TRYGGVA HERBERTSSON MISMINNIR
17.02.2009
Tryggvi Þór Herbertsson lýsti því yfir í útvarpsþættinum Í vikulokin sl. laugardag að ég hefði verið hvatamaður þess að leitað var til Kínverja og Rússa um lán þegar „vinaþjóðir" í vestri hefðu brugðist. Ekki nóg með að ég hafi hvatt til þessa heldur hafi ég átt hugmyndina!
Svo var ekki. Hið gagnstæða var meira að segja uppi á teningnum því ég varaði margítrekað við þeirri ráðagerð. Benti ég á að Rússland væri að þróast til mjög vafasamra stjórnarhátta með einræðistilburðum Pútíns og kínversk stjórnvöld væru ekki þekkt af lýðræðisást. Hætt væri við því að lánveitendur af slíku sauðahúsi vildu fá eitthvað fyrir sinn snúð eða hver væri staða Íslands þegar kæmi að samningum um framlengingu stórláns á sama tíma og til okkar kasta kæmi á alþjóðavettvangi til dæmis í atkvæðagreiðslu í Örygisráði SÞ ef við ættum fulltrúa þar og hagsmunir lánveitandans væru í húfi? Ég varaði beinlínis við því að sækja um aðstoð til Rússa og Kínverja og hvatti ALDREI til þess. Ég hlýt að ætla að Tryggva Herbertsson misminni því ekki ætla ég honum að fara vísvitandi með rangt mál.