Fara í efni

UMRÆÐA UM KVÓTAKERFIÐ VERÐUR AÐ VERA TRÚVERÐUG

Forsætisráðherra segir að sér verði um og ó við samþjöppun í sjávarútvegi og segist skilja óánægju með kvótakerfið. Prýðilegt. Orð eru til alls fyrst.

Vandinn er sá að orð voru líka sögð fyrir tuttugu árum af hálfu VG og Samfylkingar, ekki bara lýst áhyggjum heldur því heitið að afnema kvótakerfið með því að fyrna kerfið. VG vildi fyrna kerfið á tuttugu árum. Gott ef Samfylking vildi ekki að farið yrði hraðar í sakirnar.

Þessi orðuðu fyrirheit urðu aldrei að veruleika þrátt fyrir samstjórn þessara tveggja flokka í heilt kjörtímabil. Í ljós kom þá að innan flokkanna beggja var að finna andstöðu gegn hvers kyns grundvallar breytingum á kerfinu og þar með varðstöðu um það. 

Nú heyrist engin rödd á þingi sem vill afnám kerfisins, aðeins deilt um hve há gjöld skuli sett á þá sem sölsað hafa undir sig sjávarauðlindina til síðan að braska með hana eða láta ganga í arf. Með öðrum orðum gripdeildarmenn mega fara sínu fram – bara ef þeir borga ásættanlega skatta af ránsfengnum. Deilurnar standa þá um skattheimtuna eða gjaldtökuna. Ekki ránskerfið. 

Þótt krafan um afnám framsalskerfisns hljómi ekki á Alþingi er hún engu að síður hávær í þjóðfélaginu og að því mun koma að ekki verði framhjá almannaviljanum gengið. Það yrði ekki einu sinni kallað eignarnám þegar kvótakerfið yrði numið úr gildi því eignarhaldið á sjávarauðlindinni heyrir þjóðinni til.

En hvernig getur það farið saman að lýsa áhyggjum yfir þessu ránskerfi en halda engu að síður áfram að setja nýjar fisktegundir í kvóta eins og gert hefur verið í tíð þessarar ríkisstjórnar, nú síðast fyrir nokkrum vikum með sæbjúgu og sandkolann að fullu í kvóta. Þar áður var það hlýrinn.

Varla verðmætustu tegundir kann einhver að segja. En þetta er engu að síður til marks um vilja til að útvíkka framsalskerfið, ekki vinda ofan af því. 

Í greinargerð með síðasta kvótasetningarfrumvarpinu, um sæbjúgu og sandkola, segir: „ Lög um stjórn fiskveiða eru öðrum þræði reist á mati á því að sú hagkvæmni, sem leiði af varanleika aflahlutdeildar og heimildum til framsals hennar og aflamarks, stuðli að arðbærri nýtingu fiskstofna fyrir þjóðarbúið í samræmi við markmið 1. gr. laganna."

Fyrsta grein laganna kveður á um eignarhald þjóðarinnar. Þarna er hlaðið inn mótsögnum því boðaðar lagabreytingar ganga á þennan eignarrétt með varanlegum aflaheimildum. Svo er að skilja að það sé réttlætanlegt því það sé hagkvæmt fyrir þjóðarbúið. Ég fullyrði að svo sé ekki. Auk þess sem það er með öllu óréttlætanlegt að svipta þjóðina eign sinni. 

Á öðrum stað í greinargerð þessa frumvarps um varanlegar aflaheimildir segir: "Með frumvarpi þessu er leitast við að tryggja verðmætasköpun til lengri tíma, enda ýtir aflamarksskipulag jafnan undir hagræðingu og bætta afkomu í rekstri.“

Er ekki eitthvað sem vantar inn í þessa umræðu til að hún verði trúverðug?