Fara í efni

UM "STJÓRNLÆGAR ÁKVARÐANIR"

Því miður hittist svo illa á að sölumaður knúði dyra hjá mér þegar Birgir Guðmundsson, fréttamaður, fjallaði um R-lista samstarfið í Reykjavík í Spegli Ríkisútvarpsins í kvöld. Ég náði því ekki að hlýða á boðskap Birgis og útleggingar. Þó náði ég að heyra all sérstaka kenningu hans um Vinstrihreyfinguna grænt framboð; henni "léti ekki að taka stjórnlægar ákvarðanir"!
Þetta kurteislega orðlag held ég að eigi að skiljast sem svo að við í VG viljum ekki axla ábyrgð á því að stjórna. Ekki heyrði ég nokkurn rökstuðning fyrir þessari staðhæfingu. Ég veit ekki betur en Vinstrihreyfinign grænt framboð sé skipulegur flokkur, viti hvað hann vilji og  að einstaklingum úr þessum stjórnmálaflokki farist það almennt prýðilega úr hendi að axla ábyrgð innan stjórnsýslunnar. Fyrir síðustu alþingiskosningar voru tillögur VG í skatta- og efnahagsmálum almennt taldar skera sig úr málatilbúnaði annarra stjórnmálaflokka fyrir ábyrgð og raunsæi; ábyrgð gagnvart því sem Birgir kallar stjórnlægar ákvarðanir. Vinstrihreyfingin grænt framboð vildi nefnilega ekki lofa upp í ermina á sér; lýðskrum var  með öðrum orðum ekki hennar akkilesarhæll.
Hvað skyldi Birgir Guðmundsson hafa verið að fara? Gæti verið að hann líti svo á að fallist menn ekki skilyrðislaust á pólitískar áherslur um orkufreka stóriðju, einkavæðingu grunnþjónustunnar og sitt hvað annað sem hefur verið í pólitískri tísku að undanförnu, þá hljóti menn að vera utangarðs? Þetta er nauðhyggjuhugsun af verstu sort og byggir á skammsýni, þeirri trú að það sem nú er við lýði muni vara að eilífu.
Sem betur fer bendir margt til þess að hin pólitíska vindátt sé að breytast, ekki síst fyrir baráttu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Áherslur um fjölbreytni í atvinnulífi, sjálfbæra þróun, öfluga grunnþjónustu og jöfnuð í samfélaginu falla sérlega vel að stjórnlægum áherslum VG. Liggur þá ekki beint við að álykta að Vinstrihreyfingunni grænu framboði léti bara nokkuð vel að taka stjórnlægar ákvarðanir í þessum anda? Fróðlegt væri að heyra álit Birgis Guðmundssonar á þessu.