Fara í efni

UM EIGNARRÉTT SKAPARANS

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 16/17.09.23.
Æskuvinur minn, sem hefur unnið að því hörðum höndum í meira en hálfa öld að reyna að kristna mig, fékk mig á dögunum til að taka þátt í röð umræðufunda nokkurra kennimanna vestan hafs og austan um umhverfisvána og á hvern hátt siðfræði og trúarbrögð gætu komið að gagni í þeirri umræðu.
Samræðan skyldi byggð á erindisbréfi páfagarðs frá 2015, sem ber heitið Laudato Si, Lof sé þér, en þar fjallar Frans páfi um almættið, manninn og náttúruna. Bréfið er alllangt, þaulhugsað og greinilega byggt á mikilli vinnu og yfirvegun.

Ég skal játa að heldur var ég tregur til að taka þátt í þessari samræðu en eftir því sem á leið, ég las meira og hlustaði á aðra, breyttust viðhorf mín. Enda þótt erindisbréf páfa séu almennt stíluð á kaþólska söfnuði þá er þetta bréf ákall til allra manna, trúlausra sem trúaðra, að hugleiða tiltekin gildi sem páfi telur að verði að liggja til grundvallar í aðgerðum til varnar náttúrunni. Allir þurfi að ræðast við, kirkjan eigi þannig erindi við vísindin og engir séu þeir varnarmúrar sem nokkur maður eigi að geta skýlt sér á bak við til að firra sig ábyrgð; ef það sé eitthvað sem ekki megi alþjóðavæða þá sé það afskiptaleysið.

Bréf páfa setur umhverfismálin í samhengi sem er miklu gagnrýnna og róttækara en ég hafði búist við. Á rúmum sjötíu blaðsíðum er hamrað á því að umhverfisbaráttan hljóti að vera samofin baráttu fyrir jöfnuði og félagslegu réttlæti. Hér kveður við annan tón en þann sem heyrist frá auðkýfingunum sem árlega safnast saman í Davos ásamt stjórnmálamönnum þeim handgengnum sem vilja markaðsvæða allar lausnir í umhverfismálum þannig að hagnaðarvonin verði helsti aflgjafi þeirrar baráttu. Í Laudato Si segir á hinn bóginn: “Þegar litið er á náttúruna einvörðungu sem uppsprettu auðs og gróða, þá hefur það alvarlegar félagslegar afleiðingar. Þessi afstaða, “ég á þetta, ég má þetta” (“might is right”) hefur haft í för með sér gríðarlegt misrétti, ranglæti og ofbeldi sem bitnað hefur á meirihluta mannskyns því að auðlindir jarðarinnar hafna þá á endanum hjá þeim sem hafa sterkasta stöðu; sigurvegarinn fær tök á öllu. Í fullkominni andstöðu við þetta er boðskapur Jesú um samkennd, réttlæti, bræðralag og frið.”

En svo er það eignarrétturinn. Á honum hefur kristnin alltaf haft fyrirvara, segir Frans páfi. Sá sem skapi eitthvað öðlist vissulega þar með rétt til þess sem hann hefur skapað þótt jafnan skuli spurt um félagslegt samhengi, á hvern hátt þessi réttur sé nýttur. En hvað varðar eignarrétt á sjálfu sköpunarverkinu, jörðinni og auðlindum hennar, séu engir fyrirvarar, náttúran sé almættisins, Skaparans, sameiginleg öllu mannkyni, enginn geti öðlast rétt umfram annan til gæða móður jarðar. Um þennan skilning ættum við öll að geta sameinast, hin trúuðu og hin trúlausu, klykkir páfi út með.

Vandast nú málið fyrir þá sem segja sjávarauðlindina vera sína, fallvötnin og gufuna að sama skapi, að ógleymdum vindinum og vatninu austur í Ölfusi og víðar. Samkvæmt útleggingu páfa eiga þeir ekki neitt í neinu þessu, enda skópu þeir ekkert sjálfir.

Eðlilegt þykir með öðrum orðum að sá sem skapar eitthvað öðlist þar með eignarrétt á sköpunarverki sínu. En síðan verður það að söluvöru og þá koma fleiri skapendur til sögunnar í framleiðslu- og söluferlum og síðan heilt samfélag sem skapar framleiðslunni umgjörð. Að lokum hafnar “eignin” í kauphöllinni. Þar eru engir skapendur á ferli heldur aðeins margrómaðir fjárfestar, sem ekkert skapa sjálfir en vilja ávaxta fé sitt. Þar með má ætla að eignarrétturinn hafi vatnast út. En vel að merkja, þetta eru mín orð en ekki páfans!

Svo er það jörðin og öll hennar gæði, sem stefna hraðbyri ofan í vasa ágengra fjárfesta.

Ég fæ ekki betur séð en að samkvæmt Laudato Si og sífellt háværari röddum um veröld víða muni hinir stórtækari “eignamenn” þurfa að hafa sig alla við, nú vilji menn nefnilega fá að vita hver hafi verið skapari meintra eigna þeirra og þá hvort sá skapari sé með litlum staf eða stórum.