UMHUGSUNARVERÐ SKRIF ÚR RANNI SMÁFYRIRTÆKJA Í FERÐAMENNSKU
Síðastliðinn fimmtudag birtist grein í Morgunblaðinu eftir Björn Jónasson, sem kennir sig við Félag smáfyrirtækja og einyrkja. Það eitt er til umhugsunar að hinir smærri aðilar virðast vera að ryðja sér til rúmsins, vilja ekki að stór fyrirtæki einoki umræðu ekki síst í ljósi þess að veiran virðist ætla að verða hinum stærri fyrirtækjum og samsteypum hliðhollari en þeim sem smærri eru. Í kreppum stækka nefnilega hinir stóru, éta hina smáu. Það er ekki góð þróun eins og sjávarútvegurinn er dæmi um.
Grein Björns Jónassonar er vert að lesa og kannski líka: Íhuga!
Sagan um átta krónurnar
Það var einu sinni ferðaþjónustufyrirtæki. Ekkert sérstakt og ósköp venjulegt. Greiddi ágætis laun og stóð sig vel og skilaði afgangi. Og allt leit nokkuð vel út en þá féll Wow. Og afkoman versnaði og um áramótin 2019/20 stóð eftir skattaskuld fyrir velgengni ársins áður. Og skyndilega dundi ógæfan yfir: Það hafði fundist mús í kjallara í Wuhan í Kína sem sýkti fólk þar í landi og 4.653 dóu. Ekki gott. Flest lönd í heimi ákváðu að loka öllu sem flokkast undir lífsgleði, menningu, söng, leiklist, ferðalögum og samkomum hvers konar. Rétt eins og á tíma galdrafárs og púrítanisma. Afkoma hundraða milljóna manna í heiminum öllum rústaðist og milljónir dóu úr hungri og snemmbærum veiklunum. Stjórnvöld víða um heim prentuðu peninga til að létta undir með þeim sem þau höfðu eyðilagt afkomuna hjá og sendu rafrænt inn á reikninga fólks. Nema á Íslandi. Á Íslandi þurfti fyrirtækið eða starfsemin að vera eitthvað sem ríkisvaldið kallaði „lífvænlegt“. Ekki var gefin útskýring á því. Ekki ósvipað og í bankaráninu síðasta, þegar fólki var hent út af heimilum sínum, sem það átti allt í einu ekki fyrir. Það þurfti að betla og umboðsmaður skuldara titlaði suma óráðsíufólk og stjórnmálamenn töluðu um flatskjáskaup. Betlararnir þurftu að vera „aðlaðandi“ til að fá hjálp. Það var ekki nóg að vera þurfandi, fólk þurfti að vera verðugt. Íslenska kerfið gengur út á verðugleika. Fræg er sagan af gömlu konunni á tíræðisaldri, sem taldi sig þurfa að komast í umönnun á elliheimili. Hún var sett í próf og „metin“. Svo kom bréf þar sem matsnefndin komst að þeirri niðurstöðu að hún væri fullfær um að sjá um sig sjálf. Bréfið barst viku eftir að hún dó.
Í Bretlandi
Vinur minn rekur félag í Bretlandi. Það land hefur reyndar farið offari í Covid-ruglinu, en í apríl, þegar öllum fyrirtækjum hafði verið lokað þar, fékk hann bréf um að hann gæti fengið lán hjá bankanum með ríkisábyrgð upp á 25% af tekjum fyrra árs. Afborgunartími sex ár, fyrsta árið greiðslufrítt. Skilyrði: Engin. Hann sótti um og lánið skilaði sér á innan við sólarhring. Hann þurfti ekki að sanna gott mannorð, góða afkomu, að fyrirtækið væri „lífvænlegt“. Fyrirtæki í Bretlandi gátu byrjað að greiða hvert öðru útistandandi skuldir og kerfið blotnaði af peningum og kerfið varð blautt. Og það var gott.
Þá víkur sögunni til Íslands. Ríkisstjórnin ákvað að loka fyrirtækjum í tilteknum greinum með valdboði án þess að taka á því ábyrgð. Valdboðinu fylgdu engin skilyrði um að þeir sem skulduðu skatta þyrftu ekki að loka. Allir þurftu að loka. Og síðan ákváðu stjórnvöld að bæta fyrirtækjunum tjónið, en bara þeim sem voru „lífvænleg“. Þau sem höfðu skuldað skatta fengju ekki bætur. Mjög merkileg regla. Við vorum svo ólánsöm að hafa skuldað skatta 31.12. 2019.
Hinir „lífvænlegu“
Við vorum sem sagt ekki lífvænleg þó svo að við værum í hagnaði. Við trúðum eiginlega ekki eigin augum. Við vorum eins og margir í ferðaþjónustu að byggja upp unga atvinnugrein og vorum oft á eftir með ýmislegt yfir veturinn sem var svo klárað yfir sumarið. Í sumar ákváðum við að spyrja fjármálaráðuneytið hvort það gæti verið að engar bætur fengjust fyrir þá sem hefðu skuldað skatta, burtséð frá upphæðum. Væri nóg að skulda 100 þúsund eða tíkall til að falla af listanum? Í ágúst fengum við loks þau svör að við skyldum bara prófa að borga það sem eftir væri af sköttum og ef það kæmi grænt á umsóknina, þá væri allt í lagi. Þetta var 10. ágúst. Við vorum ekki viss um hvað gera skyldi en ákváðum svo að taka sénsinn, þó svo að ráðuneytið, sem var höfundur reglnanna, treysti sér ekki til að gefa skýr svör. Við tókum prívatlán fyrir restinni af sköttunum og náðum að gera það í byrjun september og sóttum um lán og lokunarstyrk. Við fengum alltaf „rautt“ og þegar við höfðum samband við ráðuneytið aftur, þá kom svarið að við skulduðum enn 11 þúsund krónur. Þannig að það kom rautt. Og við borguðum 11 þúsund krónur en aftur kom rautt. Ráðuneytið ráðlagði okkur að tala við skattinn. Við gerðum það en dagarnir liðu. Skatturinn sagði, þá loksins við náðum sambandi: Það vantar átta krónur. Og við borguðum átta krónur, sóttum um lokunarstyrk en fengum nei, við vorum fimm dögum of sein.Höfundur er í Félagi smáfyrirtækja og einyrkja. jonassonb@gmail.com