UPPÁKLÆDDUR KAPÍTALISMI
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 30/31.01.21.
Alheimskreppur kenna margt. Meðal annars það að þótt við getum komist af án þess að fara í bíó eða til útlanda, án þess að gera margt sem okkur finnst skemmtilegt, þá eru engu að síður þeir þættir í tilverunni sem við getum illa verið án.
Við getum ekki verið án heilbrigðisþjónustu, í síðustu lög viljum við loka skólum barnanna okkar; klóak, vatn, heitt og kalt, og að sjálfsögðu rafmagn þurfum við að hafa og slökkvilið.
Með öðrum orðum, grunnþjónusta þarf að vera fyrir hendi, líka í kreppum. Hún er kjölfestan í nútímasamfélagi.
Þetta vita fjárfestarnir, handhafar fjármagnsins. Undanfarna þrjá áratugi hafa skipulögð samtök þeirra á heimsvísu kappkostað að komast yfir þessa öruggustu fjárfestingu sem til er. Markmiðið hefur verið að ná innviðum samfélagsins undan handarjaðri þess og í sínar hendur. Við þetta hafa menn baukað í sínum hornum en með vaxandi þunga í alþjóðlegu samstarfi.
Á tíunda áratugnum reyndi auðríkjaklúbburinn OECD árangurslaust fyrir sér með MAI-samningana (Multilateral Agreement on Investment); um miðjan tíunda áratuginn var Alþjóðaviðskiptastofnunin (WTO) sett á laggirnar og svokölluð GATS-samningalota (General Agreement on Trade in Services) hófst. Hún gekk einmitt út á að markaðsvæða innviði samfélaganna, en mætti andspyrnu og var bremsuð af – í bili.
Stórkapítalið var nefnilega ekki af baki dottið og hófst nú handa um að endurræsa viðræðurnar á bak við tjöldin.
Rikisstjórnir vestan hafs og austan voru heldur betur til í tuskið. Viðskiptaráðherra Obamas sagði í umboði forseta síns að nú væri um að gera fyrir „þróuðu“ ríkin að semja á grundvelli markaðsvæðingar, önnur ríki sæju sig knúin til að koma á eftir. Í Brussel var þessu fagnað og uppi á Íslandi var þessum boðskap einnig vel tekið. Komið var árið 2014.
En svo kom árið 2016 með Donald nokkurn Trump undir stýri. Hann vildi enga slíka alþjóðavæðingu og stöðvaði því hraðsiglingu Obama-stjórnarinnar með milliríkjaviðskipta- og fjárfestingasamninga byggða á TiSA-samningunum svokölluðu (Trade in Services Agreement).
Það óhugnanlega við þessa samninga eru að sjálfsögðu skuldbindingarnar um markaðsvæðingu innviða samfélaganna en einnig hitt að deilumál verði leyst fyrir gerðardómum með aðkomu auðhringanna. Þar með yrði grafið undan réttarríkinu á heimsvísu – hvorki meira né minna.
Og út á það gengur leikurinn: Að skáka þjóðríkinu til hliðar og greiða götu auðvaldsins sem nú er á góðri leið með að ná undir sig öllum helstu stofnunum Sameinuðu þjóðanna með því að pumpa í þær fjármunum.
Samkoma auðhringa heimsins og handlangara þeirra í Davos í Sviss kallar sig World Economic Forum og þykist sú samkoma nú vera rödd heimsins í umhverfis- og samfélagsmálum. Hrokinn verður skiljanlegur þegar haft er í huga að World Economic Forum hefur gert samkomulag við Sameinuðu þjóðirnar um að leiða heiminn inn á farsælar brautir undir slagorðinu „Strategic partnership“ og sjálft skilgreinir World Economic Forum sig sem „the international organization for public-private partnership“, PPP, samstarf einkaframtaks og hins opinbera.
En þegar hér er komið sögu fer að fara um margan manninn sem barist hefur gegn ásælni markaðsaflanna inn í grunnþjónustu samfélaganna. Fyrst var barist gegn einkavæðingu. Hún hét bara því heiðarlega nafni, en svo þegar óorð var komið á hana var hún kölluð einkaframkvæmd (á ensku Private Finance Initiative, PFI) og þegar óorð var komið á PFI var endurskírt og kallað, ja viti menn, PPP, Private Public Partnership. Innihaldið það sama, en nú var kapítalisminn orðinn uppáklæddur sem aldrei fyrr.
Og nú segist auðvaldið í Davos ætla að „endurræsa“ kapítalismann eftir Covid, „the Great Reset“. Allir verði umhverfisvænir og samfélagsleg ábyrgð í hávegum, læknað og líknað og börnunum kennt að lesa en kannski búin til stöku sprengjuvél til að halda uppi nauðsynlegum aga.
Hvað bíður okkar? Biden er sestur við stjórnvölinn vestra og skoðanasystkini hans stýra austan Atlantsálanna.
Auðhringar heimsins hugsa því gott til glóðarinnar. Þeir tala mjúklega, segjast ætla að passa betur upp á aðþrengda jörð, og misskiptan heim en, og takið nú eftir, með þessu móti megi stækka kökuna! Það er þeirra vonarstjarna sem alltaf fyrr.
En hvað ætlum við, almenningur, að gera, láta stela heiminum frá okkur á þennan hátt?
Er hætta á því að lýðræði verið látið víkja fyrir auðræði?
Já, það er hætta á því.