UM KÚRDA, KONUR OG FEHRAT ENCU
Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hef ég nú í nafni svokallaðrar Imrali sendinefndar afhent Blaðamannafélagi Íslands skýrslu um stöðu mannréttindamála í Tyrklandi og þá ekki síst um brot sem framin eru á Kúrdum. Imrali vísar til eyju í Marmarahafinu þar sem tyrkneska stjórnin hefur haldið Öcalan, leiðtoga Kúrda, í einangrunarfangelsi síðan 1999. Umrædd sendinefnd, sem var í Tyrklandi í febrúar síðastliðnum, vildi hitta Öcalan og þingmenn sem sitja á bak við lás og slá en þeir eru flestir úr röðum Kúrda. Sú beiðni var að vettugi virt.
BÍ birtir skýrsluna
Blaðamannafélag Íslands hefur birt skýrslu Imrali sendinefndarinnar á fréttavef sínum og er í fréttatilkynningu BÍ, eðli máls samkvæmt, fyrst og fremst vísað í umfjöllun Imrali hópsins um tjáningar- og fjölmiðlafrelsi sem nú fer mjög hrakandi í Tyrklandi og var þó ekki gott fyrir, þúsundir manna dregnar fyrir dómstóla vegna skoðana sinna, bæði fréttamenn og fólk sem tjáir sig á samfélagsmiðlunum svonefndu á gagnrýnin hátt gagnvart stjórnvöldum. Hvet ég lesendur DV til að kynna sér efni umræddrar skýrslu á vef Blaðamannafélags Íslands.
„En við hefðum ekki getað hist því ég var í fangelsi."
Þann tíma sem ég sat á þingi Evrópuráðsins í Strassborg lagði ég mig sérstaklega eftri því að fylgjast með málstað Kúrda. Hafði ég haft áhuga á frelsisbaráttu þeirra allar götur frá því Erlendur Haraldsson, prófessor var einn helsti talsmaður þeirra í Evrópu. Síðan tók það að vekja athygli mína hve sterkar lýðræðisáherslur voru í málflutningi þeirra. Og þegar ég á eigin vegum heimsótti Diyarbakir, höfuðstað Kúrda í Austur-Tyrklandi og fór þar víða um héruð árið 2014, vakti það athygli mína að tal þeirra um jafnrétti kynjanna var meira en orðin tóm. Þar sem þeir höfðu náð kosningu til að stýra sveitarfélögum, voru bæjarstjórarnir alltaf tveir, karl og kona, svo áþreifanlegt dæmi sé nefnt.
Þegar komið var fram á árið 2015 hitti ég sendinefnd sem komin var til Strassborgar að tala máli Kúrda. Í hópnum var ungur lögfræðingur, Erdu Günay. Á daginn kom að hún var frá Diyarbakir. „Synd að við hittumst ekki þar", sagði ég hugtekinn af frásögnum hennar, „ég var þarna á ferð í febrúar 2014".„Ég var þá líka í Diyarbakir", sagði hún, „en við hefðum ekki getað hist því ég var í fangelsi." Ég starði í forundran á stúlkuna sem gæti hafa verið dóttir mín.
„Mín sök var að vinna með lögfræðiteymi Öcaalns eftir að ég lauk námi, fyrir vikið sat ég fimm ár á bak við lás og slá."
Þær eru að koma til Íslands!
Nú er þessi kona, Erdu Günay að koma til Íslands og verður í Iðnó í hádeginu á laugardag, klukkan tólf. Og líka Havin Guneser, sem er höfuðþýðandi rita Öcalans, þekkt baráttukona. Þegar ég hitti hana fyrst færði hún mér ný-þýdda bók, volga úr prentsmiðjunni. Hún sagði að önnur væri á leiðinni. „Þegar hún kemur út, þá býð ég þér til Íslands sagði ég." Og nú er Havin að koma hingað til lands og hvet ég alla til að hlýða á mál hennar og Erdu Günay í Iðnó á laugardaginn.
Einhver bið verður hins vegar á því að Fehrat Encu komi hingað til lands. Um hann hef ég fjallað áður í DV og sennilega er Encu eini fangelsaði tyrkneski þingmaðurinn sem hefur rýnt af áhuga í skrif þessa blaðs.
Fehrat Encu í DV
Þannig er málum háttað að ég ákvað að velja, nánast af handahófi, þingmann sem hefði verið fangelsaður, og rýna í hans mál sérstaklega. Fyrir valinu varð þessi einstaklingur, Fehrat Encu þingmaður Lýðræðisfylkingarinnar, HDP sem er flokkur Kúrda. Hann var fangelsaður í byrjun nóvember á síðasta ári ásamt tólf öðrum þingmönnum og fjölda stjórnmálamanna sem starfa á sveitarstjórnarstiginu.
Ferhat Encü er 32 ára aldri. Í DV fjallaði ég á sínum tíma um baráttu hans fyrir því að fá opinbera og óvilhalla rannsókn á fjöldamorðum sem framin voru í desember árið 2011 en flestir þeirra sem þá féllu fyrir sprengjuregni tyrkneska lofthersins í fjallahéruðum sem liggja að Írak, voru á unglingsaldri og flestir í fjölskyldu Ferhats, þar á meðal ung systkini hans. Í kjölfar þessara atburða bauð Ferhat sig fram til þings og hlaut kosningu í júníkosningunum 2015, en þá vann HDP flokkurinn stórsigur.
Gladdist yfir blaðaskrifum
Víkur nú sögunni að nýju til Imrali sendifararinnar í febrúar síðastliðnum. Að sjálfsögðu spurðist ég þá fyrir um fangann sem ég hafði valið að fylgjast sérstaklega með. Og viti menn. Daginn sem við komum til Istanbúl, eftir för okkar til Diyarbakir þar sem Kúrdar eru fjölmennastir, fréttum við að hann hefði þá fyrr um daginn verði látinn laus. Kom hann á hótelið þar sem við dvöldum og átti með okkur fund. Notaði ég tækifærið og sýndi honum umfjöllunina um hann í DV. Gladdi það hann. En það ver skammvinn gleði því fáienum klukkustundum síðar var hann aftur kominn á bak við rimlana og er þar enn!
Þeirra rödd mun hljóma á laugardag
Þetta á að verða okkur hvatning sem viljum vekja athygli á mannréttindabrotum gegn Kúrdum.
Á laugardag klukkan 12 á hádegi eigum við þess kost að hlýða á baráttukonurnar fyrrnefndu, fræða okkur og hvetja. Það á að hlusta á einstaklinga sem sýnt hafa í verki að eru tilbúnir að fórna frelsi sínu í þágu mannréttinda. Þeirra rödd verður að ná eyrum okkar. Og þeirra rödd mun hljóma í Iðnó á laugardag.