Fara í efni

UM FRAMFARIR OG FRAMFARAMENN

Andres Bjornsson
Andres Bjornsson
Sannast sagna hélt ég að Ómar vinur minn Ragnarsson, sá góði maður, skildi gráglettinn húmor, öðrum mönnum fremur. Meistari slíks húmors var Andrés Björnsson, fyrrverandi útvarpsstjóri.

Í sjónvarpsþætti um sögu íþróttafrétta í Sjónvarpi segir Ómar þá sögu að Andrés hefði einhvern tímann sagt að allar framfarir væru til ills!

Þessu virðist Ómar hafa trúað sem nýju neti og segir að þarna sé eflaust komin skýring á því að útvarpsstjórinn þáverandi hafi lagst gegn beinum útsendingum frá íþróttaviðburðum. Enda maðurinn á móti framförum!!!  

En svona til vara bætti Ómar því við, að kannski hafi verið slökkt á heyrnartæki útvarpsstjórans og hugsanlega því einhver misskilningur uppi. Ætli það ekki.

Nema að eftir situr, að í þætti sem ætlað er að verða söguleg heimild um Ríkisútvarpið, erum við skilin eftir með þá tilfinningu að  Andrés Björnsson hafi verið á móti framförum. Þetta er náttúrlega miklu hlægilegra en brandarinn sem átti að segja á hans kostnað.

Vissulega er það rétt að Andrés Björnsson var aldrei ginkeyptur fyrir því yfirborðsskrumi sem illu heilli hefur sett mjög svip sinn á áherslur í útvarps- og sjónvarpsrekstri í seinni tíð og verður seint talið til framfara.  

Andrés Björnsson sótti sér menntun í fjölmiðlun bæði austan hafs og vestan, í Betlandi og í Bandaríkjunum og hef ég áður haldið því fram að hann sé fyrsti menntaði fjölmiðlafræðingurinn í landinu. Þetta er til marks um brennandi áhuga hans á þessu viðfangsefni og þá hvað við gætum af öðrum lært sem horfði til framfara.

Staðreyndin er náttúrlega sú að þessi hægláti menningarmaður var frumkvöðull og afgerandi í ýmsum framförum í útvarpsrekstri á þeim tíma sem hann gegndi starfi dagskrárstjóra og síðar embætti útvarpsstjóra.

Einkum kenndi áhrifa hans á sviði lista, bókmennta  og menningar en jafnframt hafði hann til að bera þá víðsýni að vilja horfa til allra átta. Hann átti stærri hlut en aðrir í Stofnun Rásar 2 og fyrir hans tilstuðlan var ráðist í ýmsa nýbreytni í umfjöllun Ríkisútvarpsins í margvíslegri afþreyingu.

Nýbreytni í anda Andrésar Björnssonar var aldrei niður á við heldur upp á við og vildi ég að við hefðum átt fleiri menn eins og hann til að verða kyndilberar framfara. Ef til vill á eftir að koma söguskýringarþáttur í þáttaröð Sjónvarpsins þar sem Andrés Björnsson fær að njóta sannmælis.