Fara í efni

UM STJÓRNMÁL Í SKAGAFIRÐI: BARA AÐ OFTAR VÆRI KOSIÐ...

Það er umhugsunarefni að fyrir kosningar er tónninn í stjórnmálamönnum oft annar en að kosningum afloknum. Það á ekki síst við um sjálfstæðismenn – líka í Skagafirði. Ég hef fylgst nokkuð vel með framvindu mála þar undanfarin ár því Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur setið þar við stjórnvölin í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Það sem helst hefur reynst þrándur í götu í þessu samstarfi  - sem almennt hefur þó gengið vel - hefur verið ágreiningur um virkjanamál í Skagafirði. Sjálfstæðismenn hafa viljað virkja og fá álver á svæðið. Þar hafa þeir átt samleið með Framsókn og Samfylkingu. Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur hins vegar staðið vaktina, ekki aðeins fyrir náttúruperlur Skagafjarðar heldur einnig fyrir hönd þeirra sem hafa viljað annars konar uppbyggingu atvinnulífs en stóriðju.

Vönduð stefnumótun VG í atvinnumálum

VG hefur bent á þá miklu möguleika sem náttúran, og þar með ferðamannaþjónustan, býður upp á í Skagafirði og  víðar. Minnist ég mjög vandaðrar stefnumótunarvinnu á vegum flokksins í Norðvestur- kjördæmi um þetta efni. Þessar áherslur norð-vestan manna í VG, skiluðu sér síðan inn í umræðu á Alþingi og í þjóðmálaumræðuna almennt og varð mörgum mikil hvatning. Stórvirkjanastefnan byggir á nauðhyggju; að fólk sjái ekki aðra möguleika til atvinnusköpunar en stóriðju. Þegar aðrir kostir verða sýnilegir breytast viðhorfin. Ég er ekki í vafa um að þetta frumkvæði á stóran hlut í þeirri bylgju sem nú rís gegn stóriðjustefnunni. 
Í þessu samhengi má það aldrei gleymast að reynslan kennir að samhliða stóriðju þrífst ekki annar atvinnurekstur sakir ruðningsáhrifa sem stafar frá henni. Þensla og háir vextir sem rekja má til stóriðjustefnunnar veikja nú þann grunn sem atvinnustarfsemi í landinu hvílir á. Þetta sjá nú allir og skilja.
Mér fannst gott að sjá skrif sjálfstæðismannsins Páls Dagbjartssonar á Skagafjarðarvefnum um virkjanamálin í Skagafirði og afstöðu til þeirra. Þar hvetur hann til þess að farið verði fram af varkárni og stígið varlega til jarðar: "Eins og mál liggja nú fyrir þá er ekkert sem knýr á um ákvarðanatöku í þessum málaflokki. Það er slaki á allri umræðu um orkufrekan iðnað í Skagafirði.  Þennan slaka og svigrúm viljum við nýta til að láta fram fara endurmat..."

Að segja það sama fyrir kosningar og eftir kosningar

 Það truflar mig óneitnlega svolítið að svona töluðu sjálfstæðismenn líka fyrir síðustu kosningar en það sem verra er, að jafnvel þótt einstaklingar lýsi persónulegum viðhorfum sínum þessa stundina, þá er hætt við því að þeir megi sín lítils ef stefna flokksins á hérðaðs- og landsvísu er önnur.
Því miður kennir reynslan að fyrir kosningar verður slaki á allri umræðu – svo við höldum okkur við orðfæri Páls Dagjartssonar -  um viðkvæm deilumál. Eftir kosningar er slakinn hins vegar úr sögunni og stefna flokksins verður ráðandi á ný.
Enginn velkist í vafa um stefnu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, hvorki fyrir né eftir kosningar. Kjósendur geta treyst VG. Það sama er sagt fyrir kosningar og eftir kosningar. Kannski myndu stjórnmálaflokkarnir vera staðfastari í málflutningi sínum ef kosið væri á hverju ári og stjórnmálamenn þannig stöðugt á tánum gangvart kjósendum. En þannig er það bara ekki.

Ef menn vilja vera vissir...

Þess vegna þurfa menn að horfa til reynslunnar, leiða hugann að því sem fulltrúar stjórnmálaflokkanna hafa sagt fyrir kosningar og síðan eftir kosningar.
Þeir sem vilja standa vörð um náttúruna og fjölbreytni í atvinnulífi geta óhræddir kosið Vinstrihreyfinguna grænt framboð. Vinstri græn í Skagafirði hafa sýnt fram á að flokknum er treystandi við stjórnvölinn.
Ég fagna að sjálfsögðu öllum yfirlýsingum – hvort sem þær koma frá sjálfstæðismönnum, fulltrúum Samfylkingar eða Framsóknar - þar sem boðað er fráhvarf frá virkjunar- og stóriðjuáfergjunni. Vilji menn hins vegar geta treyst stjórnmálamönnunum út kjörtímabilið hvað þetta áhrærir – þá er bara eitt að gera: Kjósa Vinstrihreyfinguna grænt framboð...