúa á ríkisstjórnina og það er sem betur fer leyfilegt, ekkert síður en að leyfilegt er að greina á um hve gáfulegt það yfirleitt er  að trúa eða trúa ekki á ríkisstjórnir.

Við vitum heldur ekki hvort það er betra að eyða lífi sínu í að trúa á Guð og komast svo að því í lokin að hann er ekki til, eða hitt að eyða lífi sínu í að trúa á Guð og komast svo að því að Hann er til.

En hvað er að trúa á Guð? Er fullyrðingin eða spurningin kannski vitlaust orðuð? Gæti verið að trúin væri í eðli sínu mannleg tilfinning líkt og ótti, reiði, gleði, hrifning? Undan tilfinningum verður ekki komist. Og trúartilfinningin virðist fylgja manninum hvar sem hann er. Skyldi það vera tilviljun? Verður með öðrum orðum undan trúnni komist? Þessarar spurningar er vert að spyrja.

Okkar verkefni er þó frekar hitt að koma málum þannig fyrir að hver og einn geti farið að sinni sannfæringu; að valið verði í reynd hans eða hennar.

Sumir þurfa að trúa til að sjá og aðrir þurfa að sjá til að trúa.

Það eru margir sem vilja deila trúarskoðunum sínum með þér. Þeir eru mun fleiri en hinir sem vilja hlusta á trúarskoðanir þínar. Við þurfum að geta fengið að vera í friði fyrir þeim sem vilja þrengja trúarskoðunum uppá fólk, en við þurfum að vera umburðarlynd gagnvart þeim sem langar til að þjóna sínum Guði. Og ekkert síður hinum sem leita í veraldlega siðfræði og til hugsuða sem láta jörðina og hið áþreifanlega nægja í leit að svörum.

„Amma var mjög trúuð kona," skrifaði ungur maður um ömmu sína látna, en bætti við eitthvað á þá leið, að aldrei hefði hann heyrt hana tala um kirkju eða trúarbrögð!  Þetta þótti mér umhugsunarvert. Ef til er eitthvað sem heitir íslensk trúarvitund eða afstaða til grunngilda,  þá var henni sennilega lýst með þessum orðum. Hún er inn á við - persónuleg - og vill sjálf fá að vera í friði. Þessi trúarvitund eða siðferðiskennd  er óáreitin. Og  það sem meira er -  hún áreitir ekki aðra.

Íslensk trúarhefð sem Hallgrímur, Vídalín og fleiri hafa mótað er ekki kirkjuhefð, þeir nefna sjaldan orðið kirkja. Sú trúarhefð sem þeir mótuðu tengist því sem innra fyrir býr með manninum, vitund hans um tilgang og merkingu lífsins, vitund sem ber uppi ábyrgðarkennd hans og viðleitni til að lifa mannúðlegu lífí sem aftur leiðir af sér mannúðlegt og réttlátt samfélag. Þar á meðal er umburðarlyndi. Og á því  - umburðarlyndinu, er  mikil þörf í nútímasamfélagi eins og þjóðfélagsaumræðan endurspeglar svo mjög þessa dagana.

Trú og trúarbrögð geta tekið á sig óæskilegar myndir. Það er verðugt sjónarmið að íhuga hvort þjóðkirkja með breiðan trúarskilning, með prestum menntuðum á dýptina og í anda víðsýni; þjóðkirkja með langa sögu og hefð sem hefur sýnt að hún getur staðið í fararbroddi um menningu og menntir, að ógleymdri samhjálpinni - það er vissulega verðugt sjónarmið -  að íhuga og ræða hvort slík kirkja geti verið trygging fyrir því að trúarþörf manna finni sér síður farveg í öfgakenndum trúflokkum en myndi ella gerast, án hennar - án Þjóðkirkjunnar. Dæmin sanna nefnilega að slæmar og mannfjandsamlegar öfgar fyrirfinnast í flóru trúarlífsins   - og að þær öfgar þrífast best í villtri órækt.

Þegar til sögu Evrópu er litið má bera saman sögu þeirra samfélaga sem umbáru trúna eða sýndu henni virðingu, annars vegar, og hins vegar þeirra hugmyndakerfa sem reyndu að komast undan því að viðurkenna trúarleit mannsandans, jafnvel leituðust við þurrka hana út. Auðvitað þyrfti slík söguleg könnun að taka á sig fleiri víddir. Þegar leitað er að því samfélagi sem manneskjunni hefur farnast best í þyrfti einnig að spyrja almennt um frelsi og ófrelsi, um opið samfélag og lokað, um valdstjórn og lýðræði.


Íslenska ríkið er ekki trúað. En ríkisvaldið er eðli máls samkvæmt fulltrúi hefða, menningar og sögu og ber skylda til að gæta jafnvægis. Breytingar sem hér eru til umræðu, koma í kjölfar langvarandi þróunar  - stundum baráttu og átaka - en framar öllu, þróunar; ekki alltaf sýnilegrar og sjaldnast á vettvangi stjórnmála, heldur á vettvangi heimspekilegrar umræðu, bókmennta, lista, fræða og frjálsra félagasamtaka. Við erum að tala um langhlaup á braut menningarinnar fremur en heljarstökk augnabliksins.

Krafan um breytingar er að mörgu leyti mun djúptækari en virðist í fyrstu, þar sem hún tekur ekki aðeins til menningarlegra þátta, heldur er einnig krafa um breytingar á skipulagi sem á sér þúsund ára sögu. Slíkar breytingar mega vel hafa nokkurn aðdraganda og kannski er þróun
betri en bylting.

Það er trúfrelsi á Íslandi. Hitt er rétt að Þjóðkirkjan hefur ákveðna sérstöðu sem byggir á sögulegum forsendum. Er það vont að Þjóðkirkjan hafi sérstöðu? Ég er ekki viss um að spurningin sé alls kostar rétt. Sérstaða Þjóðkirkjunnar er staðreynd, sem er sögulega ákvörðuð. Ég tel hins vegar að krafan um breytingar eigi sér raunverulegan hljómgrunn og óskin um breytingar muni verða uppfyllt. En með hvaða hætti? Sú spurning er viðfangsefnið í samtímanum og henni er ekki að fullu svarað.

Umræðan um breytingar á því kannski að fjalla um það með hvaða hætti við innleiðum breytingarnar. Við erum þrátt fyrir allt komin svo langt að þeir sem vilja þjóna Guði hafa margt að velja um. Það gildir ekki síður um þá sem engu vilja trúa. Gagnvart þeim erum við að stíga mikilvægt framfaraspor með nýju lagafrumvarpi, sem vonandi verður að lögum fyrir vorið,  en þau lög koma til með að fela í sér viðurkenngu á lífsskoðunarfélögum til jafns við trúfélög.  

Alla þessa umræðu og þessar breytingar verður Þjóðkirkjan að sjálfsögðu að þola. Og hlusta af ábyrgð og skilningi. Þjóðkirkjan þarf að standa sig í átökum um lífsskoðanir og sýna gildi sitt, hér nægir henni sagan ein ekki, hún þarf að sýna gildi sitt í samtímanum.

Svo lengi sem Þjóðkirkja er við lýði hljóta menn að spyrja um forsendur sérstöðu hennar , og í hverju hún felsit.  Í framhaldinu vilja vakna spurningar sem eru ekki trúarlegs eðlis heldur eins veraldlegar og verða má: Um samfélgslegt rask, varðveislu menningarverðmæta, um tímaramma, stjórnsýslu, aðkomu að innheimtu sóknargjalda. Ég veit að sumir vilja afnema sérstöðu Þjóðkirkjunnar í einu vetfangi. Aðrir vilja fara sér hægt, þó svo þeir vilji breytingar. Enn aðrir vilja engar breytingar. Í mínum huga er þessi þáttur umræðunnar nánast tæknilegur  og hefur lítið með trúfrelsi að gera. Spurningin snýst miklu fremur um félagslega þætti, sögulega arfleifð og menningu.

Mér hefur þótt ánægjulegt að fylgjast með hvernig umræðan um lífsskoðunarfélög, trúarbrögð og trúfrelsi hefur þróast á Íslandi. Mér hefur fundist þessi umræða spretta upp úr því besta í hinni íslensku arfleifð sem ég hef hér vísað til; arfleifð umburðarlyndisins. Í þeim anda hafa talsmenn krsitinnar trúar og annarra trúarbragða talað. Og þannig hafa talsmenn Siðmenntar talað. Það gleður mig að þeir einstaklingar sem ég hef þar helst í huga eru á meðal frummælenda á þessum morgunfundi sem Innanríkisráðuneytið efnir til í dag.

Þessi fundur mun fjalla um hin ýmsu álitaefni sem verður að leysa úr ef okkur á að farnast vel í að framkvæma breytingar á skipulagi trúarlegra málefna á okkar góða landi þannig að til framfara horfi.
 trúfrelsi - fundur 7.3.12

Umfjöllun innanríkisráðuneytis: http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/27985