UPP TEKUR SIG GAMALT MEIN
Styrmir Gunnarsson, fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins hefur vakið athygli fyrir skrif sín á undanförnum mánuðum. Athyglisverðast þótti mér uppgjör hans við fortíð sína í pólitík og reyndar miklu meira en það: Uppgjör hans við pólitík Kaldastríðsáranna, grimma flokkshugsun þess tímabils og forræðishyggju. Þetta gerði hann í bók sinni „Umsátrið, fall Íslands og endurreisn, mikilvægur aldarspegill".
Þar talaði Styrmir fyrir auknu lýðræði, vildi virkja dómgreind hvers og eins, opna á allar upplýsingar, allt ætti að vera gagnsætt og öllum sýnilegt. En með því að gera allar upplýsingar um málefni sem varða okkur öll opinberar yrði gerbreyting á samfélaginu: "Í einu vetfangi væri fótunum kippt undan lágkúrulegri fjölmiðlun, sem meirihluti fólks er þreyttur á og hefur skömm á. Og um leið yrði athyglisverð breyting á valdahlutföllum í samfélaginu. Skyndilega misstu þeir völdin, sem hafa þrifizt í skjóli leyndarinnar, sem hvílt hefur yfir stóru og smáu."
Heimur baktjaldamannsins
Nú hefur nýjasti pistill hans á Evrópuvaktinni ( sjá slóð að neðan) í sjálfu sér ekki beint með leyndarhyggju að gera. En í honum birtist okkur hugsunar-heimur baktjaldamannsins og þannig þankagangur þess tíma sem við töldum sum hver að Styrmir Gunnarsson hefði sagt skilið við.
Vangaveltur hans ganga út á að gera því skóna að annarlegir hagsmunir hafi ráðið því að ég leggi til að samningaferlinu við ESB verði hraðað. Fyrst og fremst vaki fyrir mér að lægja öldur innanflokks svo stjórnarsamstarfið laskist ekki en það hafi ekkert með ESB að gera: „Er þetta það, sem vakir fyrir Ögmundi Jónassyni með grein hans í Morgunblaðinu: að komast í gegnum flokksráðafund VG, kaupa flokksforystunni frið í nokkra mánuði með hliðarleik og svo haldi aðlögunarferlið áfram eins og ekkert hafi í skorizt? Hér skal ekkert fullyrt um það en ef svo skyldi vera verður fróðlegt að sjá, hvort grasrótin í VG tekur við þeirri dúsu eins og ekkert sé."
Þrennu svarað úr máli Styrmis
Það er rétt hjá Styrmi Gunnarssyni að ég vil að stjórnarsamstarfið haldi, einfaldlega vegna þess að ég tel það ekki heppilegt fyrir íslenskt samfélag að fá Sjálfstæðisflokkinn glóðvolgan úr hruninu að stjórnvelinum að nýju. Nýjstu hugmyndir hans eru þegar grannt er skoðað lítið annað en allt gamla vopnasafnið, meiri álver og minni skatta á fjármagn og fyrirtæki. Almennt launafólk fékk að kynnast því hvað þetta þýðir og þjóðin síðan öll í kjölfarið. Það breytir því ekki að núverandi ríkisstjórn hefur mistekist margt. En þá er verkefnið að bæta úr því einsog kostur er. Hugmyndafræði AGS hefur ráðið of miklu og er brýnt að takast á við hana. Það gerum við ekki með hjálp Sjálfstæðisflokksins sem jú tók á móti þessum gistivini okkar haustið 2008; átti að vísu ekki margra kosta völ en hugmyndafræðin stendur hjarta frjálshyggjunnar nær en félagshyggjunnar. Um það deilir enginn.
Í annan stað er það rétt hjá Styrmi Gunnarssyni að ég hef áhyggjur af deilum innan VG um ESB málin. Ég er í hópi þeirra sem studdu og styðja það að niðurstaða verði fengin í viðræðum við ESB um þau álitamál sem margir Íslendingar segja að ráði úrslitum um hvort þeir samþykki eða hafni inngöngu í ESB. Innan VG er almenn andstaða gegn inngöngu og samþykktir flokksins ganga í þá átt. Þeir eru einnig margir sem voru mjög gagnrýnir á afstöðu okkar sem samþykktum að ganga til samningaviðræðna við ESB. Það er ekkert óeðlilegt eða annarlegt þótt reynt sé að finna leiðir til að sætta fylkingar.
Í þriðja lagi er það fullkomlega eðilegt, málefnalegt og að mínum dómi skynsamlegt að flýta þessu ferli sem kostar okkur gríðarlega fjármuni og rífur þjóðina nánast á hol í stöðugum innanátökum. Ef við getum sparað fé, lægt deilur og náð lýðræðislegri niðurstöðu í þessu mikla deilumáli tel ég til nokkurs unnið.
Vonandi ekki varanlegt afturhvarf!
Í þessu felast engin undirmál þótt stjórnmálarýnanda Kaldastríðsáranna komi það svo fyrir sjónir. Ég vona að gamalt mein hans hafi ekki tekið sig upp til frambúðar.
Grein Styrmis Gunnarssonar á Evrópuvaktinni: http://www.amx.is/tenglar/117245/
Umfjöllun mín um bók SG: https://www.ogmundur.is/is/greinar/frjals-madur-er-ottalaus
Sjá viðbrögð Árna Þórs Sigurðssonar: http://eyjan.is/2010/11/15/arni-thor-segir-hugmyndir-ogmundar-oraunhaefar-rynivinna-islands-og-esb-hefst-i-dag/
Sjá frétt á Pressunni: http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/ogmundur-skuffadur-ut-i-arna-thor-heldur-madurinn-ad-eg-viti-ekki-hvad-eg-er-ad-segja