UM KREDDUR Á KRATAVÆNGNUM
Einkavæðing velferðarþjónustunnar kemur ekki til greina segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir frambjóðandi til formennsku í Samfylkingunni. En hún bætir því við að allt komi til greina varðandi rekstrarformið. Þar eigum við ekki að ánetjast kredduhugsun, segir hún. Á morgunvakt RÚV í morgun sagði hún að ef við einkavæddum velferðarþjónustuna þyrfti fólkið að greiða fyrir hana beint og það gengi ekki á Íslandi.
Vandinn er sá að þetta segja flestir einkavæðingarsinnar í Sjálfstæðisflokknum líka eftir að þeir áttuðu sig á því hve óvinsæl fullkomin markaðshyggja er. Sjálfstæðismenn vilja að hið opinbera greiði fyrir velferðarþjónustuna en einakaðilar megi gjarnan - og eigi reyndar helst - að reka hana. Hið sama er uppi á teningnum hjá Tony Blair og félögum í Nýja Verkamannaflokknum í Bretlandi. Þeir fundu upp hugtak sem heitir einkaframkvæmd. Þetta form hefur sömu eiginleika og einkavæðing og er einkavæðing, ef út í það er farið. Einkaframkvæmd gerir fjárfestum kleift að taka arð út úr þessari þjónustu eins og hverjum öðrum rekstri og reka hana á forsendum markaðslögmála.
Þetta rekstrarform hefur reynst afar illa jafnt fyrir notendur þjónustunnar sem greiðendur hennar. Hún skilar verri verkum og er dýrari. Þetta hefur verið rætt og rannsakað í Bretlandi og víðar þar sem reynslan talar sínu máli. Forystumenn krata þar í landi eru hins vegar með markaðsskrúfuna á sálinni, staðráðnir í því að hafa reynsluna að engu. Þetta er með öðrum orðum þeirra kredda. Eins mótsagnakennt og það hljómar reyna þeir að koma sér hjá umræðu með því að segja að ræða þurfi málin!
Einkaframkvæmd má ekki rugla saman við sjálfseignarformið sem við þekkjum á Íslandi og má þar nefna SÍBS og Hrafnistu, heilbrigðisstofnanir sem sprottnar eru upp úr samtökum sjúklinga og verkalýðshreyfingu og ekki ætlað að skapa eigendum sínum arð. Á þessu tvennu er grundvallarmunur.
Í stjórnmálum er spurt hvort skipuleggja eigi velferðarþjónustuna sem bisniss. Hin pólitísku átök um rekstrarform standa um nákvæmlega þetta.
Þetta er grundvallaratriði í stjórnmálum samtímans og verður að gera þá kröfu til stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka að þeir tali skýrt í þessum efnum.