Fara í efni

UM LÍFLEGT EVRÓPURÁÐSÞING OG KPPHLAUP VIÐ TÍMANN

Evrópuráðið - 47 aðildarríki
Evrópuráðið - 47 aðildarríki

Í vikunni var hefðbundið ársfjórðungsþing Evrópuráðsins í Strasbourg og sóitti ég það ásamt tveimur öðrum þingmönnum íslenskum, þeim Valgerði Gunnarsdóttur og Karli Garðarssyni. Öll létum við að okkur kveða á þinginu og tók ég þátt í um umræðu um fangelsun án dóms og laga,  réttindi flóttamanna og vaxandi ofbeldi á hendur þeim, kyngervingu barna í auglýsingum og fjölmiðlum og síðan tilraunir til að stemma stigu við slysum í umferðinni, en á því sviði hafa Íslendingar einmitt náð góðum árangri.

Stóra málið var, sem á undanförnum þingum, flóttamannavandinn og sem fyrr var rætt um vandann en ekki orsakir hans. Þannig hefur það ekki náð eyrum þorra þingmanna að vegna ofbeldisaðgerða tyrkneskra yfirvalda eru mörg hundruð þúsunds manns nú á vergangi í Tyrklandi og verða flóttamenn morgundagsins ef ofbeldinu linnir ekki.

Reyndar var Tyrkland mjög í kastljósinu á þinginu því samþykkt var ályktun sem var mjög gagnrýnin á tyrknesk stjórnvöld fyrir brot á mannréttindum. Þingmenn Kúrda hafa verið sviptir þinghelgi, fjöldi fréttamanna dregnir fyrir dóm fyrir að móðga Erdogan forseta en alvarlegast er að sjálfsögðu hernaðarofbeldi gegn Kúrdum í suð-austurhluta landsins.

Athygli vakti ræða sem Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, flutti á þinginu. Fátt kom á óvart í ræðu hans en athyglisvert var að hlýða á hann fjalla um Evrópusambandið. Mér þótt hann fara furðu mildilegum orðum um sambandið eftir það sem á undan er gengið gagnvart grískri alþýðu. Hann sagði þó að Evrópusambandið yrði að endurskoða afstöðu sína því það hefði hneigst um of að nýfrjálshyggju.

Annars fer starf á vettvangi Evrópusambandsins að mestu leyti fram í nefndum líkt og á Alþingi Íslendinga. Þar eru drög lögð að skýrslum og álitsgerðum og stefnumótun rædd. Ég vinn nú að rannsóknarskýsrlu um orsakir misskiptingar og stöðu verkalýðshreyfingar. Spurt er hvort þverrandi áhrif verkalýðshreyfingar kunni að einhverju leyti að skýra vaxandi misskiptingu og þá einnig hvort eðli verkalýðsbaráttunnar kunni að hafa breyst. Og ef svo er, hvað sé þá til ráða til að styrkja réttindabaráttu launafólks.

Áform mín höfðu verið að ljúka verkefninu fyrir næsta vor áður en kjörtímabilinu lyki. Áform um að stytta kjörtímabilið setja hins vegar strik í reikninginn og kalla á kapphlaup við tímann.