Fara í efni

UM MEINT HRINGL TVEGGJA INNANRÍKISRÁÐHERRA

IRR - mynd
IRR - mynd


Þorsteinn Pálsson, fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins, fjallar í vikulegum pistli sínum í Fréttablaðinu í dag um það sem hann kallar „reglugerðahringl" tveggja innanríkisráðherra, mín og núverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins, um landakaup erlendra manna á Íslandi.

Varðandi þá reglugerð sem ég setti (og laut að því að EES-borgarar gætu því aðeins keypt land á Íslandi að þeir gætu sýnt fram á búsetu eða áform um atvinnurekstur), segir Þorsteinn að hún hafi orkað tvímælis: „Ágreiningur var um hvort þetta samræmdist skuldbindingum Íslands samkvæmt samningnum um evrópska efnahagssvæðið án þess að á það hafi reynt. Nýi innanríkisráðherrann ákvað því að fella reglugerðina úr gildi. Um margt skiljanleg ákvörðun."

Þegar núverandi innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, afnam reglugerðina, hafði hún uppi svipaðan málflutning og Þorsteinn Pálsson nú; sagði að ég hefði verið „á gráu svæði" með þá reglugerð sem ég setti um landakaup. Þessu svaraði ég hér á heimasíðu minni og sagði m.a.:

 „Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, segir að reglugerð sem ég setti um kaup útlendinga á fasteignum hér á landi sé á gráu svæði að mati eftirlitsstofnunar Efta. Þess vegna hafi hún numið hana úr gildi.
Lesendum til upplýsingar vil ég skýra eftirfarandi. Ýmsar þjóðir innan EES hafa viljað leita leiða til að sporna gegn uppkaupum auðmanna á jörðum, bæði innlendra og erlendra. Nefni ég þar Dani og Norðmenn sérstaklega. Sjálfur deili ég þessum sjónarmiðum og hef margoft fært opinberlega rök fyrir þeim. Ég gerði mér grein fyrir því að taka þyrfti á málinu á margþættan hátt en aðeins að hluta til heyrði það undir það ráðuneyti sem ég fór fyrir, Innanríkisráðuneytið, og sneri þá einkum að kaupum útlendinga á landi.
Ég gerði mér jafnframt grein fyrir því að málið kynni að verða umdeilt, bæði hér innanlands og erlendis. Enda fór svo að eftirlitsstofnun ESA óskaði eftir greinargerð. Leitaði ég þess vegna til færustu sérfræðinga sem völ er á að vera til ráðgjafar um útfærslu á þeim ásetningi mínum að setja landakaupum skorður. Í frétt á vef Innanríkisráðuneytisins 25. janúar sl., þar sem kynnt var frumvarp að lagabreytingu sem tæki til landakaupa útlendinga utan sem innan EES annars vegar og hins vegar reglugerðarbreyting gagnvart EES borgurum, segir: „Í tengslum við þessar athuganir hefur innanríkisráðuneytið aflað tveggja álitsgerða, annars vegar frá Eyvindi G. Gunnarssyni, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, og Valgerði Sólnes lögfræðingi. Hins vegar frá Jens Hartig Danielsen, prófessor við lagadeild Háskólans í Árósum, og Stefáni Má Stefánssyni, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, en þar er fjallað sérstaklega um reglur EES-samningsins um frjálsa fjármagnsflutninga og fjárfestingu í fasteignum."
Frumvarpið lagði ég síðan fram til kynningar á Alþingi - þar sem það er enn statt - en reglugerðina undirritaði ég 17. apríl þegar hún hafði staðið til kynningar í nær þrjá mánuði.
Ég taldi það vera lykilatriði að greinargerðir fræðimannanna kæmu fram við kynninguna  svo hugsanlegum andmælendum gæfist kostur að taka upp málefnalega umræðu um það sem Hanna Birna Kristjánsdóttir segir nú að sé á gráu svæði.
En mér verður á að spyrja hvort það séu ekki einmitt vinnubrögð núverandi ráðherra í þessu máli sem þegar allt kemur til alls séu á gráu svæði. Engin kynning, engin málefnaleg rök, bara staðhæfing um að slæmt sé að halda sig á gráu svæði. En einmitt þar sýnist mér ráðherrann halda sig."
Sjá hér: https://www.ogmundur.is/is/greinar/radherra-a-grau-svaedi

Hér má því sjá að reglugerð mín var vel ígrunduð og að henni staðið á faglegan, opinn og lýðræðislegan hátt. Ekkert hringl þar. Öðru máli gegnir þegar reglugerðin var numin úr gildi. Þá var engin kynning  og ekkert umsagnarferli.

Ég vil taka skýrt fram að ég virði að sjálfsögðu rétt núverandi innanríkisráðherra til að standa að breytingum á reglugerðum - á umræddri reglugerð eða öðrum. Breytingarnar þarf hins vegar að gera á opinn og lýðræðislegan hátt.

Þosteinn Pálsson segir að ástæðan fyrir reglugerðarsetningu minni hafi verið áform kínversks auðmanns að kaupa Grímsstaði á Fjöllum. Þannig skrifar Þorsteinn: „Áhugi Kínverja á að kaupa Grímsstaði á Fjöllum leiddi til þess að innanríkisráðherra vinstri stjórnarinnar setti reglugerð sem takmarkaði möguleika þeirra sem búa á evrópska efnahagssvæðinu til að fjárfesta í fasteignum hér á landi."
Ekki er þetta alveg rétt. Áhugi minn á því að sporna gegn landakaupum erlendra aðila á Íslandi á sér miklu dýpri rætur, meðal annars lagasetning sem Þosteinn Pálsson stóð sjálfur að árið 1998, sem reyrði saman í eina spyrðu, fastar en áður hafði verið, eignarhald á landi og auðlindum. Eignarhald á hvorugu vildi ég úr landi.
Svo var hitt að í aðdraganda hrunsins kom fram að auðmenn voru farnir að kaupa upp land í talsverðum mæli. Ég taldi þetta vera óheillaþróun og er hvorki einn um þá skoðun hér á landi né erlendis og vísa ég til þess sem að framan segir um það efni.
Fleiri fletir er á þessu máli. Þannig má nefna að þegar mikill auður kemur inn í viðskipti í umhverfi sem verið hefur í sæmilegu jafnvægi, er hætt við því að sitthvað fari úr skorðum.
Tilboð um 300 milljónir í jörð sem áður seldist á 60 milljónir, þýðir til dæmis að það systkinanna á bóndabænum sem gjarnan vill búa, hrökklast af jörðinni. Hin systkinin, blönk í bænum, vilja nú meira í sinn hlut en hann ræður við. Jörðun fer því á 300 milljónir og í eyði nema þá kannski beitarhagar fyrir hross og trjárækt ríkisstyrkt af skattfé.
Þetta er veruleiki sem menn þekkja vel til í sveitum landsins.