Fara í efni

UM ÁBYRGÐ EMBÆTTISMANNA OG STJÓRNMÁLAMANNA


Í Silfri Egils um helgina fór fram umræða um  fyrirbærið að „axla ábyrgð". Í þessari umræðu tóku þátt stjórnmálamenn og fréttamenn.  Útvarpsmaðurinn góðkunni, Jóhann Hauksson, varaði við því að hafa væntingar til fjárfesta sem þeir risu ekki undir. Staðreyndin væri sú að þeir væru jafnan að hugsa um sinn hag en ekki almennings.  Það væri aftur hlutverk kjörinna fulltrúa. Og til þeirra ættum við að hafa væntingar. Mikið rétt. Og það er líka rétt sem lá í röksemdafærslu Jóhanns að þess vegna væri varasamt að fela fjárfestum forsjá almannahagsmuna.

Embættismenn og spillingin

Umræðan spannst áfram. Arna Schram, formaður Blaðamannafélags Íslands, sagði að fráleitt væri að stjórnmálamenn þvæðu hendur sínar og vísuðu á embættismenn. Það kann að vera rétt en aðeins að hluta til því fráleitt er að líta svo á að embættismenn beri ekki ábyrgð og þurfi ekki að „axla" hana ef því er að skipta. Ef embættismenn misnota aðstöðu sína bregðast þeir trausti og þurfa þá ekkert síður en stjórnmálamenn að standa skil gerða sinna. Dæmi um þetta eru kaupréttarsamningar sem embættismenn semja um í skjóli myrkurs sjálfum sér til hagsbóta og himinhá laun sem þeir verða sér úti um með baktjaldasamningum. Við fengum innsýn í slíkt spillingarfen í REI málinu. Gott var að heyra að Vilhjálmur Bjarnason ætlar að láta reyna á lögmæti siðlausra baktjaldasamninga fyrir dómstólum.

Samspil stjórnmála og embættismannakerfis

Síðan er hitt að í einkavæðingarferlinu er oftar en ekki um að ræða samspil stjórnmálamanna og embættismanna.
Það er til dæmis fróðlegt að fara hálft ár aftur í tímann. Snemma í vor ákvað ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins að selja hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja. Skilyrt var að einkaaðili keypti. Geysir Green Energy (GGE), nýstofnað fyrirtæki í orkubransa, var í startholunum að kaupa hlutinn. Það gekk eftir einsog greinilega hafði verið áformað.
Nokkrum mánuðum síðar undirrita Geysir Green Energy og Landsvirkjun samkomulag um kaup þess fyrrnefnda á 24,35% hlut Landsvirkjunar í Enex. Á vefsíðu Landsvirkjunar 12. október sl. segir: „Enex er leiðandi fyrirtæki í þróun jarðvarmaverkefna og vinnur nú að byggingu jarðvarmavirkjana í Evrópu, Bandaríkjunum, Mið Ameríku og Kína. Eftir kaupin á GGE um 70% í Enex og eftir fyrirhugaðan samruna Reykjavik Energy Invest (REI) og GGE mun sameinað félag ráða yfir um 97% hlutafjár í Enex. Stefnt er að því að samþætta starfsemi Enex við sameinað félag GGE og REI. Kaupverð hlutar Landsvirkjunar er 996 milljónir króna og að helmingshlut greiddur í reiðufé og helmingur með hlutafé í Geysi Green Energy..."
Þarna er dæmi um samspil stjórnmála (Sjálfstæðisflokks)  og embættiskerfis (Landsvirkjunar)  greinilega í þessu tilviki að styrkja fjárfestana í Geysi Green Energy (að uppistöðu til FL group sem nú er vitað að átti í verulegum fjárhagslegum vandræðum á þessum tíma).

Hver gaf Landsvirkjun grænt ljós?

Fróðlegt væri að fá að vita hver gaf Landsvirkjun grænt ljós á að selja hlut sinn í Enex til GGE? Var það hluti af áætlun ríkisstjórnarinnar að efla GGE og einkavæðingu orkugeirans? Og í framhaldinu skulum við velta fyrir okkur ábyrgð embættismanna. Getur verið að stundum séu embættismenn stjórnmálamenn? Og getur verið að stundum sé rétt að láta embættismenn standa ábyrga gerða sinna ekkert síður en stjórnmálamenn?