UPPGJÖR EÐA SÁTTALEIÐ?
Birtist í Morgunblaðinu 1.11. 2006
Umræðan um hleranir á Íslandi á kaldastríðstímanum er fróðleg og áhugaverð fyrir margra hluta sakir. Þannig er komið í ljós að símar starfandi stjórnmálamanna voru hleraðir m.a. í tengslum við Þorskastríðin og símar forystumanna í verkalýðshreyfingunni voru hleraðir í tengslum við vinnudeilur! Það er ekki að undra að þeir sem skipuðu sér í flokk með þeim sem sátu handan hlerunartækjanna gerist nú sakbitnir og rói sumir lífróður til að finna sögulega réttlætingu fyrir þessum mannréttindabrotum.
Morgunblaðið gengur hér harðast fram. Reykjavíkurbréf blaðsins, sunnudaginn 29. október, er undirlagt kaldastríðstali undir flennistórri mynd sem tekin var á Austurvelli 30. mars 1949 þegar til átaka kom við Alþingishúsið er aðildin að Nató var samþykkt þar innandyra.
Í þessum skrifum er miklu púðri eytt í að rifja upp gamlar staðhæfingar um að fundist hafi í skjölum í Moskvu vísbendingar um að háttsettir ráðamenn þarlendir hafi látið í ljósi vilja til að fá þá íslenska stjórnmálamenn sem fremstir stóðu í hópi sósíalista til opinberra heimsókna til Moskvu. Ekkert er um það fjallað hvort rannsókn hefði leitt í ljós svipaðan áhuga á ráðamönnum úr öðrum flokkum og hvort þeir hafi þegið slík boð.
Kindarlegir gistivinir
Mér er nefnilega minnisstætt einhvern tímann þegar staðhæfingar um Moskvuboð komu fram í Morgunblaðinu, rækilega flenntar yfir síður blaðsins, að ég var staddur í allstórum hópi stjórnmálamanna og einstaklinga úr viðskiptalífinu sem margir voru komnir til ára sinna. Í hópnum var þá stödd Adda Bára Sigfúsdóttir, framákona í Alþýðubandalaginu um langt árabil. Hún sagðist oft hafa furðað sig á þessum skrifum um meinta Moskvu-þjónkun. Sjálf hefði hún aldrei til Moskvu komið. Sig langaði hins vegar til að gera ofurlitla könnun og biðja viðstadda sem þegið hefðu boð til Moskvu af þarlendum stjórnvöldum að rétta upp hönd. Helmingurinn rétti upp höndina og virtist mér flokkslínur þar engu skipta. Flestir féllu undir skilgreiningu Morgunblaðsins á „lýðræðissinnum“. Mér er minnisstætt hve kindarlegir margir urðu á svipinn þar sem þeir stóðu með hönd sína á lofti og gengust þar með við því að hafa verið gistivinir Sovétkomma!
Morgunblaðið hluti af stjórnkerfinu?
Það er þó ekki þessi kafli Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins sem mér þótti áhugaverðastur heldur hitt hve nærri því Morgunblaðið kemst að líta á sig sjálft sem stjórnvald. Í þessum skrifum Morgunblaðsins svífur sá andi yfir að mannkyninu hafa á þessum árum mátt skipta upp í „lýðræðissinna“ annars vegar og hina sem „gengu erinda Sovétríkjanna“. Látum réttmæti þessarar söguskoðunar liggja á milli hluta að sinni þótt hún sé fráleit. Morgunblaðið segir hins vegar að skilja megi við þetta tímabil Íslandssögunnar með tvennum hætti, sáttaleið eða uppgjörsleið. Um þetta hafi orðið umræður á sínum tíma: „Niðurstaðan varð ...sú að ekki var efnt til allsherjar uppgjörs við þá sem gengið höfðu erinda Sovétríkjanna hér. Einn af þeim sem beittu sér fyrir því að uppgjörsleiðin var ekki farin var Matthías Johannessen, þáverandi ritstjóri Morgunblaðsins, sem taldi að nóg væri komið. Eitt skýrasta dæmi um framrétta sáttahönd var skipan Svavars Gestssonar, sem var ekki bara formaður Alþýðubandalagsins um skeið, heldur eins konar pólitískur handhafi þeirrar arfleifðar sem gömlu kommúnistaforingjarnir Einar Olgeirsson og Brynjólfur Bjarnason skildu eftir sig, sem sendiherra í utanríkisþjónustu Íslands. Þeirri stöðu hefur
Morgunblaðið telur
Þarna er engu líkara en Morgunblaðið telji sig hafa ráðið því að tilteknum einstaklingi hafi verið treyst fyrir að gegna sendiherrastöðu! Hann hafi vissulega risið undir þeirri ábyrgð með sóma segir Moggi. Þetta var sem sagt hluti af sáttagjörð Morgunblaðsins. Nú heimti menn hins vegar hver um annan þveran að fá aðgang að gögnum um njósnir og hleranir þar sem þeir hafi sjálfir komið við sögu. Morgunblaðið úrskurðar í Reykjavíkurbréfinu að það ætti ekki að þurfa að „ógna öryggi ríkisins“ að veita þeim þessar upplýsingar(!), verra væri ef þeir ætluðu að leggja frekar út af því sem þeir kæmust á snoðir um og „fella dóma“ yfir pólitískum andstæðingum sínum.: „Morgunblaðið hefur verið þeirrar skoðunar að þeir einstaklingar sem símar voru hleraðir hjá á þessum árum ættu að fá öll gögn í sínar hendur um þær hleranir sem til væru. Þetta eru heimildir um sögu þeirra sjálfra og pólitíska fortíð þeirra. Þegar hér er komið sögu ógnar það á engan hátt öryggi ríkisins þótt
Í umræddu Reykjavíkurbréfi er ítrekað að Morgunblaðið sé tilbúið að ræða þessi mál í þaula en blaðið segir slíkt þjóna „takmörkuðum tilgangi nú“! : „Á þeim tíma sem liðinn er hefur umtalsverðum upplýsingum verið safnað saman um þjónkun og erindrekstur sósíalista á Íslandi á þeirri tíð og liggja fyrir. Þegar þær upplýsingar lágu fyrir m.a. í bókum var þeim ekki beitt að neinu ráði gegn þeim sem hlut áttu að máli. Er það þeim í hag að þessar upplýsingar verði nú teknar til umræðu? Er það þjóðfélaginu í hag að á ný hefjist umræður um atburði kalda stríðsins? Er það sérstakt kappsmál þessarar þjóðar að klofna í herðar niður á nýjan leik vegna valdatafls stórvelda úti í heimi? Það má merkilegt teljast ef forystumenn vinstriflokkanna á 20. öld, sem enn eru á góðum aldri, telja þetta eftirsóknarvert en þeir eru með málflutningi sínum um þessar mundir komnir vel á veg með að knýja slíkt uppgjör fram.”
Vítt sjónarhorn en ekki þröngt
Að mínu mati mættu þær upplýsingar sem Morgunblaðið nefnir um Moskvuboð til íslenskra sósíalista skoðast miklu betur og undir mun víðara sjónarhorni en Morgunblaðið gerir. Gæti nú verið að þessar og ámóta upplýsingar sem Morgunblaðið segir í Reykjavíkurbréfinu að hafi ekki verið „beitt að neinu ráði gegn þeim sem hlut áttu að máli“, séu álíka haldgóðar og aðdróttanir í garð manna sem um áratugaskeið þurftu að búa við rógburð um að ganga erinda austur-þýsku leyniþjónustunnar Stasi?
Í grein Þórs Whithead sagnfræðings, sem birtist í tímaritinu Þjóðmálum og verið hefur til umfjöllunar í fjölmiðlum að undanförnu, kom hins vegar fram að leyniþjónustur Vestur-þýskalands, Bandaríkjanna og einnig sú íslenska (!) hefðu sannfærst um það fyrir löngu að fyrir þessum ásökunum hafi aldrei verið flugufótur!
Auðvitað þarf að leiða í ljós upplýsingar af þessu tagi. Þá fyrst getur farið fram uppgjör í sátt. Án þess að sannleikurinn sé leiddur í ljós verða engar sættir. Og ekki er það heldur vænleg leið til sátta að hafa í hótunum við menn eins og gert er í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 29. október. Uppgjörsleiðin og sáttaleiðin þurfa ekki að vera andstæður. Hættum ærumeiðingum, hættum ódýrum tilhæfulausum ásökunum og mannorðsmorðum, hvort sem um er að ræða