Um grunna umræðu og djúpa
Formaður Rafiðnaðarsambandsins, Guðmundur Gunnarsson, skrifar lesendabréf í DV í gær og gagnrýnir þá umræðu sem á sér stað í viðræðuþáttum ljósvakamiðlanna, m.a. um nýgerða kjarasamninga. Guðmundi þykir umræðan grunn. Sérstaklega lýsir hann furðu á vanþekkingu á stöðu lífeyrismála. “Hvar í veröldinni myndi það viðgangast til lengdar að almenningi er gert að búa við algerlega sjálfbært lífeyriskerfi og búa við skerðingu réttinda sakir þess að þeirra kerfi á ekki fyrir skuldbindingum. Á meðan oðpinberir embættismenn semja við sjálfa sig um kerfi þar sem ávöxtun skiptir engu máli og þaðan af síður hvort kerfið eigi fyrir skuldbindingum, ofan á allt það er kerfið tengt við launakerfi framtíðarinnar. Mismunurinn er einfaldlega sóttur í ríkissjóð. Ef haft er orð á þessu situr viðkomandi undir ólundarlegum aðdróttunum. Það er harla einkennilegt að ekki skuli fjallað um hið ótrúlega svar framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins sem birtist í Mogganum í síðustu viku. Það svar er eins og hjá unglingi sem fær ábendinggar um atferli sem ekki er í lagi “Æi, gasalega ertu leiðinlegur, ég nenni ekki að tala um þetta”. Þetta er það eina sem stendur í svari framkvæmdastjórans og það eru rök sem virðast ganga og passa vel hinum blaðrandi besservisserum sem oftar en ekki eiga drjúgan þátt í að drepa niður umræðu um þörf mál.”
Svona mæltist semsé formanni Rafiðnaðarsambands Íslands í DV í gær. Ég ætla ekki að tala mikið um ólund eða besservissera, hvað þá um hvað telst vera grunn umræða og hvað djúp. Guðmundur Gunnarsson telur sig væntanlega vera fremur á dýptina og okkur hin þá væntanlega fulltrúa grunnhyggni. Tilefni alls þessa eru yfirlýsingar Gylfa Arnbjörnssonar, framkvæmdastjóra ASÍ, fyrir nokkru um stöðu lífeyrissjóða, sem ríki og sveitarfélög, sjálfseignarstofnanir og margvísleg samtök eiga aðild að og hvíla á samningum sem BSRB, BHM og KÍ hafa samið um. Framkvæmdastjóri Lifeyrisssjóðs starfsmanna ríkisins svaraði fullyrðingum Gylfa í Morgunblaðinu. Ég tel að svar hans hafi verið málefnalegt, gagnstætt því sem Guðmundur Gunnarsson fullyrðir, en heppilegast er að hver dæmi fyrir sig.
Grein Hauks Hafsteinssonar er að finna hér: http://www.bsrb.is/Default.asp?ID=0&type=one&news_id=618&menuid=
Ég hef einnig fjallað um þetta efni hér á síðunni: https://www.ogmundur.is/is/greinar/villandi-umraeda-um-lifeyrismal