Fara í efni

TVEIR ÍRAR, EINN GRIKKI OG ÍSLENDINGUR Í PALESTÍNU

Palestína - I
Palestína - I

Ég er nú á ferð í Ísrael og Palestínu ásamt þremur öðrum þingmönnum, tveimur Írum og einum frá Grikklandi til þess að ljá lið baráttunni gegn fangelsun án dóms. Um 750 Palestínumönnum er nú haldið í ísraelskum fangelsum án þess að hafa hlotið dóm, og eru þar á meðal fangar á barns- og unglingsaldri.

Pólitískir fangar í Ísrael eru miklu fleiri - núna munu þeir vera um 7000 - en fjöldinn er nokkuð sveiflukenndur. Af þessum fjölda eru um 350 undir átján ára aldri.

Dómskerfinu er ekki að treysta í Ísrael þegar Palestínumenn eiga í hlut, en til marks um það er að komi fram ákæra eru 99 prósent líkur á að hinn ákærði verði fundinn sekur. Sýndarréttarhöld eru engu að síður réttarhöld þar sem hægt er að reyna að koma fram vörnum eða draga málið fram í dagsljósið, og er viðfangsefni okkar fjórmenninganna að beina sjónum að einstaklingum sem hafa verið sviptir frelsi sínu án réttarhalda og dóms. Sérstaklega horfum við nú til Bilal Kayed. Hann hafði afplánað fjórtánog hálfs árs fangelsisdóm um miðjan júní sl. En fjölskylda hans greip í tómt þegar hún mætti við fangelsið að samfagna frelsi hans.

Hann situr áfram skýringarlaust í fangelsinu en þess er að geta að Bilal þykir öflugur einstaklingur sem býr yfir sannfæringu og það sem meira er, sannfæringarkrafti. Hann hefur því valist til forystu í fangelsinu. Þegar hann hóf mótmælasvelti fyrir 62 dögum hafði það áhrif innan fangelsismúranna og fara samfangar hans nú í svelti honum til stuðnings og skiptast þeir á, þannig að einn hópur tekur við af öðrum.

Við höfum nú sett inn formlega ósk um að fá að heimsækja Bilal á sjúkrahúsið þar sem hann er hlekkjaður við rúm sitt. Svar hefur ekki borist, en á meðan við bíðum þess reynum við að nota hverja mínútu til að ræða við mannréttindasamtök um stöðu þessara mála,mannréttindi almennt og mannréttindabrot í Palestínu.