Um olíu og efnavopn
Skyldu íslenskir fylgismenn haukanna í Washington almennt vita að aðeins eitt ríki í veröldinni býr við meiri olíuauðlegð en Írak? Í grein sem James A. Paul framkvæmdastjóri Global Policy Forum birti í desember sl. kemur fram að vitað sé um að olíumagnið í jörðu í Írak sé í tunnum talið 112,5 milljarðar og að sérfræðingar telji að miklar líkur séu á að þessar birgðir séu í reynd miklu meiri. Hugsanlega um 250 milljarðar tunna. Ef þetta er rétt standa Írakar Saudi Aröbum jafnfætis varðandi olíuauðæfin. Grein James A. Paul má lesa hér. Jafnvel enn betri er grein Miriam Pemberton á vef Foreign Policy in Focus sem nálgast má hér.
Skyldu íslenskir fylgismenn haukanna í Washington vita að þar til olíuauðurinn var þjóðnýttur í Írak árið 1972 voru þrír fjórðu hlutar þessara olíuauðæfa á hendi bandarískra og breskra fyrirtækja? Skyldi aldrei hvarfla að þeim að þau vilji komast aftur yfir þennan auð? Hafa aldrei rekið á fjörur þeirra fréttir um að kínversk, rússnesk, frönsk og þýsk fyrirtæki hafa sóst eftir að semja við Íraka um olíu eftir að ljóst varð að Írakar væru á höttunum eftir slíkum samningum við erlend fyrirtæki? Það hefur hins vegar reynst þeim torvelt vegna viðskiptabannsins.
Skyldu íslenskir fylgismenn haukanna í Washington vita að af fimm stærstu olíufyrirtækjum veraldarinnar eru tvö bandarísk, tvö bresk og eitt franskt? Vita þeir að það eru Bandaríkjamenn og Bretar sem eru ákafastir að ráðst inn í Írak og skipta þar um stjórn? Aðrir hafa efasemdir, þar með taldir Kínverjar, Rússar, Frakkar og Þjóðverjar.
Skyldu íslenskir fylgismenn haukanna í Washington vita að Bush-fjölskyldan hefur verið viðriðin olíuiðnaðinn um áratugaskeið og að hið sama gildir um marga helstu ráðamenn Bandaríkjanna. Auðkýfingurinn Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna, hefur verið framkvæmdastjóri Haliburton-fyrirtækisins, stærsta þjónustufyrirtækis við olíuiðnaðinn í heiminum. Hann var "varnarmálaráherra" hjá Bush eldri þegar ráðist var inn í Írak 1991 og hefur komið við sögu í olíuviðskiptum og hagsmunagæslu um allan heim. Um þetta má lesa í grein Marjorie Cohn sem birtist í Chicago Tribune.
Dick Cheney og félagar segja að nú þurfi að ráðast á Írak. Stuðningsmenn þeirra víðs vegar um heiminn taka undir með þeim. Ríkisstjórn Íslands segir að tíminn sé að renna út – fyrir Íraka. Það er að vísu ekkert sem hefur komið fram sem bendir til þess að Írakar búi yfir kjarnorkuvopnum en fyrir fáeinum vikum átti það að vera ástæðan fyrir innrás, áður var það Al-Qaida. En þótt ekki hafi fundist kjarnorkuvopn eiga þeir eftir að gera grein fyrir efnavopnum í landinu. Mjög sterkur grunur leikur á að þau séu fyrir hendi. Vesturveldin vitað það reyndar. Þau sjálf létu Íraka fá þau.